19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 756 í B-deild Alþingistíðinda. (1110)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Við skulum ekki þrátta um það, hvort óðalsréttur er sama og eignarréttur eða ekki. Það er náttúrlega hægt að kalla allt eignarrétt, þó allt sé tekið burt og aðeins sé eftir umráðaréttur, eða heimild til nytjunar. En eins og ég hefi tekið fram, er munurinn á óðalsbónda og erfðafestubónda enginn annar en sá, að hinn síðarnefndi greiðir víst eftirgjald eftir ábýlisjörð sína, en hinn fyrrnefndi greiðir vexti af lánum. E. t. v. verður hægt að ræða þetta nánar þegar frv. kemur til umr., en það sýnir sig, að óðalsrétturinn er ekki annað en að fá að búa á jörðinni sína lífstíð, en síðan taka aðrir við eftir föstum reglum. Munurinn á þessum tveim frv. um óðalsrétt og erfðafesturétt er eins og ég hefi lýst, og enginn annar, enda hefir hv. 2. þm. Rang. ekki komið með nein rök eða bent á, að það verði öðruvísi í framkvæmdinni. Raunar mætti vel bæta því við, að vel er hugsanlegt, að eftirgjaldið yrði óbærilegt fyrir þann, sem hefir óðalsréttinn, vegna vaxtagreiðslu og afborgana af veðlánum, og yrðu það þá hlunnindin, sem hann fengi fyrir að hafa óðalsrétt, sem ekki er annað en umráðaréttur. Skal ég ekki tefja umr. lengur; þessi mál þurfa athugunar við, og það er ófrjótt að deila lengur um þetta atriði hér við þessa umr.