11.12.1934
Neðri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 553 í C-deild Alþingistíðinda. (4991)

171. mál, samkomudagur Alþingis árið 1935

Jón Pálmason:

Ég skal ekki tefja umr. lengi, en ég vil aðeins víkja að því máli, sem fyrir liggur, nefnilega á hvaða tíma næsta þing skuli byrja. — Ég sé það í hendi minni, að það mun horfa til nokkurra vandræða að koma þingtímanum svo fyrir að þessu sinni, að ekki verði nokkur árekstur af við atvinnurekstur ýmsra þeirra manna, sem á þingi sitja, því hagsmunir þeirra rekast allmikið á. Kemur þetta sérstaklega fram nú vegna þess, að breytt var til með þinghaldið á þessu ári, svo að stutt liður á milli, ef þing kemur saman aftur á lögskipuðum tíma. Frá hagsmunalegu sjónarmiði minnar stéttar mun hentugast, að þingið komi jafnan saman á þeim tíma, sem stjskr. nú tiltekur, 15. febr., og sé ég þá enga ástæðu til, undir venjulegum kringumstæðum, að ekki sé hægt að ljúka því fyrir miðjan maí, eða á þremur mánuðum.

Nú hefir hæstv. forsrh. lýst því yfir, að ekki muni vera hægt að koma við í þetta skipti að byrja þing eins snemma og stjskr. tiltekur, og er ég ekki fær um að dæma, hvort þær ástæður, sem hann færði fram, eru á svo sterkum rökum reistar, að svo hljóti að verða. En ég hygg, að ef ljúka á þinginu í einu, þá verði annaðhvort að byrja það fyrr en frv. gerir ráð fyrir, eða það reki sig herfilega á atvinnuhagsmuni a. m. k. þeirra þm., er landbúnað stunda. Um þá tilhögun, sem höfð var í ár, að láta þingið koma saman að haustinu, er það að segja, að það er ákaflega óhentugt fyrir marga að fara frá heimilum sínum, þó ekki sé fyrr en 1. okt., hvað þá ef byrja ætti í september, eins og sumir hafa stungið upp á. Þá verð ég að segja, þó leiðinlegt sé að ýmsu leyti og óhentugt að sitja þing fram yfir hátíðar, að það væri skárra heldur en að gera mönnum svo erfitt fyrir sem hlyti að verða, ef byrja ætti þingið í september.

Að öllu þessu athuguðu vil ég láta eindregið í ljós, að ég kysi langhelzt, ef hægt væri að byrja næsta þing fyrr heldur en tiltekið er í þessu frv., og ljúka því svo snemma, að ekki horfi til vandræða fyrir mig og aðra, sem svipað stendur á um hvað atvinnu snertir.

Ég þarf svo ekki að fara um þetta fleiri orðum, því ég ætla ekki að fara að tala um orsakirnar til þess, að þetta þing hefir orðið svo tafsamt sem raun ber vitni um; að þeim hafa ýmsir af flokksbræðrum mínum réttilega vikið. En mér er fyllilega ljóst, að fyrir næsta þing hljóta að koma ýms tafsöm mál, sem gera það að verkum, að naumast er hægt að vænta, að því verði lokið á miklu styttri tíma en þessu. Má þar til nefna launamálið, sem að öllu sjálfráðu hlýtur að verða eitt af aðalmálum næsta þings.