19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 757 í B-deild Alþingistíðinda. (1111)

35. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Magnús Guðmundsson:

Það er alveg rétt, að spursmálið um óðalsréttinn kemur lítið við þessu frv. En ég stend upp af því að ég vil ekki, að hv. 2. þm. Rang. standi hér einn um þá skoðun, að óðalsréttur sé eignarréttur. Ég álít, að óðalsréttur sé sá sterkasti eignarréttur, sem hægt er að fá á jörðum. Hæstv. forsrh. segir, að eini munurinn á erfðafestu og óðalsrétti á jörðum sé sá, að samkv. óðalsréttarfyrirkomulaginu verði menn að borga vexti af lánum, sem á eigninni hvíla, en árlegt afgjald, ef jörðin er á erfðafestu. En ef ekkert hvílir á óðalseign, þá þarf ekkert af henni að gjalda. Og af hverju? Það er af því, að maðurinn á eignina, meðan hann lifir, og enginn á eign nema meðan hann lifir. Það eitt er sérkennilegt um þann eignarrétt, sem nefnist óðalsréttur, að þar er fyrirfram ákveðið, hversu hann gengur í erfðir. Þar í liggur munurinn, en engu öðru. Ef skuld hvílir á eigninni, þarf að borga vexti, ef ekkert hvílir á henni, þarf ekkert að borga. Þar kemur fram munurinn á erfðafesturétti og eignarrétti.

Annars finn ég ekki ástæðu til að ræða þessar brtt., sem hér liggja fyrir, en ég verð þó að segja, að mér lízt ákaflega vel á brtt. frá hv. 2. þm. Rang. á þskj. 154. Þar er farið inn á nýja braut til þess að hjálpa mönnum til að eignast ábýli sín. Það er braut, sem ég tel, að eigi að fara inn á. Ég þykist hafa sið það mjög greinilega, að þar, sem jarðir eru í sjálfsábúð, þar er eitthvað fyrir jarðirnar gert, en þær jarðir, sem eru í leiguábúð, eru venjulega miklu verr meðfarnar.