20.11.1935
Efri deild: 74. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1231 í B-deild Alþingistíðinda. (1902)

50. mál, bæjargjöld í Vestmannaeyjum

Jón Baldvinsson:

Mér þykir rétt, að það komi fram við þessa umr. málsins, að gegn þessu frv. eru komin fram mótmæli frá 240 kjósendum í Vestmannaeyjum. Mótmælin eru svo hljóðandi:

„Við undirritaðir borgarar í Vestmannaeyjum skorum á Alþingi það, er nú tekur til starfa aftur, að framlengja ekki heimild þá, er Vestmannaeyjabær hefir nú til að leggja á vörugjald á inn- og útfluttar vörur. Vörugjald þetta er tilfinnanlegur skattur á nauðþurftir almennings og fisk og aðrar afurðir, sem fluttar eru frá Eyjum.“

Í sjálfu sér getur það vel verið, þó að slík mótmæli hafi komið fram frá hlutaðeigendum, að rétt sé að samþ. frv. En mér finnst þó, einnig af öðrum ástæðum, fullkomið tilefni til að málinu sé frestað að sinni og frv. tekið af dagskrá. Ég skal m. a. benda á, að í dag var á fundi í sameinuðu Alþ. ákveðin umr. um þál.-till. þess efnis að skora á stj. að láta athuga og undirbúa till. til nýrra gjaldstofna handa sveitar- og bæjarfélögum. Og í öðru lagi liggja fyrir Nd. í dag till. um að heimila einstökum bæjarfélögum að leggja einskonar vörugjald á innfluttar vörur, svo sem nánar er tiltekið í tillögunum. Tilefni þeirra er það, að flutt var frv. um að veita einu kauptúni á Norðurlandi heimild til vörugjaldsálagningar, en svo kom fram brtt. við það, þess efnis, að heimildin skuli veitast öllum kaupstöðum og kauptúnum á landinu.

Þar sem þetta tvennt liggur fyrir: tillögur um nýjan gjaldstofn handa bæjarfélögum, sem eftir er að afgr., og að öðru leyti áskorun til stj. um að undirbúa fyrir næsta þing till. um nýja tekjustofna banda bæjar- og sveitarfélögum, þá sýnist mér réttast að fresta þessu máli þangað til síðar, að séð verður, hvað úr þessu verður. Þegar svo mikið kapp er á það lagt í þinginu að útvega bæjarfélögum meiri tekjur en þau geta félagið af útsvörum, þá sýnist mér réttast að láta mál þetta niður falla í bráðina; það þarf ekki að fella frv., heldur taka það út af dagskrá og geyma það þangað til séð verður, hvort þingið samþ. almenna löggjöf um nýja tekjustofna handa bæjarfélögum, eða þá að afgr. verður þál.till stj. um að undirbúa almenna löggjöf um þetta og leggja fyrir næsta þing. Þetta hvorttveggja eru svo mikilvægar ástæður fyrir frestun þessa máls, þar sem augljóst er, að annaðhvort á þessu þingi eða því næsta verður sett almenn löggjöf sem ætla má, að ráði fram úr tekjuöflunarvandkvæðum bæjarfélaga, að ég vil mælast til þess, að hæstv. forseti meti þessar ástæður svo mikils, að hann taki málið af dagskrá og fresti frekari afgreiðslu þess, þar til séð verður, hvað þingið gerir við áðurnefndar tillögur. Ég þykist vita, að önnurhvor leiðin verði farin. Og ef stj. verður falið að undirbúa málið til næsta þings, þá sýnist mér, að þetta frv. geti beðið eftir því. Það getur ekki skipt miklu máli, hvort þetta frv. verður afgr. í dag eða það bíður úrslita áðurnefndra tillagna. Það á ekki eftir nema þessa einu umr. hér í þd., og mætti þá samþ. það síðar, fyrirvaralaust, ef hinar till. verða ekki afgr. þannig, að þær leysi úr þessum almennu vandkvæðum bæjarfélaganna.