11.03.1935
Neðri deild: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 951 í B-deild Alþingistíðinda. (1382)

75. mál, hæstiréttur

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]. Það er aðallega út af fyrirspurn hv. 8. landsk., að ég ætla að segja örfá orð.

Um frv. sjálft er þess að geta, að það hefir verið vel frá því gengið, eins og vænta mátti, því að það hafa unnið að því 3 hæfir menn, einn undirréttardómari, einn hæstaréttarmálaflm. og forseti hæstaréttar.

Þetta mál hefir áður verið mikið rætt, og ætti því að vera hægt að ljúka því á stuttum tíma, þar sem ekki er um mörg ágreiningsatriði að ræða. En viðvíkjandi fyrirspurninni, sem hv. 8. landsk. beindi til mín út af atriði í frv., þá get ég ekki látið henni ósvarað, því að viljandi eða óviljandi er þar blandað saman tveimur óskildum lagaákvæðum. Hv. þm. heldur því fram, að ég hafi fyrir nokkru síðan haldið mér að því, að svipað orðalag og í frv., „að fengnum tillögum dómsins“, þýddi, að þegar tillagna væri leitað, mætti ekki veita embættið gegn þeim tillögum. Þetta er rangt. Ákvæðið, sem ég hélt mig að, var öðruvísi orðað. Í því ákvæði stendur „eftir uppástungum lögreglustjóra“. Og ég get sagt það nú, að þetta ákvæði er til í samskonar löggjöf í Danmörku, og hefir af fræðimönnum þar verið skýrt svo, að ekki væri hægt að veita embætti gegn þessu orðalagi. En svo er tekið til orða í lögreglumálalöggjöfinni dönsku, og víðar. Aftur á móti þýðir þetta orðalag, að það eigi að fá upplýsingar frá viðeigandi stöfnun, og ekki megi ákveða um veitingu fyrr en þær eru fengnar. Hliðstætt þessu er í fræðslumálalöggjöfinni. Þar er leitað upplýsinga án þess veitingarvaldið sé við þær bundið. Um þetta eru einnig hliðstæð lög til í Danmörku. Við þessa hluti hefi ég stuðzt í deilunum og eins hitt, að þannig er litið á málið af fræðimönnum Hér er því um tvö ólík atriði að ræða.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að dómaraprófinu. Í frv. þessu á undanförnum þingum voru ekki orðin nein veruleg ágreiningsatriði önnur en dómaraprófið. En mótstaðan gegn því, að það verði afnumið, er þó lítt skiljanleg. Dómarapróf er ekki til í löggjöf hæstaréttar nema í einu landi Evrópu, Danmörku. Alstaðar annarsstaðar er veitingarvaldið eins og ráð er fyrir gert í þessu frv. En hér er reyndar farið það skemmra, eftir sænsku fyrirmyndinni, að leitað er álits hæstaréttar um umsækjendur, áður en embættið er veitt. Um leið og hæstiréttur hefir fengið leyfi til að gefa þessa umsögn, verður erfitt fyrir dómsmrh., ef góð rökstuðning fylgir umsögninni, að ganga í móti henni.

Í öðru lagi er þess að gæta, að hæstiréttur hefir ekki, í öll þau ár, sem hann hefir starfað, fært sér dómaraprófið í nyt. Ég veit ekki betur en þeir, sem mest hafa beitt sér móti því, að dómaraprófið yrði afnumið, telji samt hæstarétt vel skipaðan. En hann hefir í 15 ár verið skipaður án dómaraprófs. Í öll þau 15 ár, sem hæstiréttur hefir starfað, hefir dómaraprófið aldrei verið notað. Þó halda þeir, sem beita sér fyrir prófinu, að þörf sé á því til þess að fá réttinn vel skipaðan. Það er ekki á háu stigi logikin hjá þessum mönnum.

En það hefir verið deilt á dómaraprófið, og það af meiri logik, fyrir annað, sem ég hefi heyrt ýmsa hnjóta um. Þegar dómarar fara úr hæstarétti vegna aldurs, þá er það af því, að þeir eru taldir svo andlega eða líkamlega hrumir, að þeir séu ekki hæfir til þess að gegna dómarastörfum, það felist ekki í því nægilegt réttaröryggi. En svo eiga þessir sömu menn að dæma um, hverjir séu hæfir til að taka við eftir þá, eiga að vera prófdómarar yfir hinum nýju dómendum. En ef þeir eru ekki orðnir færir til að dæma, eru þeir þá frekar hæfir til þessa?

Nei, dómaraprófið er í sjálfu sér lítils virði, og getur verið verra en það. Það á sér stað aðeins í einu landi í Evrópu utan Íslands. Hér í frv. hefir verið farinn millivegur, sem hinn skynsamlegasti er. Dómaraprófið hefir aldrei verið notað, hæstiréttur hefir komizt af án þess. Nú ætti því að láta deilurnar falla niður um dómaraprófið, því að það er eina atriðið í þessu frv., sem hefir verið deilt um. Önnur deiluatriði eru fallin niður; t. d. var fallin niður hjá hv. þm. deilan um opinbera atkvæðagreiðslu, sem af beztu sérfræðingum í Englandi og Noregi er talin meira öryggi réttarfarsins. Hin opinbera atkvgr. í Noregi hefir þótt stórkostleg framför frá því, sem áður var. Ég held því, að þar sem hv. þm. eru sammála um öll aðalatriði frv., þá ættu að hætta deilurnar um dómaraprófið, sem verið er að halda í af engu öðru en gömlum þráa, og ekki styðst við neitt.