19.03.1935
Efri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 839 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

31. mál, sparisjóðir

Frsm. (lngvar Pálmason):

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um þessar brtt. Ég gat þess lítillega, þegar ég ræddi um 2. málsgr. 1. brtt. okkar nm., að ég teldi, að þeir menn, sem hafa unnið upp sparisjóðina og komið þeim í núv. horf, og koma til með að vinna upp óstofnaða sjóði, verði að hafa tryggingu fyrir því að fá að hafa meiri hl. í stjórnum sjóðanna. Ég gat þess þá líka, að ég væri hræddur um, að of mikil afskiptasemi frá hálfu hins opinbera myndi leiða af sér, að sjóðirnir yrðu álitnir á ábyrgð hins opinbera, og það tel ég illa farið. Við eigum að halda við þeirri ábyrgðartilfinningu, sem er hjá ábyrgðarmönnunum. En það er rétt, að hún er ekki aðallega af þeim rótum runnin, að þeir ábyrgjast nokkur hundruð króna hver, heldur aðallega vegna þess, að þetta er þeirra stofnun, en hvorki ríkis, sýslu eða bæjar. En ef tekinn er af þeim sá réttur að hafa meiri hl. í stjórn fyrirtækisins, hverfur líka hvötin til þess að sjá stofnuninni sem allra bezt borgið og setja stolt sitt í, að hún megi blómgast sem allra bezt. Þetta er orsökin til þess, að ég vil ekki taka af þeim þennan rétt, og ég hygg, að reynslan sé sú, að flestir þeir sparisjóðir, sem til eru nú á landinu, séu til orðnir fyrir atbeina fáeinna manna. Ég held, að menn myndu verða tregari til þess í framtíðinni að stofna sparisjóði, ef við tökum með lagaákvæði réttinn af stofnendunum til þess að ráða yfir þeim.

Um síðari brtt. er það að segja, að vel má vera, að til séu einhverjir sparisjóðir, sem ekki hafa haft nægilega ábyrgðarmenn um einhvern e. t. v. nokkuð langan tíma, og má segja, að þeir hafi að einhverju leyti fyrirgert rétti sínum, þótt ég verði að taka undir það með hv. 1. þm. Skagf., að það er erfitt að búa til l., sem eiga á þann hátt að verka aftur í tímann, að leggja skyldur á herðar og láta menn tapa rétti samkv. slíkum l. — En burtséð frá þessu geta verið fjölmargir smáir sjóðir, sem hafa uppfyllt allar þær skyldur, sem þeir í upphafi tókust á herðar, og það er hreint ekki víst, að þeir hafi nokkurntíma haft nema 10 ábyrgðarmenn, og því eigum við þá að fara að láta það varða réttindamissi og koma þeim undir stjórn sýslu- eða bæjarfélaga. Ég vil ekki undir neinum kringumstæðum gangast inn á það. Þótt einhverju kunni að vera — og sé vafalaust — ábótavant í þessum efnum, þá vil ég gefa kost á, að bætt sé fyrir það, sem aflaga hefir hér farið. Ég álít, að það fyrirkomulag, sem felst í brtt. okkar nm., tryggi það nægilega, að aðstaða þeirra manna, sem hafa stjórn sjóðanna með höndum, verði þannig, að þeir geti ekki misnotað hana. Ég tel, að þetta mál sé svo mikið þjóðhagsmál, að menn verði að reyna að leita að þeim leiðum, sem líklegastar séu til þess að geta náð þeim tilgangi, sem við viljum, sem sé að tryggt sé, að stjórnir sparisjóðanna séu í sem beztu lagi á hverjum tíma. Ef eitthvað hefir farið aflaga á undanförum árum, þá eigum við ekki þar fyrir að taka sjóðina og setja undir stjórn bæjar- og sýslufélaga, heldur lagfæra það, sem ábóta hefir verið vant. Það getur valdið miklum ágreiningi og lítilli giftu, ef fara á harkalega að í þessu máli.

Ég hefi ekkert að athuga við fyrirvara hv. 1. þm. Skagf. Mér var kunnugt um hann áður, og við erum ekki alveg sammála um eftirlitið. Ég vænti, að hægt verði að finna leið til þess að haga ettirlitinu þannig, að fullnægilegt verði. Hv. þm. heldur því fram, að það verði ekki hægt nema sérstökum manni verði falið það starf. Frv. eins og það er setur engar hindranir í veg þess, að sú ráðstöfun verði tekin upp. Hinsvegar er það mitt álit, að eftirlitið þurfi ekki að vera neitt verra, þótt því sé hagað á annan hátt, því að það er hægur vandi fyrir menn, sem eru kunnugir stofnunum, að ganga úr skugga um, hvort nokkuð muni athugavert. En ég vænti þess fastlega, að eftirlitið verði ekki látið dragast úr hömlu. Eins og frv. er nú, er það alveg látið óbundið, hvernig því verður hagað, og ég vil bera það traust til fjmrh. á hverjum tíma, og þeirra stofnana, sem hér eiga hlut að máli, að samvinna geti tekizt um þetta. Hinsvegar tel ég bót að því, að eftirlitinu með hönkum sé haldið aðgreindu frá eftirlitinu með smáum sparisjóðum.

Ég vænti þess svo, að árangurinn af starfi n. verði sá, að við getum afgr. þetta frv. á þessu þingi, og sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum.