17.12.1934
Neðri deild: 62. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (5084)

86. mál, Vestmannaeyjavitinn á Stórhöfða

Jóhann Jósefsson:

Hv. 3. landsk. var að fræða menn á því, að rafmagnsbylgjurnar næðu lengra en ljósgeislarnir. Það er vitanlega gott að fá þessar upplýsingar, en ég geri bara ráð fyrir, að flestum hafi verið þetta kunnugt fyrirfram. Það er líka öllum vitanlegt, að miðunarstöðin kemur ekki að gagni þeim 80—100 vélbátum, sem stunda sjó við Eyjar, bæði frá Vestmannaeyjum sjálfum og frá Stokkseyri og Eyrarbakka. Rafmagnsbylgjurnar koma þeim ekki að notum, sem vantar tæki til þess að taka á móti þeim. Þetta hefði hv. 3. landsk. átt að vita áður en hann fór að elta mína till., af einskærri fordild, með miðunartill. sinni hér í hv. d.

Það leið ekki nema ein nótt eftir að búið var að útbýta þáltill. um aukningu á ljósmagni Stórhöfðavita, þangað til hv. þm. kemur með sína till., sem hann hefir auðsjáanlega borið fram til þess að elta mína till. og eyðileggja.

Það er óþarft að upplýsa það frekar, að það eru aðeins 2—3 bátar í Vestmannaeyjum, sem gagn geta haft af miðunarstöð, eins og nú standa sakir. Aftur á móti hafa allir vélbátarnir — jafnvel „trillubátarnir“ — gagn af ljósvita.

Hv. þm. Hafnf. upplýsti það, að vitamálastjóri væri mótfallinn þessari till. Það er rétt, að hann er frekar á móti henni. En hann er jafnmikið mótfallinn till. um miðunarstöð. Þessi hv. þm. er nýbúinn að gera bandalag um það að hafa till. vitamálastj. að engu, og er því einkennilegt, að hann vitnar í tillögur hans í þessu máli.