21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1142 í B-deild Alþingistíðinda. (1707)

95. mál, gagnfræðaskóli

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Það er ekki nema eitt atriði, sem vakir fyrir minni hl. menntmn. og kemur fram í brtt. við frv. á þskj. 169. Brtt. fer fram á, að síðari hluti fyrri málsgr. 1. gr. falli niður, nefnilega, að ríkisstj. geti lagt svo fyrir, að hús skuli byggt fyrir gagnfræðaskólana þegar hún óskar þess. Það er að áliti minni hl. n. nauðsynlegt eins og sakir standa nú að gefa bæjarstjórnunum rétt til þess að velja tímann, hvenær byggð skuli hús fyrir gagnfræðaskólana. Það er að vísu aðkallandi og þörf víðar en í Reykjavík, að hafizt sé handa um byggingu fyrir gagnfræðaskólana, en eins og hv. þdm. er mjög kunnugt, er nú svo ástatt um fjárhag bæjarfélaganna, margra hverra, að það er viðurhlutamikið að setja slík ákvæði um, að ríkisstj. sé þar með falin yfirstjórn fjárhagsmála bæjarfélaganna að þessu leyti. Ég veit ekki heldur, hvernig átti að vera hægt að skylda bæjarstj. til þess ef þær telja sig ekki geta lagt fram fé til gagnfræðaskóla, þegar ríkissjóður er tilbúinn með sitt framlag. Ég sé ekki, að það sé framkvæmanlegt að ætla bæjarstjórnunum að leggja fram, hvernig sem á stendur, 3/5 á móti 2/5 frá ríkissjóði af kostnaðarverði húsanna.

Svo er það gefinn hlutur, að bæjarstj. finna ekki síður til hinnar brýnu þarfar fyrir þessar byggingar en ríkisstj. Þess vegna verð ég að álíta, að bæjarstjórnirnar hafi nægilega ríka hvöt til þess að ráðast í þessar framkvæmdir strax þegar geta leyfir. En ég fyrir mitt leyti álít, að það eigi ekki að vera á valdi ríkisstj. að skipa fyrir um þetta efni. En hitt finnst mér rétt, að ef svo er, að bæjarstj. vilja koma upp húsnæði fyrir gagnfræðaskólana, þá sé ríkið skylt að leggja fram fé að sínum hluta. Það er hættuminna að ákveða það, því að ég er ekki í neinum vafa um, að standi svo á, að ríkissjóður vilji síður þurfa að leggja fram fé að sínum hluta á móti bæjarfélögunum, þá muni greiðlega takast samningar um fyrirkomulag á því, þó að bæjarstj. óski að hefjast handa. Ég tel ekki heldur neina nauðsyn fyrir ríkisvaldið að hafa þessi réttindi yfir bæjarfélögunum, því að eins og ég sagði áðan, er hvötin vissulega nægilega rík hjá þeim að koma upp húsnæði fyrir gagnfræðaskólana. Þess vegna finnst mér sanngjarnt, að fyrri hluti þessarar umræddu málsgr. standi, en síðari liðurinn falli burt.

Um hinar gr. frv. er samkomulag, og þarf þess vegna ekki að ræða um þær.

Á það má benda í sambandi við brtt. minni hl. n., að það er vissulega skylt fyrir ríkið að taka í þessu efni tillit til ástæðna bæjarfélaganna, þar sem það hefir nú alveg nýlega skert mjög tekjustofna bæjarfélaganna. Er því full ástæða til þess, að ríkisvaldlið fari varlega í að krefjast fjárútláta af bæjarfélögunum, eins og hér um raðir, nema brýna nauðsyn beri til. Ég held því, að hv. þd. gerði réttast að fella niður þennan síðari málslið.