08.12.1934
Neðri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (4649)

79. mál, ferðamannaskrifstofa

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Það var fyrir alllöngu, að allshn. tók til meðferðar brtt. á þskj. 224 og ræddi þær allýtarlega. Var þá ákveðið af 4 nm., sem viðstaddir voru, að leggja á móti, að þær yrðu samþ. Var það byggt á því, að n. taldi nægilegt, að hér væri um heimild að ræða fyrir ríkisstj. til þess að setja á stofn ferðamannaskrifstofu, ef einstakir menn tækju sig ekki fram um það, en ástæða þætti til að gera sérstakar ráðstafanir til að auka ferðamannastrauminn. En brtt. á þskj. 224, sem fyrirskipar að setja skrifstofuna á stofn, og aðrar brtt. í sambandi við hana finnst okkur því ekki ástæðu til að taka upp. Allshn. hefir ekki borið fram nema aðeins eina brtt. á þskj. 249, við 6. gr. frv., og miðar hún að því að fela atvmrh. að ákveða mínar með reglugerð um fyrirkomulag og rekstur ferðamannaskrifstofu ríkisins. — Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um þetta. Þó vil ég geta þess, að það kom einn einkennilegur hlutur fyrir í n. Einn hv. nm., sem var viðstaddur á fundi n. þegar mál þetta var rætt, lýsti yfir, að hann væri meiri hl. samþ. um frv., en nú hefir hann skrifað undir minnihl.álit með öðrum samflokksmanni sínum úr n., sem ekki var viðstaddur, og leggur til, að frv. verði fellt, eða vill a. m. k. ekki eiga þátt í samþ. þess. Þessi nm. er hv. 8. landsk., og geri ég ráð fyrir, að hann viðurkenni þetta. Er þetta mjög óviðkunnanleg framkoma, sem sjálfsagt stafar af því, að þm. er ungur og óvanur þingstörfum og veit ekki, að það er talin skylda að standa við það á þingi, sem samþ. er í n. Ég skal játa, að það var yfirsjón að setja í brtt. n., að hún væri frá allshn., þar sem þm. Snæf. var ekki viðstaddur. En ég gerði ráð fyrir, vegna þess hve hv. 8. landsk. samþ. hana greiðlega, að samflokksmaður hans, hv. þm. Snæf., mundi einnig vera með henni. En hv. þm. Snæf. hefir reynzt það sterkari en hv. 8. landsk., að hv. 8. landsk. hefir orðið að skrifa undir álit gagnstætt því, sem hann áður var búinn að samþ. vona ég, að slíkt komi ekki oftar fyrir hv. þm., og skal ekki orðlengja frekar um þetta. Meiri hl. allshn. leggur því til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir með brtt. á þskj. 249.