23.10.1934
Efri deild: 19. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 504 í C-deild Alþingistíðinda. (4841)

84. mál, einkasala á fóðurmjöli og fóðurbæti

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Mér þótti vænt um, að nú brá því þó fyrir, sem vitanlega er meint með frv., sem sé að einkasalan sé betri en frjáls verzlun.

Annars get ég verið ánægður með svör hv. þm., því að hann játaði alveg, að það þyrfti að umsteypa frv., ef það ætti að ná tilgangi þeim, sem hann talaði um í fyrri ræðu sinni.

Hann breytti um venjulega skilgreiningu á því, hvað væri kostnaðarverð, og sagði, að þar ætti að reikna allan kostnað af verzluninni, en það hefir verið skilið svo, að þar væri átt við að selja vöruna án nokkurrar álagningar, en þessi 2% þættu þá hæfilegur verzlunarkostnaður. En fyrst hann útskýrir það svona, þá verður vitanlega nokkur afgangur, en þá fyndist mér réttast að taka það skýrt fram, að þessi 2% ættu að ganga til að framkvæma þessar rannsóknir. Og eins og hann sýndi fram á, þá mætti fela þetta að einhverju leyti Búnaðarfél. Ísl., og að það legði þá eitthvert fé fram, heldur en að fara að setja upp sérstaka stofnun.

Eins og kunnugt er, þá er nú í ráði að setja á stofn sérstaka rannsóknarstofnun, sem á að rannsaka ýmislegt í þágu atvinnuveganna hér á landi, og væri sjálfsagt, ef sú stofnun kemst upp, að hún verði þá látin annast þessar rannsóknir.

Annars sé ég ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta að sinni. Málið er nú komið inn í nýjan forveg, og ég býst við, að ef landbn. tekur málið til athugunar, þá leggi hún til að gera á frv. breyt. samkv. skýringum hv. þm. sjálfs.