17.12.1934
Efri deild: 63. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 29 í D-deild Alþingistíðinda. (5058)

180. mál, öldubrjótur í Bolungavík

Jónas Jónsson:

Ég vil aðeins bæta því við þau orð, sem hv. þm. N.-Ísf. lét falla hér, að í viðbót við þá rannsókn, sem hann óskar eftir og ég álít sjálfsagða og eðlilega, þá býst ég við, að þeir hv. þm. aðrir, sem eru úr þeim héruðum, sem fyrir skemmdunum urðu, sem er mestur hluti Norðurlands, muni sameinast í því að óska eftir, þótt það verði e. t. v. ekki með till. til þál., að hæstv. stj. láti fara fram athugun á þessum skemmdum. Á Siglufirði eru þær mjög stórvægilegar, og einnig í Grenivík og Húsavík. Þó nokkrar skemmdir munu hafa orðið á Kópaskeri og Haganesvík. En eins og hv. dm. er kunnugt, þá þótti okkur í fjvn. ekki fært að sinna þessu máli Bolvíkinga að svo stöddu, þótt málið snerti stórt þorp og sé að því leyti áríðandi, og vegna þess að um dýrt mannvirki er hér að ræða, óskar heldur eftir því, að rannsókn fari fram, og ég vil nota tækifærið til þess að taka það fram, að n. gerir ráð fyrir því, að til svipaðra ráðstafana og þarna er um að ræða muni koma á öðrum þeim stöðum, er fyrir mestu og tilfinnanlegustu tjóni hafa orðið.