02.11.1934
Efri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Magnús Jónsson) [óyfirl.,]:

Þetta frv. sker sig að því leyti á skemmtilegan hátt úr öðrum frv. hæstv. ríkisstj., að hún hefir lagt það á sig að skrifa hálfa blaðsíðu sem grg fyrir því. Annars sýnir það vel, hversu störfum hlaðin þessi stjórn hefir verið, að hún hefir aldrei mátt vera að því að skrifa grg. fyrir frv. sínum. Það er í sjálfu sér góðra gjalda vert, að færðar eru þessar ástæður, sem tilgreindar eru, fyrir því, að þetta frv. er fram komið. Þó hefir hæstv. stj. ekki enzt tími til að gera grein fyrir öllum þeim ákvæðum, sem ný eru í þessu frv. M. a. er engin grein gerð fyrir því, hvers vegna nú á að afnema lagaákvæðin um álagningu, sem var í þeim lögum, sem hér er verið að breyta, en sem nú á að leggja á vald stj. Hinsvegar sver þessi grg. sig í ættina með því, að ekki er tiltakanlega djúpt lagzt við samningu hennar.

Eins og sjá má á því, sem ég hefi bent á í mínu nál., er ein aðalástæðan, sem er færð fyrir þessari breytingu, sú, að með þessu sé gert auðveldara fyrir um eftirlit með spíritus til iðnaðar. En rétt á eftir í þessari sömu grg. er það réttilega tekið fram, að fram að þessu hafi Áfengisverzlunin haft einkarétt til þess að framleiða þessi hárvötn, sem notaður er spíritus í. Ég sé ekki, hver breyt. er að þessu, þar sem fram að þessu hafa einkafyrirtæki ekki haft þessa framleiðslu með höndum, og eiga heldur ekki að hafa hana hér eftir. Ég sé því ekki, hvernig aðstaðan til eftirlits getur breytzt, þó að þetta frv. verði samþ., því að þótt einhverjir búi til bökunardropa og hárvötn, sem ekki er notaður spíritus í, þá geta þau fyrirtæki ekki notað það sem skálkaskjól fyrir því að fá áfengi til iðnaðar. Ég sé því ekki betur en að hæstv. stjórn hafi slegið niður eina sína meginástæðu fyrir því, að þetta frv. er fram komið.

Önnur ástæða, sem fram kemur í grg. fyrir þessu frv., er í sjálfu sér engin ástæða, að markaðurinn fyrir þessa vöru sé svo takmarkaður, að ekki séu líkur til, að sá iðnaður komist á það stig, að verða samkeppnisfær við erlendan iðnað af sama tægi. Með þessari ástæðu virðist mér vera gengið út frá því sem sjálfsögðu, að þau fyrirtæki, sem framleiða þessa vöru, hafi ekki aðra framleiðslu með höndum. En það er hreinasta fjarstæða. Þessi framleiðsla, a. m. k. nokkuð af henni, hefir verið rekin í sambandi við önnur stærri fyrirtæki, eins og nú er ætlazt til, að Áfengisverzlunin reki þetta í sambandi við annan atvinnurekstur sinn. Og mér er kunnugt um, að ein efnagerðin rekur svona framleiðslu í sambandi við lyfjabúð sína, og það er eðlilegt, þar sem lyfjabúðir verða að hafa rannsóknarstofu og ýms þau tæki, sem sjálfsagt eru heppileg við framleiðslu þessara vara, og þess vegna verður framleiðsla á þeim eðlileg í sambandi við lyfjabúðir, eins og hún er eðlileg í sambandi við Áfengisverzlunina.

Það er tekið fram, eins og rétt er, í grg. fyrir frv., að Áfengisverzlunin hafi með höndum tilbúning á þessari iðnaðarvöru og hafi komið sér upp efnarannsóknarstofu og hafi efnafræðing í þjónustu sinni. Það hefir enginn á móti þessu, og það er ekki nema eðlilegt, að hún reki þennan iðnað í sambandi við sitt fyrirtæki, og það er enginn, sem meinar henni að gera það. Það, sem hér er farið fram á, er að meina öðrum, sem hafa jafngóða aðstöðu og Áfengisverzlunin, að framleiða þessa vöru.

Fjórða ástæðan, sem færð er fyrir þessu frv., á aðeins við tegund af þessari vöru, nefnilega pressuger; það er sérstakt og kemur þessu máli ekkert við, enda er sú ástæða borin fram fyrir því, að það sé gert til þess að gera bruggurum torveldara fyrir um útvegun á þessari vöru, sem kvað vera nauðsynleg til þeirra iðnaðar. Það hefði verið hægt að taka þessa einu vöru undir Áfengisverzlunina, ef það er álitinn nauðsynlegur liður til þess að framkvæma eftirlit með banni gegn því að brugga innanlands.

Ég verð að segja það, án þess að ég sé neitt að amast við þessu atriði, að það er ákaflega broslegt að halda, að ef það er ekki neitt annað, sem heldur bruggurunum niðri í landinu, þá sé hægt að gera það með því að gera þeim eitthvað erfiðara um að ná í þessi efni. Ég hygg, að þeir, sem grafa stór jarðhús og setja upp dýrar verksmiðjur, sem enginn má vita um, mundu finna sér einhver ráð til þess að ná í þessi efni.

Ég sé því ekki, að fyrir þessu hafi verið færð nein ástæða, sem geri þetta á nokkurn hátt æskilegt og knýjandi, nema út frá þeirri grundvallarreglu, sem komið hefir fram hjá núv. stj., að yfirleitt allur þessi atvinnurekstur, verzlun og iðnaður, færi ríkinu betur úr höndum en einstaklingunum, og það fari bezt á því að draga hann undir ríkið smátt og smátt. Það er sú skoðun, sem liggur til grundvallar fyrir þessu, en hitt er tylliástæða, sem ekki er mikils virði.

Ég verð þó í þessu sambandi að minnast á eitt, sem er sérkennilegt í þessu efni, í mótsetningu við flest önnur einkasölufrv., að ég hygg, að þær vörur, sem hér um ræðir - án þess þó að ég þori að segja það með vissu -séu að mestu framleiddar í landinu sjálfu, svo það er ekki í raun og veru um það að ræða að taka innflutningsverzlunina í hendur ríkisins, heldur er hér farið að taka fyrir aðra atvinnugrein í landinu, sem sé hinn unga og uppvaxandi iðnað, að seilast í hann líka og kæfa hann í fæðingunni. Mér finnst þessi stefna koma í mótsögn við þann áhuga, sem komið hefir fram hjá einum af hv. þm. Alþfl. með frv. og till. um að stuðla að framgangi innlends iðnaðar. Ég skil ekki, hver er meiningin, eða hvort það er tómur fláttskapur hjá þessum hv. þm. eða af hendi hans flokks, að þykjast vilja hlaða undir innlendan iðnað og ætla svo að seilast inn á svið þessarar atvinnugreinar og draga hana undir ríkið. Er það meiningin að hleypa þessum framgjörnu mönnum, sem vilja byrja á þessum iðnaði, á foraðið með því að láta þá gera tilraunir með hann, og svo þegar reynslan er fengin og atvinnuvegurinn byrjaður að blómgast, þá að seilast með ríkishramminn og taka þennan iðnað undir ríkið? Ég sé ekki neinn mun á þessum iðnaði og öðrum uppvaxandi iðnaði í landinu. Ég get hugsað mér, að það þætti ekki nema eðlilegt, að ríkið tæki að sér alla smjörlíkisgerð eða aðrar framleiðsluvörur, eins og t. d. h/f. „Hreinn“ framleiðir. Það er ekki óeðlilegt, að Áfengisverzlunin framleiði þessa dropa, en ég sé ekki neina ástæðu til þess að taka þessa vöru sérstaklega út úr og einoka hana.

Það hefir annað mál verið dregið inn í þessar umr., a. m. k. manna á milli, og það er sú rannsókn, sem framkvæmd hefir verið nú undanfarið á ýmsum vörum og mikið umtal hefir orðið um í blöðunum. Maður hefir heyrt því fleygt, að þessum skýrslum hafi verið stungið fram einmitt nú, til þess að vera til stuðnings hæstv. ríkisstj. í því að draga hinn unga íslenzka iðnað undir ríkið. Ef þetta er rétt, þá þarf fáum orðum að því að eyða, því að það er vitanlega alveg sjálfsagt, og engu síður játað af iðnaðarmönnum sjálfum, að það er brýn nauðsyn á að hafa strangt eftirlit, ekki aðeins með þeim vörum, sem framleiddar eru í landinu sjálfu, heldur neyzluvörum yfirleitt. Það er enginn, sem hefir á móti því, að þetta eftirlit sé framkvæmt, og þótt byrjað væri á að taka einhverja vöru til framleiðslu fyrir ríkisins reikning, þá er engu síður ástæða til þess að hafa eftirlit með þeirri vöru líka, því að þótt það sé ríkisrekstur, þá geta verið misjafnir menn, sem að honum starfa. Annars skal ég ekki gera þessar skýrslur að umtalsefni, en þó eru margir hlutir, er komið hafa fram, sem ástæða væri til að tala dálítið um, en ég verð að sleppa.

Önnur ákvæði þessa frv. eru mjög lítilfjörleg, en það er aðalatriðið í 1. gr. frv., þar sem tekið er af lagaákvæðið um hámarksálagningu, sem er ákveðin í lögunum frá 1928. Hæstv. ríkistj. tilgreinir enga ástæðu fyrir því, hvers vegna þessu ákvæði er breytt, og væri æskilegt að heyra, hverjar þær ástæður eru. Ég hefði haldið, að þegar dregnar eru svo og svo margar vörur undir þessa verzlun, sem kallaðar eru neyzluvörur, að þá væri engu síður nauðsynlegt að hafa lagaákvæði um það, hvað á þær megi leggja.

Ég tel mig nú hafa látið í ljós helztu ástæðurnar fyrir því, að ég get ekki mælt með því, að þetta frv. verði samþ. Mér finnst það óþarft og mjög skaðlegt að sumu leyti eins langt og það nær.