04.11.1935
Neðri deild: 64. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1249 í B-deild Alþingistíðinda. (1920)

156. mál, erfðaábúð og óðalsréttur

Emil Jónsson [óyfirl.]:

Flestir þeir, sem talað hafa í málinu, hafa tekið það fram, að hér sé aðeins um samkomulagslausn að ræða, sem enginn þeirra sé eiginlega ánægður með. En ég vil taka það skýrt fram, að það samkomulag er aðeins milli Framsfl. og Sjálfstfl., en Alþfl. mun ekki geta sætt sig við þessa lausn málsins.

Ég vil í þessu sambandi vitna í ummæli hv. 7. landsk. og hv. 6. þm. Reykv. Sá fyrrnefndi sagði, að hann fylgdi frv. til samkomulags, en gæti alls ekki fallizt á þá breyt. á því, að bannað yrði með lögum að selja jarðir úr ríkiseign. Má þá nærri geta, hvernig samkomulag tækist við þann hv. þm. um þá stefnu Alþfl., að ríkið bæti við sig jarðeignum.

Hv. 6. þm. Reykv. sagði að sjálfseignarstefnunni væri að aukast fylgi. Þetta virðist því miður vera rétt, eftir frv. að dæma, því að þar er ekki um neitt samkomulag að ræða milli þeirra, sem halda fram sjálfsábúð, og hinna, sem telja ríkiseign í jörðum heppilegustu lausnina. Með frv. er ýtt undir sjálfsábúðarstefnuna á allan hátt, en hinum er ekki gert svo hátt undir höfði, að bannað sé að selja þær fáu jarðir, sem eftir eru í eigu ríkissjóðs, hvað þá að frv. geri ráð fyrir aukningu á þeim. Ég mun því ekki geta fylgt frv. eins og það er, en mun koma með brtt. um það, að heimild til að selja ríkis- og kirkjujarðir í vissum tilfellum falli niður.

Ég ætla þá að víkja nokkuð að ræðu hv. 7. landsk. Hann sagði, að áður hefði ekkert verið hugsað fyrir hag sjálfseignarbænda sérstaklega. Ég skal ekki um það segja, en það er víst, að ef hugsað er um þeirra hag eins og gert er í frv., er fyrst og fremst hugsað fyrir hag þeirra, sem mest hafa efnin. Ég hefði talið réttara, að byrjað væri á hinum endanum. Hv. 7. landsk. taldi nauðsynlegt, að byrjað væri á stórbændunum, til þess að „stöðva flóttann úr sveitunum“. En ef þörf er á að setja skorður við uppflosnun manna úr sveitunum með hjálp löggjafarvaldsins. virðist auðsætt, að byrja eigi á þeim, sem verst eru staddir.

Hv. þm. sagði, að það ylli fjárflótta úr sveitunum, að ríkið keypti jarðirnar. Ég á nú fremur bágt með að skilja þetta. Ef ríkið kaupir jarðirnar af bændum, sem nú greiða 6% í vexti af skuldum sínum, en leigir jarðirnar út fyrir 3%, verða 50% af vöxtunum meira í sveitunum.

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að aðstaða hinna verst stöddu bænda yrði aldrei bætt með því að gera jarðirnar að ríkiseign. Ég sé þó ekki annað „effektivara“ ráð, þó að sérstakar orsakir liggi til þess nú, að landbúnaðurinn ber sig ekki, en afleiðingin af því, að búskapurinn ber sig ekki, hlýtur að verða sú að lokum, að jörðin er tekin af bóndanum og seld. Langbesta tryggingin fyrir því, að menn þurfi ekki að flæmast af jörðum sínum, þótt illa ári, er því sú, að ríkið eigi jarðirnar.

Það var talsvert einkennilegt að heyra þá hv. 7. landsk. og hv. þm. Ak. vera að kvarta yfir því, að erfðaábúð væri sett sem nr. 1, en óðalsréttur sem nr. 2 í frv. En hvað mættum við hinir segja, þar sem frv. okkar um sölu þjóð- og kirkjujarða er ekki nefnt. Óðalsréttarfrv. þeirra er tekið upp bæði í fyrirsögn frv. og í frv. sjálft, en okkar frv. er ekki nefnt í fyrirsögninni og skaðskemmt í frv. Samkomulag um málið er því aðeins milli framsóknar- og sjálfstæðismanna, eins og ég tók fram í upphafi.

Aðalatriði frv. virðist það, að gera ábúendum kleift að fá kapitalið til að nytja jarðirnar með lægri rentum en almennt gerist. Þessi ábúðarlöggjöf gerir ráð fyrir 3% afgjaldi og í erfðaábúðarlöggjöfinni er gert ráð fyrir, að ábúendur megi taka lán út á jörðina, sem nemur allt að 50% af fasteignamatsverði þeirra. Hjálpin á að koma með tvennu móti skv. frv., — frá ríkinu og frá ættinni. En ég teldi heppilegra, að ríkið legði til alla þessa hjálp, en ekki einstaklingar að miklu leyti, enda réði þá ríkið, á hvern hátt jarðirnar væru notaðar. Annars verð ég að efast um, að 50 % ákvæðið verði respekterað í framkvæmdinni. Nauðsyn bænda á því að fá hærri lán gæti orðið svo mikil, að þessa prósenttölu yrði að hækka innan skamms, ef bændur ættu ekki að hrökklast af jörðinni. En það er ekki skynsamlegt að vera að setja það í l., sem ekki er líklegt, að standist í framkvæmd.

Ég get fallizt á það með hv. þm. A.-Húnv., að hér er um tvær stefnur að ræða, og með frv. hefir alveg verið gengið inn á aðra þeirra. Því skiptir minna máli, hvernig þessi löggjöf er í smærri atriðum. Hann sagði, að þetta ætti ekki að verða flokkaþrætumál, enda má hann vera ánægður, þar sem Framsfl. hefir gengið inn á stefnu hans í málinu.