29.03.1935
Neðri deild: 40. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 844 í B-deild Alþingistíðinda. (1215)

31. mál, sparisjóðir

Frsm. minni hl. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég get tekið undir með hv. þm. Barð. að því er snertir brtt. þeirra hv. þm. A.-Húnv. og hv. 6. þm. Reykv. og skal ekki fara fleiri orðum um hana. Hinsvegar er minni hl. allshn., við hv. 1. landsk., með því að frv. gangi fram óbreytt. Er hætt við, að brtt. meiri hl. geti tafið afgreiðslu málsins svo, að það gangi ekki fram á þessu þingi. Ég sé ekki neitt réttmætt í þessari breyt. Hún er tvennskonar. Annað atriði breyt. er að fjölga ábyrgðarmönnum sparisjóða úr 20 og upp í 30. Ég álít þetta enga þýðingu hafa, því að engin meiri trygging er fólgin í því fyrir sparisjóðina, þó að ábyrgðarmönnum sé fjölgað. En hitt ber fremur á að líta, hvaða ábyrgðir standa á bak við. Sýslur eru í ábyrgð fyrir mjög marga sparisjóði.

Hitt gæti komið til greina, ef till. kæmi fram um það, að menn hefðu jafnan aðgang til þess að gerast ábyrgðarmenn sparisjóða. En ég hygg, að þetta eigi eingöngu að miða við þá, sem upprunalega hafa verið þarna ábyrgðarmenn, með þessari örlitlu viðbót. Og þá ættu sennilega ábyrgðarmenn sparisjóða að ráða, hverjir þarna bættust við. Nú er það oft um sparisjóði, að ábyrgðarmennirnir hafa þá alveg í höndum sér. Þeir, sem í ábyrgðunum eru, halda, eftir þessari breyt., áfram að ráða yfir þessum sjóðum. En það er fjarri því, að svo beri á að líta, að þeir hafi nokkurn raunverulegan rétt til þess að ráða yfir sjóðunum. Því að ábyrgðir þeirra eru mjög litlar, samanborið við það fé, sem er í sjóðunum.

Það má einnig skoða aðra hlið þessa máls, þar sem eru allir þeir menn, sem hafa hagsmuna að gæta í sambandi við sparisjóðina, bæði lántakendur og ekki sízt sparifjáreigendur. Þess er ekki gætt, að með þessu eru þeir menn, sem upprunalega voru ábyrgðarmenn fyrir sjóðina, látnir halda áfram að ráða um stj. þeirra.

Ég held því fram, að frv. þetta sé réttmætt og að kjósa beri menn í stj. sparisjóða með hlutfallskosningu af bæjarstjórn í kaupstöðum eða af sýslunefndum, sem eigi ekki að gæta sömu hagsmuna og ábyrgðarmenn sjóðanna nú, heldur hagsmuna almennings, eða þeirra almennu hagsmuna, sem bundnir eru við sparisjóðsviðskipti. — við í minni hl. n. leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt.