05.11.1935
Efri deild: 61. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1117 í B-deild Alþingistíðinda. (1633)

119. mál, kjötmat o.fl.

Frsm. meiri hl. (Bernharð Stefánsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. var flutt af landbn. Nd. Efni þess er í stuttu máli það, að skipaðir verði 3 yfirkjötmatsmenn í stað þess að samkv. núgildandi lögum hefir verið 1 yfirkjötmatsmaður með 3 menn sér til aðstoðar. Landbn. Nd. segir í grg. fyrir þessu frv., að reynslan hafi nú sýnt, að það sé ofvaxið einum manni að vera yfirkjötmatsmaður yfir öllu landinu. Við sem erum í landbn. þessarar d., höfum leitað upplýsinga um þetta atriði og komizt að þeirri niðurstöðu, að þetta álit sé á fullum rökum byggt. Yfirkjötmatsmaður sá, sem skipaður var samkv. núgildandi lögum, hefir enn ekki getað komið nema á nokkurn hluta slátrunarstaða á landinu. Það er ekki hægt að sjá, að þessi breyt. á skipun yfirkjötmatsmanna valdi neinum kostnaðarauka, því að það, sem 3 yfirkjötmatsmönnum er ætlað til launa fyrir störf sín, er ekki eins mikið og það, sem 1 yfirkjötmatsmaður með 3 aðstoðarmönnum hefir nú. Þessi breyt. virðist frekar munu leiða til sparnaðar, en þó skal ég játa, að það er svo lítið, að út af fyrir sig verður það ekki talin veruleg ástæða til stuðnings þessu frv.

Það er ætlazt til þess, að í staðinn fyrir 1 yfirmatsmann og 3 aðstoðarmenn komi 3 yfirkjötmatsmenn, en yfirumsjón með störfum þeirra er afnumin, enda sýnist svo, samkv. fenginni reynslu, að hún hafi verið óþörf. Af þessum ástæðum leggur meiri hl. landbn. til samkv. nál. á þskj. 417, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.