23.03.1935
Neðri deild: 36. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1330)

74. mál, Skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Hæstv. atvmrh. var að tala um einhver gífuryrði sjálfstæðismanna, sem hann virti ekki svars. Ég veit ekki, hvað hann á við, en hitt man ég, að sjálfur hóf hæstv. ráðh. ræðu sína við 1. umr. með hinum óviðurkvæmilegustu orðum í garð flm. frv. á þskj. 184. Því er hæstv. ráðh. beðinn að skilja það vegna embættis síns, að ef hann brúkar gífuryrði, þá er hans staða ekki svo misvirt, hvað sem honum sjálfum líður, að honum verði ekki svarað.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að við sjálfstæðismenn beittum málþófi í þessu máli. Drembilæti stj. og offors stjórnarliðsins gengur nú svo langt, að ef andstæðingarnir mótmæla einhverju gerræði eða vanhugsuðu frv. með einni ræðu, þá er það kallað málþóf. Okkur er hótað öllu illu jafnskjótt og við dirfumst með einu orði að gagnrýna mál stj. „Ég hæði ekki, drottinn, þitt volduga verk“ o. s. frv. En mér finnst tímarnir ekki slíkir, að stj. þurfi að setja sig svo hátt að koma með hótanir og ásakanir, þó að tveir þm. úr Sjálfstfl. noti þingrétt sinn að örlitlu leyti til gagnrýni á þessu frv.

Hæstv. ráðh. var eitthvað að tala um það, að þm. Vestm. ætti að bera svo hag vélbátaeigenda í Vestmannaeyjum fyrir brjósti, að fylgja þessu máli. Ég vil í þessu sambandi taka það fram, án þess að hrósa mér, að ég er fyrsti flm. að því, að þetta mál í heild sinni var tekið upp, og það er fyrir minn tilverknað, að hann ber nú fram þessa till., sem hann leggur svo mikla áherzlu á að verði samþ., að hann hefir í hótunum við þá, sem telja, að hún nái of skammt. Sjálfstæðismenn hafa vakið þetta mál, og því er viss hluti af þm. tregur til fylgis við það, þótt þeir treystu sér ekki til að drepa það hreinlega á síðasta þingi. Hæstv. ráðh. ætti því að stinga hendinni í eiginn barm. Ef nokkur hefir hindrað hjálp til útgerðarinnar, þá er það hann og hans fylgifiskar. Með þetta fyrir augum ætla ég ekki að biðja hæstv. ráðh. afsökunar, þótt ég gleypi ekki við því, að till. sjálfstæðismanna séu skornar níður í 1/4. En stj. segir: Við höfum valdið, og ef þið viljið ekki þetta, skuluð þið ekki fá neitt. — Þetta er handhæg aðferð, og ekki nýtt, að slíku sé slengt framan í okkur.

Við höfum ekki enn talað um einstakar greinar frv., en áður en ég vík að þeim, finnst mér rétt að tala nokkuð um frv. almennt. Hæstv. ráðh. álítur, að ekki eigi að styrkja aðra útgerð en þann hluta vélbátaútgerðarinnar, sem verst er kominn. Það er rétt, að vélbátaútgerðin þarf styrktar við, en það þarf að styrkja fleira. Hæstv. ráðh. var að álasa mér fyrir, að ég vildi láta hjálpa togarafélögunum. En ef það er nú rétt, sem jafnan hefir verið haldið fram, að togaraútgerðin væri arðvænlegust fyrir landið, gæfi mest af sér, veitti mesta atvinnu og væri græna greinin á útvegi landsmanna, þá sé ég ekki, að það geti verið stórsynd, þótt lagt sé til, að hjálp ríkisins nái líka til þess útvegs. Sá útvegur stendur nú engu síður höllum fæti. Og ég veit, að hæstv. ráðh. er það ljóst, að bæði Reykjavík og Hafnarfjörður falla og standa með togaraútgerðinni.

Nei, það, sem verður ofan á í þessu máli, er skynsamleg og hlutlaus athugun, samskonar athugun og við reyndum að beita í mþn., en þar var málið ekki litað af pólitískri flokksstreitu.

Dæmið, sem hæstv. ráðh. tók af vaxtamismuninum á 65% skuldum á móti eignum og 75% skuldum á móti eignum, sannar að vísu það, sem hann vildi láta það gera í þessu efni, sem sé, að ekki væri stór upphæð í vöxtum, sem þar lægi á milli. En það er ekkert höfuðatriði í þessu máli. Ég hygg, að þann tíma, sem hæstv. ráðh. var bankastjóri, mundi hann sem slíkur hafa litið svo á, að það væri álíka heilbrigður efnahagslegur grundvöllur, sem mþn. í sjávarútvegsmálum lagði, eins og sá, sem hann telur fært að leggja með ábyrgð ráðh. í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Nei, þessi afsláttur í frv. hæstv. ríkisstj. er ekkert annað en ein tilraun til þessa að fóðra þann mikla afslátt, sem hæstv. ríkisstj. vill láta hv. þing gefa á þessum kröfum. Hæstv. ráðh. er það vitanlega jafnljóst og okkur hinum, að eins og ég sagði í fyrri ræðu minni, þá er þetta frv. ekkert annað en svipur hjá sjón, samanborið við frv. okkar sjálfstæðismanna, bæði síðan í fyrra og núna, að því er verulega hjálp til útgerðarinnar snertir. Ég á ekki annað lýsingarorð hæfara til þess að lýsa þessu frv. heldur en að kalla það málamyndarkák.

Hæstv. ráðh. svaraði þeirri fyrirspurn, sem ég bar fram, hvort hann væri viss um, að hægt yrði að afla þessara 11/2 millj. króna. Hann lýsti einu sinni yfir því, að bankarnir hefðu ekkert um þetta að segja. Nú telur hann líklegt, að það megi vel vera að það reyndist vera svo, og segist hann skuli beita sér fyrir því, að hæstv. ríkisstj. takist að útvega þessa 11/2 mill. En hæstv. ráðh. játar, að það sé undarlegt, að við skulum vera að krefjast svars í þessu efni. Hann fullyrti, að það væri ekki venja hér á þingi, að séð væri fyrir því fyrirfram, þegar um slíkar till. væri að ræða, að fé væri til. Hæstv. ráðh. vildi slá því föstu, að þessi spurning okkar væri óviðeigandi. Mér skildist hæstv. ráðh. finnast það óviðeigandi, að ríkisstj. væri spurð að því á þessu stigi málsins, hvort hún hefði fyrir því að útvega þessa peninga. Þær ráðstafanir hv. Alþ., sem hér liggja næst fyrir til samanburðar, eru lögin um kreppulánasjóð, enda hafa þau verið nefnd í þessu sambandi, að því leyti sem sjálfstæðismenn í sjútvn. hafa bent á þann gífurlega mun, sem er á þeirri heimild, sem þar er gert ráð fyrir — allt að 11 millj. kr. fjárframlag til hjálpar landbúnaðinum — og þeirri upphæð, sem gert er ráð fyrir í frv. því, sem hér er um að ræða. Samt stendur hæstv. ríkisstj. upp og er fast að því með hótanir í garð þeirra manna, sem leyfa sér að vera með gagnrýni, þegar hæstv. stjórn ætlar að rausnast við að veita 11/2 millj. kr. til þess að greiða skuldaskil allrar útgerðarinnar, sem hér um ræðir. Og þessar 11/2 krónur eru ennþá í lausu lofti! Hæstv. stj. hefir enga vissu fyrir því að geta útvegað hana. Þegar hæstv. ráðh. fullyrðir, að það sé ekki venja, að séð sé fyrir fjáröflun samtímis því sem málið er flutt, þá vil ég í því sambandi benda á þessi lög, sem eru hér til samanburðar — kreppulánalög bænda. Þegar til þess máls var stofnað í upphafi vega sinna, var því svo fyrir komið, að það lá alveg greitt fyrir þinginu, hvernig þeirra reiðupeninga, sem þar um ræddi — 21/2 mill kr. — skyldi aflað, sem sé með því, sem fékkst af vaxtagreiðslum Búnaðarbankans til ríkissjóðs í 10 ár. Þá var bent á það af hæstv. þáv. stj., hvernig fjárins skyldi aflað. Menn þurftu ekki að vera í neinum vafa um það eins og nú.

Ég þykist vita, að ef hæstv. ráðh. hugsar sig vel um, þá muni hann finna, að spurning okkar um það, hvar taka skyldi fjárupphæð þá, sem hér um ræðir, var ekki svo óréttmæt og undarleg eins og hann gaf í skyn.

Í sambandi við þau stóru orð, sem hæstv. ráðh. hefir notað í garð okkar sjálfstæðismanna viðvíkjandi þessu máli, og sérstaklega gagnvart þeirri ásökun, sem hæstv. atvmrh. beindi í okkar garð sökum þess, að við höfum komið með till. um, að skuldaskilasjóður fengi að gefa út handhafaskuldabréf, vil ég segja nokkur orð. Ég vil bara benda á það, að þrír hv. þm. Framsfl. hafa borið fram frv. um fiskveiðasjóð Íslands — breyt. á þeim lögum —, og þar er m. a. gert að till., að fiskveiðasjóðnum sé heimilt að gefa út handhafaskuldabréf, alls að 3 millj. kr. Ég man ekki til þess, að hæstv. stj. hafi borið sakir á neinn hv. flm. fyrir þetta. Ég ætla að biðja hæstv. atvmrh. að minnast þess, að þegar hann talaði um, að honum þætti við fara illa af stað með því að leggja til, að gefin yrðu út handhafavaxtabréf fyrir skuldaskilin, að hér var flutt frv. um breyt. á fiskveiðasjóðnum, þar sem lagt er til, að gefin skuli út handhafavaxabréf. Þá komu engin andmæli frá hæstv. ríkisstj. eða frá stjórnarflokkunum í garð þeirra manna, sem það fluttu. Mér kemur það undarlega fyrir sjónir, að ekki skuli vera fundið að því, þegar Framsflþm. bera fram frv. um útgáfu handhafaskuldabréfa í sambandi við fiskveiðasjóð, en aðeins ef till. kemur frá sjálfstæðismönnum um sama efni til handa skuldaskilasjóði. Að vísu virðist hæstv. atvmrh. hafa hugsað sig betur um þetta atriði, því að hann tók það fram í ræðu sinni áðan, að hann væri fús til þess að athuga brtt. frá okkur eða einhverjum, sem færu fram á það, að sett yrði heimild í þetta frv. um útgáfu handhafavaxtabréfa. Við þessu er ekki nema gott eitt að segja, en ég álít, að þótt brtt. væri sett inn í frv. þess efnis, þá yrði það samt lítil bót á frv., miðað við þá litlu fjárupphæð, sem hér er um að ræða.

Ég sagði áður, að það þyrfti að athuga sérstaklega ýmsar greinar þessa frv., en þó ég færi til þess nú við þessa umr., þá yrði það næsta ófullkomið. Ég hefi að vísu rekið mig á varhugaverð ákvæði í frv., en í n. hafði ég engan tíma til þess að athuga frv., því hv. meiri hl. n. sagði, að það mætti alls ekkert bíða með afgreiðslu málsins. Þann eina dag, sem málið var lagt fram, fór ég fram á það, að bankarnir væru spurðir um álit sitt á málinu. Þegar því var neitað, fór ég fram á, að hv. meiri hl. n. biði stund úr degi eftir því, að frv. okkar sjálfstæðismanna kæmi úr prentun. Það var sem sé komið í prentun og kom þaðan samdægurs. Þessu var líka neitað af meiri hl. Hann áleit, að þess þyrfti ekki við. En það var einmitt tilætlun mín og okkar 6. þm. Reykv. að fá hv. meiri hl. sjútvn. til þess að líta á bæði frv. allir í félagi. Nú sé ég og heyri, að þetta hefir verið skakkt hjá hv. meiri hl., því að einmitt hæstv. atvmrh. vill nú taka það til athugunar, hvort ekki megi að einhverju leyti bæta þetta frv. upp með útgáfu handhafaskuldabréfa. Þetta er 2. umr., og mætti þá athuga þetta til 3. umr., og vil ég beina því til hæstv. ráðh., hvort hann sjái sér ekki fart að láta taka þetta mál til athugunar af hv. flokksmönnum sínum í sjútvn. milli 2. og 3. umr., með það fyrir augum að reyna að fá sæmilegri lausn á þessu alvarlega máli en fengizt hefir enn sem komið er. Ég vil taka það fram, að þessi tilmæli eru ekki fram komin í þeim tilgangi að tefja málið. Það er vitanlega gefið mál, að hæstv. ríkisstj. er í lófa lagið að knýja þetta mál fram með kommum og punktum, auk heldur orðum, eins og hún vill. En það má hæstv. stj. muna, að það kemur dagur eftir þennan dag, og því er betra og heppilegra að reyna að fá lausn í málinu, sem ekki er sýnt, að sé alveg gagnslaus.

Það er áreiðanlega að öllu leyti betra og heppilegra að reyna að ná samvinnu við afgreiðslu málsins, jafnvel þótt allar okkar till. næðu ekki fram að ganga, á einhverjum grundvelli, sem lægi á milli okkar till. og þeirrar lágmarksúrlausnar, sem hæstv. ríkisstj. lætur bera fram á þskj. 97.