05.11.1934
Neðri deild: 28. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

27. mál, sláturfjárafurðir

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Það hafa nokkur atriði komið fram í þessum umr., sem ég get ekki látið ómótmælt. Skal ég þá fyrst snúa mér að því, sem hv. þm. V.-Húnv. sagði í sambandi við þá skrifl. brtt., sem hann hefir borið fram. Hann sagði, að tilætlunin væri sú, að tryggja bændunum meiri yfirráð yfir verðlagningu afurðanna. Það hefir nú verið bent á, að þessu er nú þegar þannig fyrir komið, að bændur hafa meiri hl. í þeirri nefnd, sem ræður verðlaginu, en hinsvegar er neytendum sýnd sú sanngirni, að þeir fá að leggja til tvo menn í nefndina til þess að fylgjast með, þegar verðlagið er ákveðið, og til þess að gefa meiri hl. leiðbeiningar um það, hvernig verðlaginu verði svo í hóf stillt, að báðir aðilar megi við una. Það hefir verið minnzt á, að erlendis væru það framleiðendur einir, sem réðu verðlaginu. Það er rétt, að í Noregi ráða þeir því að mestu leyti. En það er einmitt í Noregi, sem mest er um þessi mál deilt, og þar rak það svo langt, að gerð var mjólkur„stræka“ og varð að hella mjólkinni niður um tíma áður en framleiðendur sigruðu. Ég veit ekki, hvort framleiðendur hér eru svo sterkir eða hvort þeir sjá sér hag í að leggja út í slíka baráttu. Í Svíþjóð og Englandi er þessu öðruvísi skipað, því að þar ræður stj. mestu, og má því eins telja Noreg undantekningu frá reglunni, enda var þar bændaflokksstjórn, sem setti reglurnar án samkomulags við neytendur. Í Svíþjóð og Englandi hefir þetta gengið öllu betur. Ég álít, að svona málum verði að skipa með fullkominni sanngirni í garð neytenda, án þess þó að gengið sé á rétt framleiðenda. Hér virðist rétt að hafa sömu aðferð og nú tíðkast þegar samið er um kaupgjald, þegar nefnd vinnuveitenda og vinnuþiggjenda reynir að ná samkomulagi um kaup, sem líklegt þykir, að báðir aðilar sætti sig við, og þannig reynt að komast hjá verkfalli og vandræðum. Aðalatriðið er að fá það verðlag, sem líkur eru til, að friður verði um frá beggja hálfu, og þá virðist liggja beint við að leita einnig álits neytenda. Og hvað er þá á móti því, að þeir eigi fulltrúa í nefndinni? Ég er viss um, að þetta fyrirkomulag hv. þm. V.-Húnv. yrði framleiðendum til hins mesta ógagns, þó að látið sé í veðri vaka, að það sé borið fram með hag þeirra fyrir brjósti. Það yrði aðeins til þess að skapa ófrið um málið, því að neytendum væri sýnd með því ósanngirni alveg að ástæðulausu. Það er algerlega kostnaðarlaust fyrir framleiðendur að hafa neytendur með í ráðum. Ég vil eindregið mæla með því, að þessi brtt. verði felld, því að hún yrði eingöngu til þess að spilla málinu og gera framkvæmd þess örðugri.

Þá vil ég ekki láta ómótmælt ræðu hv. 5. þm. Reykv., þó að ég sjái ekki ástæðu til að svara honum nema að litlu leyti. Það var algerlega misskilningur hjá honum, þegar hann var að tala um, að íslenzkt kjöt væri selt með „dumping“ verði. Það er selt á frjálsum markaði, en ekki eins og þetta orð er skilið, þ. e. með undirboði, miðað við svipaða vöru á markaðinum. Íslenzkt kjöt er aldrei selt með „dumping“verði, heldur því verði, sem erlendi markaðurinn skapar.

Þá vil ég mótmæla því, sem hv. þm. sagði, að þeir mjólkurframleiðendur, sem byggju í nágrenni Rvíkur, hlytu að verðu gjaldþrota vegna mjólkurlaganna. Það er vitanlegt, að framleiðslukostnaður mjólkur við Rvík er meiri heldur en hjá þeim, sem búa fjær, t. d. uppi í Mosfellssveit eða fyrir austan fjall. En það er líka víst, að ef flutt hefði verið hingað mjólk að austan undanfarin ár, sem bændur telja sig ekki þurfa að fá nema 20 aura fyrir lítrann, og hún sett hér á markaðinn, þá hefðu frameiðendur hér, sem telja sig þurfa 30 aura fyrir lítrann, orðið undir í þeirri samkeppni. Það er rétt, að bændur hér í nágrenninu hafa að ýmsu leyti slæma aðstöðu og framleiðslan verður þeim dýr. Þeir þurfa að hafa ræktað land til beitar og þeir verða að greiða ýms gjöld, sem þeir, er fjær búa, eru lausir við. En þó að tekizt hafi að halda framleiðendum austan fjalls frá markaðinum hér, mundi það ekki hafa gengið til lengdar, og ef slíkt mjólkurstríð skylli á, yrði sá vitanlega undir, sem meiru verður að kosta til framleiðslunnar. Því fer fjarri, að mjólkurlögin séu frekar gerð fyrir þá, sem búa austan fjalls, heldur en vegna þeirra, sem búa í nágrenninu. En allt veltur á því, að framleiðendur geti komið sér saman um markaðinn. ?Eyða í hdr.]. - og það ýmsir af stærstu framleiðendunum, og mér er óhætt að segja a. m. k. ekki óhyggnustu framleiðendurnir hér í nágrenninu. (PHalld: Hvers vegna gengu þeir ekki í Mjólkurfélag Reykjavíkur?). Þó þessi spurning hv. þm. sé óviðkunnanleg og mér sé það vitanlega ekki fullkunnugt, skal ég samt svara hv. þm. því, að ég býst við, að mörgum þeirra hafi ekki líkað starfsemi félagsins, en verið fúsir að ganga í félagsskap og bindast samtökum, sem hefðu vald á mjólkursölunni og hefðu því verulega þýðingu. En Mjólkurfélag Reykjavíkur ræður alls ekki yfir mjólkurmarkaðnum, ef um óhindraða samkeppni væri að ræða. Ég verð að segja, að mér finnst hreint og beint ósæmilegt að vera að slá fram annari eins fjarstæðu og þeirri, að mjólkurframleiðendur í Reykjavík muni allir verð, gjaldþrota, ef mjólkurl. verði samþykkt. Hitt mun sanni nær, að yfir þeim vofi gjaldþrot, ef l. verða ekki samþ.