18.12.1934
Efri deild: 64. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í C-deild Alþingistíðinda. (4891)

140. mál, hússtjórnar- og vinnuskóli fyrir konur í Reykjavík

Frsm. minni hl. (Guðrún Lárusdóttir):

Eins og þskj. 626 ber með sér, gat ég ekki orðið samferða meiri hl. n. í þessu máli. Hefi ég gert grein fyrir því í nál. mínu. Að breyta kvennaskólanum í hússtjórnarskóla væri sama og að leggja hann niður sem þá sérstöku stofnun, er hann hefir verið. Nýlega var 60 ára afmæli skólans, og má í nýútkominni skólaskýrslu sjá yfirlit yfir starfsemi skólans á þessu tímabili. Ber skýrslan með sér, hve mikið það starf er og hve margar íslenzkar konur hafa sótt þangað menntun sína. Eins og hv. frsm. meiri hl. tók fram, eru nú aðrar ástæður fyrir konur um menntun en áður var. En samt eru margar stúlkur og foreldrar í landinu, sem kjósa heldur menntun í kvennaskóla en samskólum, þó margt gott megi segja um þá síðarnefndu.

Kvennaskólinn í Rvík hefir lagt mikla stund á að undirbúa stúlkur undir framhaldsnám. Hann hefir leitazt við að kenna ekki aðeins bókleg fræði, heldur jafnframt að manna stúlkurnar.

Ég hefði gaman af að lesa, með leyfi hæstv. forseta, nokkur orð úr riti því, sem ég minntist á, ritað af forstöðukonu skólans. Mér þykir það hlýða, þegar annarsvegar er verið að bollaleggja að leggja niður Kvennaskólann. Hún segir svo:

„Þann 14. maí 1934 lauk skólinn 60. starfsári sínu. Öll þessi ár hefir skólinn aldrei brugðið frá þeirri stefnu, er honum í upphafi var mörkuð sem skóla, er veitti ungum stúlkum staðgóða fræðslu til munns og handa. Skólinn hóf starf sitt í mjög smáum stíl og með litlum föngum, en hefir vaxið jöfnum vexti hægt og hægt, enda aldrei lagt aðaláherzluna á að gerast æðifjölmennur skóli, en frekar lagt stund á hitt, að nemendur þeir, er hann sóttu, fengju þar þá fræðslu, sem gæti orðið þeim gott vegarnesti, þá er út í alvöru lífsins kæmi. Þegar litið er til baka yfir hina löngu æfi skólans, dylst engum, að hann hefir átt því láni að fagna, að nemendur hans hafa reynzt góðar og nýtar konur og hæfar um að leysa af hendi þau störf, er þær hafa haft aðgang að, og er það von mín og ósk skólanum til handa, að svo verði og um ókomin ár“.

Ég les ekki lengra. Þetta nægir til að gefa þeim, sem þingtíðindin lesa, hugmynd um, hve miklu máli það skiptir, að skólinn fái að vinna í friði sitt göfuga starf. Hér um bil 3000 konur hafa sótt þangað menntun sína undanfarin 60 ár.

Nú liggur hér annarsvegar fyrir uppástunga þess efnis, að sérstakur hússtjórnarskóli verði stofnaður fyrir Rvík. Þó er líklega til lítils að ræða það mál nú, og munu örlög þess vera fyrirfram ákveðin með hinni rökst. dagskrá hv. meiri hl. n. Meiri hl. viðurkennir að vísu þessa þörf, en skilur hana þó ekki betur en svo, að hann vill leggja niður Kvennaskólann. En þetta getur varla komið til mála af þeirri ástæðu, að Kvennaskólinn er ekki ríkisstofnun, enda þótt hann hafi nokkurn ríkisstyrk. Væri það hugsanlegt, að ríkið kippti að sér hendinni um styrkveitingar til skólans? Því get ég varla trúað.

Sú skólastofnun, sem vakir fyrir konum í þessum bæ, er slík, sem lesa má um á þskj. 324. Má reyndar segja, að ekki séu miklir fjárhagsmöguleikar fyrir stofnun slíks skóla nú. En það ætti þó ekki að standa í vegi fyrir löggjöf í þessu efni. Við höfum nú l., samþ. 1917, um stofnun hússtjórnarskóla á Norðurlandi, þó að þau lög séu ekki komin til framkvæmda ennþá.

Því lengra sem líður verða gerðar meiri kröfur til kunnáttu kvenna í heimilisstörfum. Mikið er kvartað undan því, að konur, sem vinna að heimilisstörfum, séu ekki nægilega vel að sér til þess að sinna störfunum. Þetta er engan veginn vandalítið starf. — Sú hugmynd, að við þennan hússtjórnarskóla verði deild til að undirbúa stúlkur, svo að þær geti verið sem þjónustustúlkur á heimilum, á að létta lífið, bæði þeim sjálfum og húsmæðrum þeirra. Að vinna á góðum heimilum, undir stjórn nærgætinna húsmæðra, mun svo oft verða heilladrjúgur undirbúningur undir það að stjórna sjálf heimili. Það hefir verið gert ráð fyrir því að veit, fátækum stúlkum, sem vinna fyrir sér t. d. í formiðdagsvist, möguleika til að mennta sig á þessum skóla í húsmæðra- og heimilisstörfum. Að þetta sé þarft, þarf ekki að efa. Og menn geta athuguð, hvort námsgreinar þær, sem þarna eru taldar, tilheyra ekki verkahring kvenfólksins í þarfir heimilanna.

En það er raunar ekki til annars en eyða tíma deildarinnar að fjölyrða um þetta mál frekar nú, því að það á ekki fram að ganga hvort sem er. En þeir, sem láta sér annt um fræðslu kvenna, ættu að geta séð aðra leið til þess en þá, að leggja niður okkar gamla og góða Kvennaskóla.