07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

11. mál, einkasala á áfengi

Frsm. minni hl. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Þessi „pathos“ hv. 1. landsk. yfir landlækni og embættisfærslu hans minnir mig dálítið á það, hvernig viðtökur skýrsla landlæknis fékk hjá meiri hl. fjhn., þegar landlæknir sendi hana. Hún kom nú að vísu ekki í hendur n., ef ég man rétt, fyrr en málið var komið út úr deildinni. Skýrslan hafði víst tafizt í Alþýðuprentsmiðjunni, a. m. k. var í henni einhverskonar formáli í blýantssvigum, sem áður hafði birzt í Alþýðublaðinu. En það er nú auðvitað eins og hv. 1. landsk. finnst það eiga að vera, að skýrslur, sem þinginu eru ætlaðar, gangi fyrst gegnum Alþýðuprentsmiðjuna. En þegar skýrslan var nú loksins komin til þingsins, vildi enginn í meiri hl. n. skipta sér neitt af henni eða gera neinar ályktanir út af henni. Þetta ber heldur illa saman við þá lofgerð, sem hv. 1. landsk. flutti nú um ábyrgðartilfinningu og samvizkusemi landlæknis.

Hv. 1. landsk. viðurkenndi, að eitur væri í fjölda vara, án þess að það gerði mannlegum líkama skaða. Þetta vita allir, og ef svo er, að þetta eitur í bökunardropunum gerir engum neitt til, þá er ekkert við því að segja, þótt landlæknir hafi leynt skýrslunni og ætlað að leyna henni áfram, en annars er það stórvítavert. Því að það er auðvitað ekkert annað en heimska og barnaskapur hjá hæstv. fjmrh. að segja, að landlæknir hafi litið svo á, að ekki gerði til, þótt droparnir væru seldir nokkurn tíma. Ef þeir voru eitraðir, þoldi það auðvitað enga bið, að banna þá. En hitt er líka vítavert af landlækni, ef hann hefir vitað, að droparnir voru ekki hættulegir, að reyna í skýrslunni að telja almenningi trú um, að þeir væru eitraðir, á móti betri vitund. Hvernig sem á þetta er litið, á landlæknir mikið ámæli skilið fyrir hneykslanlega framkomu í málinu. Ef hann gegn betri vitund hefir verið að koma því inn hjá almenningi, að hér sé um skaðlega vöru að ræða, þá ætti hann að sæta vítum fyrir það.

Hæstv. fjmrh. var ennþá að halda því fram, að skýrslan væri rétt að því leyti, að þessa ákveðnu vörutegund væri ekki hægt að framleiða án spírituss. Ég gat um vottorð í minni fyrri ræðu um hið gagnstæða. Vottorðið er frá Jóni Vestdal, og vefengdi hæstv. ráðh. ekki, að það væri rétt. Vottorðið skal ég nú lesa upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Til Efnagerðarinnar Ljómi Reykjavík.

Eftir beiðni yðar hefi ég keypt í verzlunum hér í bænum þrjár tegundir af bökunardropum frá yður (Ljóma bökunardropum), sem sé sítrónudropa, möndludropa og kardemommudropa, og hefi athugað, hvort í þeim væri glycerin. Í engum af þessum dropum hefir fundizt glycerin, heldur eru þau efni, sem ætluð eru til að gefa kökunum ilm og bragð, leyst upp í parafinolíu, en úr henni getur ekki myndazt acrolein og er hún óskaðleg til notkunar í bökunardropa.

Eftir ósk yðar mun ég framvegis kaupa öðru hverju þessar þrjár tegundir af bökunardropum í verzlunum hér, til að hafa eftirlit með, að í þá séu ekki notuð nein skaðleg efni.

Virðingarfyllst,

Jón E. Vestdal

(Sign.)“.

Með þessu er sannað, að hægt er að búa til bökunardropa án þess að nota til þess vínanda og að þeir séu ekki neitt skaðlegir. Af þessu einu er burtu fallin sú ástæða, að þetta frv. sé fram borið með þeim rökum, sem það er byggt á, því að hæstv. ráðh. undirstrikaði það í ræðu sinni áðan, að þessa vöru væri ekki hægt að framleiða nema með spíritus. Hinsvegar er það auðvitað misskilningur hjá hæstv. ráðh., að nauðsynlegt sé að hafa sama eftirlit með iðnaðaráfangi eftir að búið er að gera breytingu á áfengislögunum. Það er ómögulegt að koma í veg fyrir það, eftir að breytingin er komin í framkvæmd, að hver maður, sem vill, geti komizt yfir vínanda, þó að ekki verði seldur hreinn spíritus til almennings. Ég sé enga ástæðu til þess að hafa eftirlit með þessu, en þó svo verði ekki, þá sé ég enga ástæðu til þess að banna iðnaðarmönnum að fá spíritus til sinna þarfa. Það er óhugsandi að þeir misnotuðu það með því að selja óblandaðan spíritus til drykkjar, þegar hægt er að fá sterkt áfengi hindrunarlaust í verzlunum, og jafnvel þótt það væri gert, mundu þeir geta búið til spíritus úr því áfengi, sem þeir geta fengið. Það er því óhugsandi og kemur ekki til mála að hindra það, að iðnaðarmenn geti fengið spíritus til sinnar iðnaðarframleiðslu. (Forseti: Þetta var aðeins stutt aths.). Já, en ég hefi dálitla tilhneigingu til þess að halda áfram, úr því að hæstv. forseti gerir tilraun til þess að stytta mál mitt. Annars hefi ég þegar lokið því, og þykist nú hafa sannað, að allar tilraunir til þess að afsaka meðferð þessa máls af hálfu landlæknis og hæstv. stj. eru gersamlega unnar fyrir gíg.