30.03.1935
Efri deild: 38. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (1453)

75. mál, hæstiréttur

Magnús Guðmundsson:

Ég verð að játa, að þessi úrskurður hæstv. forseta kom mér alveg á óvart, en ég fer ekkert inn á hann. Ég vil aðeins láta mér nægja að benda á, að ég get ekki skilið 2. málsgr. 18. gr. þingskapa öðruvísi en sem beina fyrirskipun um það, að nál. skuli koma fram. En vitanlega er hægt að undanþiggja frá því eins og öðrum ákvæðum þingskapanna. En það hefir þótt þessu máli of hættulegt, því að það er auðséð, að þetta mál er rekið fram af svo miklu kappi, að ekki er verið að hugsa um, að málið sé vel undirbúið, heldur á það að fara breytingarlaust í gegnum þessa d., og það var mér tilkynnt strax á þeim fundi um málið, sem ég kom á í n., að ekki væri til neins að vera að koma með breyt., því að þær fengjust ekki fram. Frv. ætti að samþ. óbreytt. Þetta kom mér nokkuð undarlega fyrir sjónir, af því að ég gat bent n. á það, að á frv. eru þeir formgallar, að ekki er hægt að fella það inn í l. um hæstarétt, eins og þó er ætlazt til. Þetta var líka viðurkennt af meiri hl., en þeir sögðust hafa haft tal af einhverjum lögfræðingum, sem segðu, að þetta gerði ekkert til. Hér stendur t. d. í 17. gr.: „Á eftir 48. gr. komi ný 49. gr., svo hljóðandi:“ En þetta á að vera: Á eftir 49. gr. komi ný gr., sem verði 50. gr. — Þetta stafar af því, að við 2. umr. í Nd. var borin fram brtt. um að skipta í sundur einni gr., þeirri gr., sem nú eru 13. og 14. gr. við þetta kemur þessi ruglingur inn, og mér datt sannast að segja ekki í hug, að ekki mætti leiðrétta formgalla á frv. fyrir kappi um að fá það samþ. Það hefði vel verið hægt að samþ. frv. á þessu þingi, þótt þetta hefði verið leiðrétt. Það gefur lítið skemmtilega hugmynd um, hvað á bak við þetta frv. liggur, þegar ákafinn er svo mikill, að ekki má leiðrétta í því hreinar og beinar vitleysur. Ég hélt, að þetta hefði átt að nægja til þess að n. fengist til að gera á frv. einhverjar breyt., þ. e. a. s. þær breyt. a. m. k., sem formgallarnir kröfðust En af því að ég gekk út frá þessum breyt. sem vísum, þá hreyfði ég því í n., að ég kynni ekki við þau l. frá 1935, sem byrjuðu á því að segja, að hæstarétt skyldi stofnsetja á Íslandi og að dómsvald hæstaréttar Dana væri afnumið. Úr því að farið var að endurskoða þessa löggjöf á annað borð, hefði átt að fella þetta niður. Það gat aldrei orðið að aðalatriði. Ég kann ekki heldur við, eins og kemur til með að standa í 2. gr., að landsyfirrétturinn á Íslandi skuli vera afnuminn, þegar búið er að afnema hann fyrir 15 árum. En það var ekki svo mikið, sem n. reyndi að víkja frá þeim fyrirskipunum, sem hún sjáanlega hafði fengið um að leggja með frv. óbreyttu. Ég veit ekki, hvernig á að líta á það, að n. í heild eða meiri hl. hennar kemur ekki með neitt álit. Hvort það á að skoðast þannig, að meiri hl. n. fyrirverði sig fyrir að leggja með frv. í nál., þar sem á því eru aðrir eins formgallar og öllum er kunnugt. Forseti fann ástæðu til þess að skýra frá því, hvers vegna hann hefði tekið þetta mál á dagskrá án þess að nál. lægi fyrir. Ég skal ekkert út í það fara, en skil, að hann hefir fengið um það eindregna beiðni, en ég skil ekki, að meiri hl. hefði ekki haft tíma til að útbúa nál. frá því á fimmtudag, þegar síðasti fundurinn var í n., og þangað til nú. Ég skil ekki, að hann hefði ekki getað búið nál. til strax á fimmtudag, hefði hann á annað borð viljað skila nokkru nál., og hefði þá verið heimilt samkv. þingsköpum að taka málið fyrir á þessum fundi. En það kann að fara í vöxt hér, að föllnum þessum úrskurði hæstv. forseta, að n. skili ekki áliti. Ég skal líka í sambandi við það, sem ég sagði um sjálft frv., benda á, að það er mjög undarlegt að taka upp í síðustu gr. hinna nýju laga, útgefinna á árinu 1935, alla þá runu, sem voru afnumin 1919. Ég held, að það sé engin hætta á því, að þessi l. fari að ganga aftur, sem legið hafa í gröf sinni í 15 ár. (JBald: Það skaðar ekki, þótt hnippt sé í þau). Mér finnst það að leggjast á náinn, og það gæti orðið löng lagafrv, ef ætti að telja upp öll þau l., sem hafa snert það atriði frá fyrstu byrjun, sem verið er að setja l. um. Þetta hefir auðvitað enga aðra þýðingu en formið. Það skal ég viðurkenna. En hitt er álappalegra, eins og ég nefndi áðan, að ný l. frá 1935, byrji með því, að hæstarétt skuli stofnsetja á Íslandi. Allir vita, að hann hefir staðið í 15 ár. Og svipað má segja um dómsvald hæstaréttar Dana og niðurfelling landsyfirréttarins. Ræða hv. frsm. — hann er víst frsm., hv. 2. þm. S.-M. (IngP: Ég hefi auðvitað ekki neinn framsögurétt, en það má telja mig það) — fól eiginlega ekki neitt í sér um málið, annað en það, að hann fór fáeinum orðum um, hvað væri nýtt í þessu frv. Ég skal nefna nokkur atriði, sem mér sýnast mikilsverð. Hið fyrsta er afnám dómaraprófs þess, sem nú er í l. Þetta dómarapróf veldur því, að enginn getur orðið dómari í hæstarétti nema bæði rétturinn og dómsmrh. séu því samþykkir. Hvor þessara aðilja um sig hefir neitunarvald, og þá er svo ákveðið í l., að sjálfkjörnir varadómendur í hæstarétt séu lagaprófessorar háskólans. Nú er tilgangurinn að breyta þessu þannig, að rétturinn ráði engu um þetta, heldur dómsmrh. einn. Ég verð um þetta atriði að segja það, að það er eðlilegt, að þannig sé um þennan æðsta dómstól landsins búið, að í hann komizt ekki aðrir en þeir, sem bæði rétturinn og ráðh. eru sammála um, að þangað eigi að fara, og það getur ekki verið neinn annar tilgangur með því að breyta þessu en sá, að auka vald stjórnarmeirihlutans, ráðherranna, í þessum efnum. Eins og allir vita, þá hafa dómstólarnir eftir okkar stjórnarskrá sérstöðu. Þeir eru um vald settir við hliðina á Alþ. og framkvæmdavaldinu. En hér á að fara inn á þá braut, að þetta þriðja vald ríkisins verði háð framkvæmdavaldinu meira en nú er, og til þess á að nota löggjafarvaldið. Þetta tel ég vera mikinn galla á þessu frv. Af því að hv. frsm. sagði, að mál þetta væri flutt af n. þeirri, sem skipuð var til þess að endurskoða réttarfarslöggjöfina (IngP: Samið af henni), þá vil ég benda á það, að einn nm., sá, sem ekki á sæti á þingi og sjálfur er hæstaréttardómari, er á móti sumum þessum breyt. og hefir, að ég hygg, lýst yfir því opinberlega, og ég ætla, að það sé tekið fram í grg. frv., svo að ekki er hægt að eigna n. í heild frv. (JBald: Að öðru leyti). Ekki heldur að öllu öðru leyti, því að hann hefir látið í ljós, þótt það standi ekki í grg., að hann sé mótfallinn því ákvæði, að dómsmrh. skipi mann í réttinn, þegar dómari víki sæti eða forfallist á annan hátt. Og það er ekki nema eðlilegt, að þessi 2 atriði fylgist að, því að í raun og veru er um sama atriði að ræða. Ég vil benda á það, hvort mönnum finnst ekki undarlegt, að dómsmrh. á t. d. þegar hann sjálfur á í máli við einstaka menn, og svo verður t. d. einn eða tveir af reglulegum dómurum réttarins að víkja sæti. þá á ráðh. að skipa dómara til þess að dæma um það mál, sem hann sjálfur hefir höfðað eða verið höfðað gegn honum. Þetta kalla ég ekki að búa vel og tryggilega um æðsta dómstól landsins. hér er opin leið til þess að beita hinni örgustu hlutdrægni. Það hljóta allir að sjá, og ég skil ekki í því, að allir skuli ekki vera sammála um það, að svona má þó ekki útbúa l. um hæstarétt. Ég veit það vel, að það er ekki til neins að tala um þetta hér, því að þetta er allt afráðið fyrirfram af hv. meiri hl., og það fara allir héðan burtu eða flestir, sem ekki þurfa endilega að vera við, meðan verið er að ræða þetta mál. Þetta er ekki annað en skrípaleikur, sem verið er að leika með þetta mál. Ég veit, að það er meiningin að láta nú þessar umr. enda, fresta síðan atkvgr. og kalla saman fund síðar til þess að þessir háu herrar þurfi ekki að þreyta sig á því að hlusta á rökin í þessu máli, heldur megi hvíla sig heima á meðan málið er rætt. — Ég geri ráð fyrir því, að frsm. geti sagt mér, hver sé meiningin með ákvæði 3. gr. frv., þar sem sagt er, að með konunglegri tilskipun skuli ákveðið, hvenær dóminn skuli skipa 5 dómendur. Hvernig á að skilja þetta í sambandi við síðustu gr. frv., þar sem stendur, að dómarar skuli aðeins vera 3 þangað til fé er veitt í fjárl. til fjölgunar dómurunum? Ég hefi skilið þessi ákvæði þannig, að þegar einu sinni væri búið að veita fé til þess í fjárl., þá skyldi fjölga dómurunum upp í 5, og síðan verði þeim ekki fækkað nema með lagaboði. Ef svo ber að skilja þetta, þá skilst mér ekki þurfa neina konungl. tilskipun um það, hvenær dómarar eiga að vera fimm og hvenær þrír, nema ef meiningin er, að nóg sé að 3 sitji réttinn, þótt 5 séu dómarar. Annars verð ég að segja það, að ég sé ekki, hverskonar útbúnaður það er á hæstarétti, ef það á að vera komið undir fjárveitingu í fjárl., hvort 3 eða 5 dómarar eiga að skipa réttinn, og svo eru e. t. v. mismunandi reglur um þetta frá ári til árs. Eitt árið er fjárveiting, annað ekki, og svo enn á ný fjárveiting þriðja árið. Hvað á að gera við þessa 2 dómara árið, sem líður á milli? Er það meiningin, að þegar einusinni hefir verið veitt fjárveiting til þessa, skuli dómendurnir vera 5 framvegis, hvort sem fjárveitingarvaldið veitir fé til þess eða ekki? (IngP: Allt er í heiminum hverfult). „Allt er í heiminum hverfult“. Hvað meinar hv. þm.? (IngP: Allt getur breytzt). Ég vona, að frsm. firrtist ekki við, þótt ég biðji hann um skýringar á þessum ákvæðum og hvernig hann hugsar sér þetta framkvæmt. Mér finnst það ekki liggja ljóst fyrir. (JBald: Hann ætlar ekki að leyfa okkur að komast að að tala). Ég held áfram dálítið ennþá. Eins vildi ég biðja hv. frsm. um skýringu á því, hvers vegna allt aðrar reglur eiga að gilda þegar dómari vikur sæti en þegar hann forfallast. Ég get ekki skilið, að ekki skuli þá sömu reglur gilda. Ef nú t. d. dómari veikist nóttina áður en taka á mál fyrir, og aðeins 2 dómarar mæta. Þegar það er lögákveðið hverjir eru varamenn, þá þarf aðeins að kalla til varamann, en eftir þessum nýju ákvæðum ber réttinum að skrifa dómsmrh. og biðja hann um að útnefna mann. Svo á að fá tillögur réttarins, en við skulum nú segja, að þær fylgi með í sama bréfinu. Þótt samkomulag verði, tekur það tíma að bræða málið, og fyrirtekt málsins verður að fresta, þar sem öll mál er búið að dagsetja allt að því 1/2 mánuð fyrirfram. Og þá getur vel svo farið, að hinn virðulegi dómari sé orðinn gallfrískur, svo að þessi umsvifamikla skipun varadómara er alveg óþörf. En þetta veldur því, að í slíkum tilfellum þarf rétturinn að fresta málinu í stað þess að ljúka því. — Annars eru í þessu frv. ýms ákvæði, sem ég hefi ekkert við að athuga, og tel jafnvel til bóta, og þess vegna hefði verið mjög auðvelt að komast að samkomulagi um það við mig, að þetta mál gengi fram, hefði það ekki þurft að vera alveg breytingalaust. — Ég hefi ekkert á móti þessum undanþágum, sem hægt er að veita mönnum með 2. einkunn. En ég hefði kosið að viðhafa dálítið aðra aðferð í þeim efnum. En að svo stöddu mun ég ekki fara út í það. — Hitt þykir mér undarlegt, að þegar verið er að afnema dómaraprófið, skuli vera haldið prófinu fyrir málaflm. við réttinn. Það er undarlegt, að gera að þessu leyti strangari kröfur til þeirra manna, sem flytja mál fyrir réttinum, en þeirra, sem málin eiga að dæma. Sýnir þetta m. a., hver er tilgangurinn með því að koma málinu hér í gegn.

Mér skildist á hv. frsm. meiri hl., að hann teldi mikið unnið með þeim ákvæðum frv., sem gera það að skyldu að halda saman öllum ágreiningsatriðum og prenta þau. Ég hefi ekkert á móti þessu ákvæði, en ég held, að það sé fremur lítils virði, því að það er víst ekki næsta oft, að ágreiningur verði í réttinum. Það, sem gerist, er, að dómarar bera sig saman um málið og koma sér þá oftast niður á það, hver dómsúrslit skuli vera og á hverju dómurinn skuli byggður. En ef ágreiningur kann að verða, hefi ég ekkert á móti því, að hann sé birtur. En það er eins og menn haldi, að þannig ágreiningsatriði, sem í réttinum hafa orðið, séu hvergi varðveitt. Auðvitað er þetta allt til í skjölum réttarins. Hér er því ekkert nýtt á ferðinni. hér er aðeins ákveðið, að þetta sé allt skrifað á samskonar pappír og bundið í sömu bók. En svo kemur það nýja: Þessi ágreiningsatriði, sem ég hygg, að séu mjög sjaldgæf, á að birta í dómasafninu.

Ég hirði ekki um að fara út í fleiri atriði. Þetta voru aðalatriðin í því, sem ég hefi út á frv. að setja. Ég vil geyma mínar brtt. til 3. umr. Vil ég ekki eiga á hættu, að þeim sé ekki leyft að komast hér að. Ég skildi hv. 4. landsk. svo, að hann legði til, að þeim yrði bægt frá, og af því að ég get náð mínum ásetningi með að fresta till. til 3. umr., ætla ég ekki að hætta þeim undir hnífinn hjá honum eða öðrum hv. þm.