14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (4778)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson):

Ég ætla hér lítilsháttar að minnast á þá mótbáru hv. 1. þm. Eyf., að frv. eða 2. gr. fari í bága við stjskr. Ég hefi áður heyrt þessu haldið fram, og mér er satt að segja óskiljanlegt, hvernig nokkur maður hefir fengið þetta inn í sitt höfuð. Frv. á að þrengja rétt ráðh. til greiðslu á ríkisfé utan fjárl., og þótt gert sé ráð fyrir því í frv., að samþykki allrar nefndarinnar veiti honum greiðsluheimild, er það auðvitað mál, að það, sem greitt er eftir samþykki n., verður að koma á fjáraukalög eftir sem áður. Þetta gerir því enga breytingu á stjskr., enda hefir hæstv. forseti enga ástæðu séð til þess að vísa frv. frá af þeim orsökum. Þessi greiðsluheimild er í eðli sínu alveg sú sama og er þingið veitir stj. heimild til greiðslu með þáltill. Ráðh. er að vísu vítalaus, ef n. veitir samþykki sitt til greiðslunnar, en á fjáraukalög verða greiðslurnar auðvitað að koma.

Hv. 4. landsk. hefir borið hér fram nokkrar brtt., sem að vísu hefir verið synjað um afbrigði um, og koma því ekki til atkv. fyrr en að líkindum við 3. umr. Hv. þm. lýsti yfir fylgi sínu við málið, eins og ég raunar bjóst við, þar sem þessi stefna er í samræmi við yfirlýstan vilja flokks hans. Ég geri nú ráð fyrir, að við, flm. frv., gætum til samkomulags gengið inn á brtt. hans að einhverju leyti, þótt við teljum þær draga mjög úr gagnsemi frv. En við væntum þess jafnframt fastlega, að hann og flokksbræður hans hjálpi okkur til að koma frv. til 3. umr. Ég geri varla ráð fyrir, að frv. geti fengið afgreiðslu á þessu þingi, en með því ætti þó að geta verið fenginn grundvöllur undir löggjöf um þetta efni.

Ég vil benda hv. 4. landsk. á það, að brtt. hans við 5. gr. myndi, ef samþ. yrði, gera tilgang frv. að engu. Eigi ráðh. aðeins að vera ábyrgur fyrir næsta þingi, getur hann alveg eins og nú greitt fé úr ríkissjóði í heimildarleysi, í trausti á samþykki þess meiri hl. þar, sem hann styðst við. Að vísu geta farið fram kosningar á milli, en það er vitanlega sjaldnast. Að vísu er ráðh. eftir frv. vítaverður, ef n. hefir neitað honum um samþykki á greiðslu, sem hann hefir innt af höndum, en flokksbræður hans myndu auðvitað leysa hann undan allri ábyrgð með samþykki á fjáraukalögum á næsta þingi, alveg eins og nú.

Annars er það alveg óþarfi hjá hv. 1. landsk. að þykja það svo mjög óttalegt, þótt vitnað sé í hegningarlögin í þessu sambandi. 143. gr. er ekki um fjárdrátt, heldur um embættismenn, sem fara ekki eftir fyrirskipunum laganna, og viðurlög við slíku geta verið fangelsi, embættismissir eða aðeins sektir. Ég vil því skjóta því til hv. 4. landsk., að hann taki þessa brtt. aftur, eða a. m. k. geti henni annað form.