10.11.1934
Efri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (676)

23. mál, tilbúinn áburður

Frsm. (Páll Hermannsson):

Menn minnast þess, að á þinginu 1928 voru sett lög um verzlun með tilbúinn áburð. Í þeim lögum var fyrst og fremst tvennskonar efni, annað það, að heimila einkasölu á þessari vörutegund, og hitt, að heimila styrk úr ríkissjóði, sérstaklega þó í sambandi við flutningskostnað á þessari vöru til landsins. Þessi lög voru að því leyti tímabundin, að heimildin til styrkgreiðslu gilti aðeins um þriggja ára bil, en sú heimild var aftur framlengd á þinginu 1931, með lögum nr. 12 frá 6. júlí það ár. Í þeim l. var líka takmarkaður tíminn, sem heimilað var að greiða styrk, enn um 3 ár, svo þessi heimild rennur út á þessu ári.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er að nokkru leyti framlenging á þessari heimild, en jafnframt því er gerð breyt. á áburðarlögunum í heild. Fyrsta breyt. er sú, að þar sem þessi lög voru áður heimildarlög, þá eru þau gefin út nú sem almenn lög, bæði að því er snertir áburðareinkasölu og líka um framlag styrksins. Þetta hvorttveggja er nú eftir þessu frv. almenn og venjuleg lagafyrirmæli, þ. e. a. s. skylda, í staðinn fyrir að þetta var áður aðeins heimild.

Þá er í 2. gr. frv. sett ákvæði um styrk, sem ekki hefir verið í lögum áður, sem sé þau, að styrkurinn til flutninga megi ekki fara upp úr 20 kr. á tonn. Ég vil nú ekki fullyrða neitt um það, hvort þetta ákvæði hefir verulega þýðingu, það verður ekki fullvíst fyrirfram, hver flutningskostnaðurinn verður á áburðinum frá útlöndum og til hafna á Íslandi. En mér þykir líklegt, að það geti farið svo, að þessi takmörkun geti valdið því, að það verði ekki greiddur sem styrkur frá ríkissjóði allur flutningskostnaður á áburðinum til landsins. - Þess má geta um þetta ákvæði um flutningsstyrkinn, að það er enn tímabundið og gildir um þriggja ára bil, eða til ársloka 1937.

Þá hefir áður verið svo ákveðið um verzlunarkostnað með þessa vöru, að leggja mætti á hana aðeins visst prósentugjald. Eftir l. frá 1928 aðeins 2%, og eftir að þau voru framlengd á þinginu 1931 mátti það vera 3%. Nú er svo ákveðið, að kostnaðurinn skuli leggjast á vöruna, svo þetta er einnig breyting. En mér hefir verið tjáð, að þessu ákvæði um hundraðshlutaálagningu hafi ekki verið framfylgt nákvæmlega, svo ég geri ráð fyrir, að þessi breyt. hafi ekki verulega breytingu í för með sér frá því, sem orðið hefir í framkvæmdinni á undanförnum árum.

Það varð nokkur ágreiningur og allmiklar umr. um þetta mál í hv. Nd., því að þaðan er það komið. En mér er nú kunnugt um, að frv. er í þeim búningi nú, sem má telja sæmilega miðlun milli þeirra, sem höfðu misjafnar skoðanir á því í hv. Nd.

Landbn. hefir athugað frv. og leggur hún til, að það verði samþ. Að vísu hafa einstakir nm. áskilið sér rétt til þess að greiða atkv. með sérstökum breyt., ef þær kæmu fram. Nú liggja þær ekki fyrir, og geri ég því ráð fyrir, að ég megi segja f. h. n., að hún fallist á, að þetta frv. verði samþ.