06.12.1935
Efri deild: 88. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1350 í B-deild Alþingistíðinda. (2193)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að fara út í að ræða síðari till. á þskj. 703, því hún hefir minni þýðingu fyrir málið. En ég ætla að tala nokkur orð um málið frá sjónarmiði þess aðila, sem sérstaklega er óánægður með frv. sem er kaupfélagið á Blönduósi. Ég veit ekki, hvort það hefir verið tekið fram áður, að þegar kaupfélagið var stofnað á Blönduósi, gat félagið ekki fengið lóð í kauptúninu og var þannig byggt þaðan út og hrakið burtu. Niðurstaðan varð því sú, að bændurnir urðu nokkurskonar landnámsmenn austan árinnar. Hafa þeir nú byggt þar á eyðimöl verzlunarhús, ágætt íshús og bryggju, sem nú er orðin aðalbryggja kauptúnsins, þar sem allar tilraunir til bryggjugerðar í gamla staðnum hafa misheppnazt. Er nú svo komið, að öllum vörum er skipað upp á þessum útkjálka og flutt á bílum til kauptúnsins yfir brúna. Mér finnst því, ef litið er á málið frá sögulegri hlið, varla rétt, að kauptúnið, sem áður er búið að úthýsa kaupfélaginu, sé látið taka það aftur nauðugt, þó nokkur ár hafi liðið á milli. Þetta er höfuðástæða. Hin er sú, að baráttan hefir eingöngu staðið um kaupfélagið, að ná því aftur undir gamla kauptúnið. Ég býst ekki við, ef kaupfél. hefði ekki haft þarna aðsetur með mörgu starfsfólki, að Blönduóshreppur hefði kært sig um þá þurrabúðarmenn, sem þar eru búsettir. Hefir þessari sameiningu verið mótmælt af stjórn og öllum leiðandi mönnum kaupfélagsins. Bæði búast menn við hærri gjöldum og óttast jafnvel, að eftir sameininguna muni herskatturinn til Engihlíðarhrepps falla að mestu leyti á kaupfélagið. Út frá þessum forsendum tel ég því rétt að fella frv. hreint og beint, og er því á móti frv. og brtt. Með þessu hefi ég gert grein fyrir mínu atkv.