21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (1778)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Finnur Jónsson:

Ég get verið stuttorður. Ræða hv. 1. landsk. segir allt, sem þarf að taka fram um frv. En það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, er ekki ástæða til að tala um, því að hann hefir misskilið svo frv. sem framast er hægt. Hv. 6. þm. Reykv. talaði eins og hér væri nýr skattur, áður óþekktur, sem ætti að fara að leggja á borgara Ísafjarðar. Það er undarlegt, að sá, sem þetta segir, skuli vera þm. Reykv. og ekki vita betur, hvað gildir um skattstofna Reykjavíkur. vitanlegt er, að hér í Rvík eru fasteignagjöld á öllum húsum, 8 krónur af hverju þúsundi. Auk þess er vatnsskattur, sem er misjafn, en getur orðið kr. 4.50 af þúsundi. Þá er lóðagjald, ca. 6%. En um þessi gjöld er ákveðið nákvæmlega eins og hér í frv., af lóðum mismunandi eftir því, til hvers þær eru notaðar. Það kemur því úr öfugri átt frv. hv. 6. þm. Reykv. að vera að minna á þetta, þar sem gjöldin samkv. frv. yrðu lægri á Ísafirði en í Rvík og ákveðið í frv., að viðvíkjandi lóðum skuli þau lögð á eins og í Rvík. Í löggjöf Rvíkur er ákveðið mismunandi afgjald af lóðum, t. d. lægra af fiskreitum en byggingarlóðum. Það sama ætlast frv. til. Svo kallar hv. þm. þetta firru! Hví kemur hann ekki fram með brtt. á löggjöf Reykjavíkur, að sama gjald sé lagt á fiskreiti og ræktað land eins og byggingarlóðir? Hv. þm. veit ekkert, hvað hann er að tala um. Hann er bara á móti málinu, af því að ég flyt það og af því að það er flutt eftir ósk meiri hl. bæjarstj. á Ísafirði. Ef það aflaði mér eitthvað minna fylgis eða bakaði mér óvinsældir, að frv. væri samþ., þá er það fallega gert af hv. þm. að benda mér á það, en ég er reiðubúinn að taka afleiðingunum. Ég hefi ekki hingað til sótt ráð til hans.

Það er firra hjá hv. þm., að upp- og framskipunargjaldið séu nýjar skattaálögur, því að það er tekið fram í frv., að það megi ekki vera hærra en síðustu 3 ár að meðaltali. Hér er því ekki um nein ný útgjöld fyrir borgarana að ræða, eins og er í þeim frv., sem hér liggja fyrir um Vestmannaeyjar og Akureyri. Hér ræðir um að fá heimild fyrir fasteignagjöldum, sem eru lægri, og annan tekjuauka, sem ekki leggur nein ný útgjöld á borgarana fram yfir það, sem nú er. Það þarf því brjóstheilindi til að mótmæla frv. þessu úr þeim flokki, sem nýbúinn er að samþ. stórlega aukin útgjöld á borgara. eins og ákveðin eru í frv. um bæjargjöld í Vestmannaeyjum, sem hér hefir legið fyrir.

Ég vil til gamans geta þess, er hv. (6. þm. Reykv. var að tala um, að það væru til lóðagjöld á Ísafirði, þá vissi hann ekki. hvort þau ættu að haldast áfram eða ekki. En það stendur hér í 6. gr. frv., að þau skuli hverfa. Og í staðinn á einmitt að koma það, sem hv. þm. ráðlagði, nefnil. það að leggja á lóðargjöld eftir verðmæti. Þetta stendur í frv., sem þm. er að mótmæla.

En ég hefi gömul kynni af hv. 6. þm. Reykv. og veit því, að hann setur sig ekki vel inn í málin, sem hann er að ræða um. Hann hefir hér flutt ræðu á móti frv., án þess að hafa hugmynd um, hverju hann er að mótmæla.

Ég ætla svo ekki að segja meira. Ég óska eftir því, að atkvgr. verði frestað og frv. síðan vísað til 3. umr. Ég vænti þess, að hv. dm. verði vel við frv., því að hér er ekki farið fram á neina nýja skattstofna, sem ekki eru í öðrum kaupstöðum.