19.11.1935
Neðri deild: 77. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1331 í B-deild Alþingistíðinda. (2172)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Gísli Sveinsson [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég býst ekki við að þurfa að fara mörgum orðum um það atriði, sem hv. þm. Borgf. æsti sig mest út af nú, því það var ljóslega fram tekið af mér í gær, að hin rökst. dagskrá hans nær ekki nokkurri átt. Hitt getur verið, að hæstv. forseti kveinki sér við að vísa slíkri till. frá, enda þótt það væri í fyllstu samræmi við það, sem rétt er og eðlilegt samkv. þingsköpum. Þó að fram komi dagskrártill. alveg út í hött, sem ekkert snertir það atriði, sem verið er að deila um, þá getur maður ekki talið heimilt að vísa máli frá eftir slíkri endemis till. Það getur verið, að hæstv. forseti vorkenni hv. þm. að hafa leiðzt út í þennan barnaskap, því skipti ég mér ekkert af. En ég vænti, að hv. þm. séu svo óblindaðir af því moldviðri, sem hv. þm. Borgf. og hv. þm. V.- Húnv. hafa þyrlað hér upp, að þeir kunni deili á að meta málið eftir rökum, en ekki eftir fjarstæðum.

Hv. þm. Borgf. heldur fram, að eins og nú standa sakir megi ekki þessi breyt. ganga fram, það megi ekki hafa þá aðferð í þessu máli, sem hér er farið fram á. Vitnaði hann ennþá í sveitarstjórnarlogin, sem er tóm endileysa, því þetta mál kemur ekkert við þeim ákvæðum, sem hann vitnaði í, og ætti hann að taka til greina þegar honum fróðari menn benda honum á það. Þetta mál á ekki að fara umboðsmegin. Ef það væri, gætu ákvæði sveitarstjórnarl. átt við. En það verður að ákveða þetta mál með löggjöf, og þar af leiðandi er löggjafinn óháður þeirri aðferð, sem ætlazt er til, að viðhöfð sé áður en ráðh. sker úr slíkum efnum. Það næði ekki heldur tilgangi sínum eftir till. hv. þm. að fara þá leið, svo að till. er úti á þekju jafnvel frá sjónarmiði hans sjálfs. Hann talar um, að málið fái ekki löglega meðferð hér. Það er búið að sýna fram á, að það er búið að fá þá meðferð, sem það þarf að fá áður en löggjafinn tekur í taumana. Það er upplýst, að samkomulag næst ekki heima í héraði. Málið getur þannig ekki farið umboðsleiðina, heldur verður að fara löggjafarleiðina. Það er upplýst, að n. var skipuð til að fjalla um málið, sem átti að reyna að ná samkomulagi við hreppsnefnd Engihlíðarhrepps. þeir vildu hvorki heyra hana né sjá og þar með var útilokað og langt frá, að það gæti orðið samkomulag, ég sé því ekki, að málið hafi neitt að gera heim í hérað aftur. Menn virðast samdóma um efni málsins, að það sé réttmætt, hv. þm. Borgf. hefir ekki neitað því. Og hvaða ástæða væri þá til að senda málið norður í land eftir þessari utangarnatillögu hans og biðja um álit um það, sem menn vita fyrirfram, hvernig yrði? Hvorki sýslunefndin eða hreppsnefndirnar geta komið sér saman um þetta, og þess vegna er leitað til Alþingis um úrlausn á því. Hvað er unnið við það, þó fyrir lægi neikvætt svar frá sýslunefnd? Nauðsynin á framgangi málsins er jafnáberandi fyrir það. Menn virðast sammála um, að efni málsins sé þannig vaxið, að það eigi að ná fram að ganga, og menn vita um afstöðu manna til þess heima í héraði, svo hv. þm. ættu að standa sig við að greiða atkv. með því nú þegar. Það er ekki annað en barnaskapur að gera formið að þessu höfuðatriði, sérstaklega þegar form það, sem hv. þm. Borgf. hangir í, á ekki hér við að lögum.