29.10.1935
Efri deild: 55. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (1823)

56. mál, bæjargjöld á Ísafirði

Frsm. meiri hl. (Jón Baldvinsson) [óyfirl]:

Þetta frv. kom fram á fyrri hl. þessa þings, en þó nokkuð seint. var það tekið fyrir í fjhn., og kom það þá í ljós, að nm. voru ekki á eitt sáttir um það, því að hv. 1. þm. Reykv. lagðist á móti málinu, eins og sjá má á nál. hans, sem nú er komið á þskj. 423. Hinsvegar vorum við hv. 2. þm. Eyf. og ég sammála um að mæla með frv., en að vísu gerði hv. þm. nokkrar aths. í nál. um afstöðu sína gagnvart öllum svipuðum málum, sem síðar kynnu að koma fram.

Það, sem hér er farið fram á, er raunar ekki annað en það, að bænum sé heimilað að leggja gjald á fasteignir í lögsagnarumdæminu, og þessi heimild er komin á afarvíða, m. a. í Rvík og ennfremur nokkrum kaupstöðum, kauptúnum og hreppum. Þetta hefir verið gert til þess að láta ekki allar tekjur bæjanna velta á því eina, sem verið hefir og er sumstaðar ennþá, sem sé útsvörunum. Það má náttúrlega segja sem svo, að með útsvörunum megi fara svipað að, en það er ekki efamál, að það er léttara fyrir bæi, t. d. Rvík, að fá fasteignagjöld til þess að geta byggt á þeim nokkuð af tekjustofnum sínum, og m. a. er vissari greiðsla á þeim gjöldum heldur en útsvörum.

Það, sem er þyrnir í augum manna, a. m. k. hér í Rvík, er 2. liður 1. gr. frv., um að bæirnir taki einkarétt á framskipun og uppskipun á vörum. Þetta er í sjálfu sér frá mínu sjónarmiði ekki nema eðlilegt, að bæirnir hafi þetta. Þeir eiga víðast hvar öll hafnarvirki og þeir eiga hús, sem vörurnar eru geymdar í. Þetta ætti ekki að þurfa að vera dýrara hjá vörueigendum eða innflytjendum, þó að uppskipunin fari fram á þennan hátt, enda er sannleikurinn sá, að það er einskonar einkaréttur á uppskipun hjá gufuskipafélögunum, þó að hann sé ekki tryggður með löggjöf. Ég sé ekki betur en að þetta sé svona hér í Rvík, t. d. að Eimskipafél. taki sér nokkurskonar einkarétt á uppskipun, af því að það hefir pakkhús þarna við, og allir verða að borga það uppskipunargjald, sem það setur á vörurnar. En ég veit að vísu, að móttakendur varanna eiga rétt á að taka á móti vörum úr skipi úr vélalyftu skipsins, en það er svo óþægilegt, að það eru mjög fáir, sem nota sér þennan rétt, því að með því móti yrði sá sem fengi t. d. 10 poka af rúgmjöli, að taka á móti kannske 2 pokum kl. 8, öðrum 2 pokum kl. 3, og svo hinum kannske ekki fyrr en daginn eftir. Það sjá allir, hve óhentugt þetta væri fyrir manninn, að bíða með sitt fólk eftir svona litlu. Þetta er því nokkurskonar einkaréttur, sem að vísu er ekki lögfestur, en ég held, að hann ætti að geta farið eins vel í höndum bæjarins eins og í höndum skipafélaganna. — Ég mæli því með frv. óbreyttu, og mér skilst, að hv. 1. þm. Reykv. mæli einnig með því með þeim fyrirvara, sem segir á þskj. 373.