19.03.1935
Neðri deild: 32. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 986 í B-deild Alþingistíðinda. (1397)

75. mál, hæstiréttur

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hefi ekki ástæðu til þess að svara þeim fúkyrðum, sem hv. þm. V.-Sk. skaut úr sér núna. Hann er líklega sár yfir því, að hann skyldi ekki vera valinn til að vera hæstaréttardómari frekar en Einar Arnórsson. En ég get sagt hv. þm., að ég álít, að hans flokkur hafi farið mjög skynsamlega að ráði sínu að velja heldur Einar Arnórsson. (GSv: Hver hefir talað um þetta?). Það kom fram í ræðu hv. þm. V.-Sk. Hann var að deila á lögfræðinganefndina alla í heild, og þess vegna kom það alveg jafnt niður á Einari Arnórssyni og öðrum.

Það, sem hv. þm. gerði aðallega að umræðuefni, var dómaraprófið. Honum þykir það hneyksli, að dómsmrh. skuli eiga að ráða, hverjir taki sæti í dómnum, enda þótt hann fái umsögn dómaranna um það. Eigum við þá ekki að taka völdin af dómsmrh.? Eigum við að láta hann ráða því, hverjir eru náðaðir? Eigum við að láta hann ráða, hvaða málum er áfrýjað? Hv. þm. veit vel, að völdin eru öll í höndum dómsmrh., og þess vegna er ekki ástæða til að skerða það vald hvað snertir skipun dómara, frekar en á öðrum sviðum. En meiningin er, að þetta er ekki annað en pólitískt mál hjá Sjálfstfl., vegna þess að hæstv. núv. dómsmrh. er ekki af þeirra flokki, og ennfremur vegna þess, að þegar fimmtardómsfrv. var borið fram, börðust þeir á móti því í öllum atriðum, og þeir geta ekki snúið til baka, enda þótt þeir sjái rökin, sem mæla með þessu frv., og vita, að þeir eru með sínu framferði að vaða reyk í þessu máli.

Hv. þm. var að tala um eitthvert leyndarmál viðvíkjandi Lárusi H. Bjarnasyni, og hneykslaðist yfir því, að ég skyldi nefna dóminn í bæjarfógetamálinu; sagði að hann væri mér til skammar. Ég hefði verið látinn dæma dóminn o. s. frv. Ég ætla að biðja hv. þm. V.-Sk. að muna eftir því, að hann hefir viðhaft þessi orð við mig. Það getur verið, að hann hafi einhverntíma verið látinn dæma dóm — einhverntíma verið látinn gera viss embættisverk, en ég hefi aldrei verið látinn gera neitt. Ég hefi gert það sjálfur eins og sannfæring mín hefir boðið. En þetta er ekki nema ódrengskapur af hv. þm., að vera að halda slíku fram. Hann er að taka upp það sama og sonur hins sakfellda hélt fram gagnvart mér í blöðum, að ég hefði verið látinn dæma. Ég þarf ekki annað en að vísa honum á dóminn. Ég veit, að hv. þm. er nógu greindur til þess að sjá, að dómurinn verður ekki með rökum felldur. (GSv: Hvað gerði hæstiréttur?). Hæstiréttur gerði það sama. Ég skal segja hv. þm. sögu. Prófastur vestur á Barðaströnd, einhver hinn greindasti og bezti maður, sem ég hefi kynnzt, var bekkjarbróðir dómaranna í hæstarétti. Hann sagði við bróður sinn: „Ég veit, að hæstaréttardómararnir munu ekki dæma um málið að efni til.“ Hann þekkti mennina og vissi, að það mundi verða reynt að finna einhver undanbrögð. Það, sem þeir áttu að gera, var að víkja sæti. Þeir voru allt of hliðhollir til þess að geta dæmt um málið. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. Barð. að stytta mál sitt um þetta atriði). Ég vil benda hæstv. forseta á, að þetta mál fór hv. þm. V.-Sk. inn á, og ég hefi ekki ástæðu til annars en verja mig persónulega, hvaða hlutdrægni sem hæstv. forseti kann að sýna mér. Þykir mér þó undarlegt, að flokksbróðir minn skuli gera það. — En sannleikurinn er sá, að hæstaréttardómararnir fóru að á sama hátt og þessi gamli og vitri skólabróðir þeirra sagði, — þeir þorðu ekki að dæma eftir málefninu. Þeir dæmdu ofan í sjálfa sig; þeir dæmdu þvert ofan í dóm, sem þeir skömmu áður voru búnir að kveða upp í Shell-málinu, máli, sem ég hafði einnig fengizt við. Ég fór þá skipunarlaus suður að Bessastöðum og yfirheyrði Björgúlf lækni. Þá segja þeir ekkert. En eftir eina viku ógilda þeir minn dóm í bæjarfógetamálinu, af því að dómarinn í Reykjavík hafði ekki löglega vikið sæti. Þetta veit hv. þm. V.-Sk. Það var rétt hjá sr. Bjarna heitnum Símonarsyni, skólabróður þeirra, að þeir mundu aldrei dæma málið að efni til. (GSv: Það er hægt að segja þetta þegar maðurinn er dáinn). Ég get fengið vottorð bróður hans. En hvernig var svo þessi dómur? Það er laukrétt ályktun út frá honum, sem einn vitur maður sagði: „Það er ekki refsivert að taka annara manna peninga og skila þeim aldrei, en það er refsivert að taka annara manna peninga og skila þeim seint“. Hv. þm. V.-Sk. veit, að þetta er rétt ályktun, þó að hann sé nú að hreyta ónotum í mig út af því máli, sennilega af því að hann fékk ekki það embætti, sem hann var að sækja um á móti mér. Ég get sagt hv. þm. V.-Sk., að mér finnst það ekkert aukaatriði, hvort dómararnir hafa leyfi til þess að liggja á atkvæði sínu í opinberum málum, sem skipta miklu fyrir alþjóð manna. Ég hefi heyrt miklu merkari og betri lögfræðinga en hv. þm. V.-Sk. láta í ljós óánægju sína yfir því, að Lárus H. Bjarnason skyldi ekki hafa haft kraft í sér til þess að opinbera ágreiningsatkvæði sitt, og að lögin skyldu ekki hafa heimtað það. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. V.-Sk. að gera aths. við ályktun mína um það, hvernig atkvæði Lárusar H. Bjarnasonar hefir fallið, hvort það hefir verið til sakfellingar eða sýknunar þeim ákærða. Það sér hver maður, að hann var sá maðurinn í réttinum, sem hafði minnsta ástæðu til þess að hlynna að sakborningnum, og það er gefinn hlutur, að það hlýtur að hafa verið til sakfellingar, sem Lárus H. Bjarnason gerði ágreining, ekki um refsinguna, heldur um sökina sjálfa.