09.12.1935
Efri deild: 90. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1358 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

136. mál, sameining Blönduóskauptúns í eitt hreppsfélag

Ingvar Pálmason:

Það er út af þessari einkennilegu fyrirspurn, sem hv. 1. þm. Eyf. beindi til okkar hv. 10. landsk., sem ég þarf að segja fáein orð. Hann spurði okkur sem sé að því, hvort við hefðum í höfðinu, hvernig fátækraframfærslan hefði fallið í þessum hlutum Engihlíðarhrepps á síðustu 5 árum. (BSt: Þetta sagði ég aldrei, heldur hvernig ætti að skipta fátækraframfærslunni). Já, hvernig ætti að skipta henni. Ég hefi það ekki í höfðinu, og ég held hv. 10. landsk. ekki heldur. Það er af eðlilegum ástæðum. En ef hv. 1. þm. Eyf. hefði spurt um það, hvort ég vissi, hvernig fátækraframfærslan hefði fallið á síðustu 5 árum í því sveitarfélagi, sem ég hefi átt kost á að fylgjast með reikningum i, þá skyldi ég hafa svarað, og þá var rétt spurt.

Það er réttilega tekið fram, að meðan sveitfestistíminn var 10 ár, gat þetta verið flókið. En það vita allir, og hv. 1. þm. Eyf. líka, eins og ég, að hún kemur ekki til greina á þessum 5 árum, sem hér er ætlazt til, að lögð verði til grundvallar. En ég verð að byggja á þeirri reynslu, sem ég hefi á þessum málum annarsstaðar, og get ég ekki séð, að komi fram neinir annmarkar á því að leggja skýrt fram, hver þessi upphæð er. En verði ágreiningur um sveitfestina, þá er það ekki hreppsnefndarinnar að úrskurða það, heldur verður að úrskurða þarf á réttum vettvangi, og þeim úrskurði verður hreppurinn að hlíta.

Ég get ekki fundið þá annmarka á þessari till. okkar hv. 10. landsk., sem hv. 1. þm. Eyf. byggir andstöðu sína á, og þar af leiðandi finn ég, enga hvöt hjá mér til þess að breyta henni eftir hans höfði, sem ég þá vissi ekki, hvort honum mundi líka. Þess vegna er eðlilegt, að ég óski eftir því, að hann komi með brtt., því að þegar ég get ekki viðurkennt þá ástæðu sem hann telur, að sé fyrir hendi til þess að breyta okkar brtt., þá getur hann ekki búizt við því, að ég eða hv. meðflm. minn komi með brtt. Ef við hefðum gengið inn á rök hans, þá var öðru máli að gegna. Ég get sagt það, eins og ég tók fram áðan, að ef ekki á að leggja eitthvað svipað til grundvallar og það, sem við leggjum til grundvallar í okkar till. fyrir mati eða ákvörðunum þeirra skaðabóta, sem hreppurinn á að fá, þá veit ég ekki, hvað á að leggja til grundvallar. Ég held því, að í raun og veru sé þetta mál þannig vaxið, úr því að þingið telur það liggja svo ljóst fyrir, að nú á þessu þingi skuli ákveða, að þessi hreppskipti fari fram, hljóti það líka að liggja ljóst fyrir, að hér sé ekki um stórt atriði að ræða, og væri þá allra réttast að tala ekkert um skaðabætur handa Engihlíðarhreppi. En úr því að þessi veiki punktur kemur fram hjá hv. flm. málsins, tel ég, að þeir eigi að ganga svo frá því, að þeir séu vissir um, að Engihlíðarhreppur líði ekkert við þessi skipti. En þeir eru ekki vissir um það, þegar þeir kasta frá sér að ákveða um það, hverjar skaðabæturnar eigi að vera, en það gera þeir, þegar þeir segja, að sýslumaður eigi að útnefna menn til þess að meta þær.

Það er ekki meira en mannsaldur síðan þessi hreppur var einhver allra fátækasti hreppurinn í Húnavatnssýslu. Það veit ég, en ég er ekki kunnugur þar síðustu 40 árin, en hefi mikla ástæðu til að halda, að velgengni hreppsins stafi ekki hvað minnst af byggðinni norðan Blöndu, sem nú á að taka af hreppnum og gjalda honum í staðinn bætur, sem einhverjir og einhverjir meta. Alþingi telur sig hafa rétt til þess að taka þennan hluta af Engihlíðarhreppi, og kasta jafnframt frá sér þeirri ábyrgð, sem það hefir tekið á sig um leið, að ákveða, að hreppurinn fái fullar bætur fyrir. Mér dettur ekki í hug að bera nokkrar brigður á það, að viðkomandi sýslumaður, sem er búsettur í Blönduóshreppi, muni alls ekki útnefna þessa matsnefnd, ef til kemur. Ég býst við, að hann víki sæti, og þá vitum við ekkert, hvernig til tekst um þessa skipun. Það getur því orðið ókunnugur maður, sem útnefnir þessa menn, og þar af leiðandi getur farið svo, að þeir verði ekki heppilega valdir. Ég tel því, að hæstv. Alþingi, með því að ákveða að þessi skipti skuli fara fram án þess að ganga betur frá þessu atriði, hafi tekið á sig allt of mikla ábyrgð og sýnt allt of litla ábyrgðartilfinningu fyrir því að ganga úr skugga um, að hreppurinn missti einskis i. Ætti því að samþ. brtt. okkar hv. 10. landsk., þó að henni kunni, frá sjónarmiði hv. 1. þm. Eyf., að vera í einhverju ábótavant, sem ég þó ekki sé. Verði hún drepin, er þingið þar með búið að ákveða, að þessi hreppskipti skuli fara fram, en því kemur ekkert við, hvernig fari um skaðabæturnar. (BSt: Drepa frv. á eftir). Þá er réttara að tala ekkert um skaðabætur, en úr því að þessi veila er komin fram, að það þurfi að bæta hreppnum þetta að fullu, verður hæstv. Alþingi að stíga sporið til fulls og sjá um, að hreppnum verði bætt að fullu.