04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1241 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Sigurðsson:

Þar sem þetta er 1. umr. málsins, mun ég ekki ræða nema nokkur aðalatriði.

En áður en það fer lengra vildi ég spyrja hv. frsm., hvort ekki hafi vakað það sama fyrir landbn. og okkur, sem fyrst fluttum frv. um óðalsrétt, að stuðla að því, að það fjármagn, sem enn er í sveitunum, streymi ekki úr þeim, og einnig, að það fjármagn, sem kann að skapast þar framvegis, haldi áfram að vera þar. Ennfremur að tryggja eðlilega fjölgun sjálfseignarbænda og þroska heilbrigðan ættarmetnað í landinu, sem tryggði bændurna í sveitunum. — Mér skildist á hv. frsm., að þetta vaki fyrir n. En ég vildi gjarnan fá skýra yfirlýsingu um þetta, og vildi því biðja hv. frsm. að svara þessum spurningum. — Ef ég hefi skilið hann rétt, greinir okkur ekki á í aðalatriðum.