04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1242 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Jón Pálmason:

Eins og hv. frsm. gat um, er þetta frv. þannig til komið, að steypt hefir verið saman fleiri frv., sem snerta það, sem einu nafni er nefnt jarðeignamál. Það er alkunnugt, eins og hv. þm. Alþfl. tók fram, að hér eru uppi tvær höfuðstefnur um þetta mál. Önnur sú, að allar jarðir verði gerðar að sjálfseignarjörðum, sem þá væru í sjálfsábúð, en hin, að gera allar jarðir að eign ríkissjóðs og bændurna að leiguliðum. En það er nú svo, að þegar menn binda sig við ákveðnar stefnur og reyna út í yztu æsar að koma þeim fram á stuttum tíma, þá vill það oft leiða út í öfgar. Það mun því oftast heppilegra að fylgja slíku ekki í upphafi út í æsar, og svo mun vera í þessu máli. Þar er bezt, að einstaklingarnir eigi frjálst val um, hvort þeir kjósa heldur að vera sjálfseignarbændur eða leiguliðar. Þó er ástæða til þess að taka fram, að vitanlega geta komið fyrir mörg þau tilfelli, að einstaklingurinn getur ekki tekið þann kostinn, sem hann kysi fremur.

Um frv. vil ég taka það fram, eins og hv. frsm., að það er samkomulagsleið milli nm., þó þeir séu ósammála um sum atriði þess. En sú samkomulagsleið, sem þar kemur fram, er rökstudd á þann veg, að við 4 nm., sem frv. flytjum, teljum miklu skipta að málið sé leyst nú á þann hátt, sem landbúnaðinum yrði til styrktar. En um það, hvort þetta hefir tekizt, verða vitanlega skiptar skoðanir.

Það hefir nú þegar komið fram frá minni hl., að hann vill ekki fallast á frv. vegna þess, að það fylgir ekki hans stefnu um, að gera allar jarðir að ríkiseign á komandi árum. En þetta er þannig varið, að við í meiri hl. ætlumst ekki til, að hægt sé að selja opinberar eignir nema með heimild undir þeim kringumstæðum, að þær séu jafnframt gerðar að ættaróðali.

Ég lít svo á, að mjög væri nú á annan veg komið í sveitunum, ef þetta skilyrði hefði verið sett jafnframt l. um sölu þjóðjarða. Því þó þau hafi að mörgu leyti orðið til bóta, hefir það reynzt svo, að margir bændur hafa selt jarðirnar aftur og þær lent í braski og verið leigðar allt of hátt.

Þá skal ég taka til athugunar nokkur atriði frá minni hl. n., hv. þm. Hafnf., sem ágreiningur er um. Ég mun þó ekki ganga ýtarlega inn á sum þeirra, því hv. frsm. hefir þegar gert mörgum þeirra skil. M. a. er ágreiningur um það, að ekki sé nægilega tryggt með frv., að einstaklingar fái ekki greitt fyrir þær jarðarbætur, sem styrktar eru af ríkinu. En þetta er misskilningur, því svo er um hnúta búið eftir frv., að ættin fær aðeins það, sem hún hefir í jörðina lagt.

Þá er það rétt, að það kom til orða í n., að afgjald jarðanna skyldi greiða í fríðu. Og ég fyrir mitt leyti tel heppilegt, að jarðaafgjöld og ýmsar aðrar greiðslur færu fram eftir verðlagsskrá, en til þess þarf verðlagsskráin að komast í allt annað horf en hún er nú í. En þessu atriði má alltaf breyta.

Annars er höfuðágreiningurinn milli mín og hv. þm. Hafnf. og hans flokksmanna sá, að hann telur, að með óðalsréttinum sé verið að veita einstökum mönnum sérréttindi. En eins og tekið er fram í grg. fyrir óðalsréttarfrv., lítum við svo á, að brýn þörf sé til þess að gera ráðstafanir til, að fjármagnið flytjist ekki burt úr sveitunum, og að það verði ekki á annan hátt betur tryggt en með því að gera jarðirnar að eign ættanna, þar sem einstaklingarnir hafi ekki heimild til að selja þær.

Til skýringar skal ég taka það fram, að það er síður en svo, að það sé í samræmi við kröfur okkar sjálfstæðismanna, að fært hefir verið niður, hve háar skuldir megi hvíla á óðalseignunum. Tel ég þetta atriði fullkomlega athugunarvert, því eins og nú stendur eru það tiltölulega fáar jarðir, sem komast undir þetta vegna skulda.

Hv. þm. Hafnf. gat þess, að hér væri ekki verið að hjálpa þeim, sem lakasta hafa aðstæðu, heldur þeim, sem hana hafa bezta. En ég bið alla að athuga það, að þeim verður ekki hjálpað eingöngu með afgreiðslu jarðeignamálsins (Fjmrh.: Hví?). Það verður að gerast með allt öðrum hætti og víðtækari ráðstöfunum. En frv. tryggir þó aðstöðu þeirra, sem verr eru settir, með bættum leigumála og öryggi fyrir sömu ætt að halda ábúðarrétti á jörðinni.

Að því er það atriði snertir, að menn hafi hrökklazt af jörðunum vegna skulda, stafandi frá jarðakaupum, er það að vísu rétt að formi til, en ástæðan er fólgin í því, að atvinnureksturinn hefir ekki borið sig og því hlaðizt á hann of þung gjöld. En það er ekki vegna fyrirkomulags jarðeignamálsins, heldur annara orsaka, sem ekki er hægt að útrýma með afgreiðslu þessa máls nema að litlu leyti. Það verður aldrei gert að fullu nema atvinnureksturinn beri sig. En ég held, að það greiði fyrir því, að svo geti orðið, að sett verði þau ákvæði um óðalsrétt, sem hér er um að ræða, og þau yrðu framkvæmd sem víðast.

Ég skal svo ekki fara frekar inn á einstök atriði, sem ágreiningur hefir orðið um í n., þau koma þá frekar fram við 2. umr. Þó vil ég láta í ljós þá skoðun mína, að þótt um nokkur ágreiningsatriði sé að ræða, höfum við gengið inn á þessa leið af því, að við teljum mikilsvert að ná samkomulagi um þessi mál. Ég tel ágreininginn fremur um aukaatriðin, en um aðalatriðin — erfða- og óðalsréttinn — sé samkomulag.

Hv. þm. Hafnf. var að tala um, að menn okruðu á þeim jarðabútum, sem ríkið væri búið að styrkja, en ég held, að þegar um erfðaábúð er að ræða sé ekki hætta á, að bændur hlaupi frá jörðum sínum til þess út af fyrir sig að fá greiðslu fyrir jarðabæturnar. Það mun því ekki stafa hætta af því í sambandi við þetta frv.

Ég skal svo ekki að sinni fara lengra út í þetta mál, en vænti, að hv. dm. geri sér glögga grein fyrir því, hvort heppilegt muni vera að gera það að þrætumáli milli flokka. En til þess að koma í veg fyrir það er heppilegast að ganga frá því nú.