04.12.1935
Sameinað þing: 25. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (235)

1. mál, fjárlög 1936

Sigurður Einarsson:

Ég ætla fyrst að víkja nokkrum orðum að einu atriði, sem fram kom hjá Þorsteini Briem. Hann talaði þar um þá miklu herför, sem Alþfl. hefði hafið á hendur bændum með því að koma á 2 aura verðlækkun á mjólkinni í Reykjavík, og vildi hann gera mikið úr því tjóni, sem mjólkurframleiðendum hafi verið gert með þessum ráðstöfunum, þeir sem sá skaði mundi nema mörgum hundr. kr. á ári á meðalbónda.

Ég veit ekki, hversu mikið fagnaðarefni það er fyrir Þorstein að ræða þetta mál á þeim grundvelli, sem hann hefir gert, því að þessi verðlækkun á mjólkinni er eitt af því fáa góða og gleðilega, sem allir sanngjarnir og góðir menn eru sammála um, að gert hafi verið í þessu máli. Það er byggt á eintómum misskilningi, að bændur hafi beðið tjón af mjólkurlækkuninni, því að um leið og samsalan tók til starfa, komst á eitt verð á mjólkinni, í stað þess, að verðið hafði áður verið mismunandi. Og þegar samsalan hóf starf sitt, þá var sala mjólkurinnar og innheimta verðsins á henni skipulögð, svo að það er nú minna um töp á fé en áður var.

Það er mjög hart, að deilt skuli vera á Alþfl. fyrir afskipti hans af þessu máli, þar sem hans stefna hefir alltaf verið sú, að hér skuli vera seld góð vara, sem neytendum sé kleift að fá fyrir viðunandi verð, og hinsvegar, að bændum sé tryggð sæmileg borgun fyrir vöru sína.

Við Alþýðuflokksmenn erum ekkert hræddir við að leggja fram annarsvegar mjólkurlækkunina og drengilegan stuðning okkar við málefni bænda, og svo hinsvegar mjólkursvik Eyjólfs Jóhannssonar á sama tíma sem Sjálfstfl. og Bændafl. þökkuðu honum fyrir hans heillaráð. Við erum ekki hræddir við þann samanburð.

Hr. Þorsteinn Briem gerði sig mjúkan í máli og sagði, að þolinmæði bænda væri að þrotum komin yfir framkvæmdum núv. stj. í afurðasölumálunum.

Ég verð nú bara að segja, að ef þolinmæði bænda er á þrotum núna, þá veit ég ekki, hvar hún var á meðan Mjólkurfélag Reykjavíkur með Eyjólf Jóhannsson fremstan í flokki og Korpúlfsstaðabúið ginu yfir hlut allra mjólkurframleiðenda, því að þar var ekki hugsað um hagsmuni bænda, heldur hagsmuni þessarar fámennu klíku.

Ólafur Thors tók í þennan sama streng, og því ekki það? Hann er einn stærsti mjólkursalinn í nágrenni Reykjavíkur.

Ólafur Thors segir, að mjólkurlækkunin hafi orsakazt af því, að einn þm. og stjórnarliði hafi haft í hótunum við stj., ef mjólkurlækkunin gengi ekki fram.

Hann má kalla þetta hvað sem hann vill. En mjólkin er lækkuð, og það er komið eitt mjólkurverð, og það hvorttveggja skiptir mestu máli í þessu efni, og bændur hafa engu tapað á þessu. Þvert á móti hagnazt á því, eins og vera bar.

Ólafur Thors talaði um, að stjórnarflokkarnir hefðu svikizt aftan að bændum í trúnaði, hvað afurðamálin snerti. Ja svei! Ég varð alveg hissa þegar ég heyrði þetta. Hann sagði að stjfl. hefðu svikizt aftan að bændum í þessu efni, sínum pólitísku hagsmunum til framdráttar. Er þm. svo fávís að halda það, að það sé til framdráttar nokkrum flokki, að svíkjast aftan að kjósendum sínum í trúnaði? Er það líklegt, að menn efli flokk sinn með slíku? Er þetta sjónarmið samboðið stjórnmálamanni? Er þetta ekki frekar sjónarmið braskarans, sem álítur allt góða „forretningu“, ef hann fær stundarhagnað af henni? Ég verð að vísa þessum svigurmælum algerlega á bug fyrir hönd Alþfl. Með þessum ummælum sínum hefir þm. komið upp um það sjónarmið, sem hann telur vænlegast að taka til þess að afla málum fylgis og hann og flokkur hans hefir trúlega fylgt ettir að Kveldúlfsáþjánin byrjaði fyrir alvöru í Sjálfstfl.

Svo segir þessi maður með þvílíkum belgingi og rosta, að það var engu líkara en að hann væri að tilkynna dómsdag: „Við munum hætta að berjast fyrir hagsmunum bænda, ef þeir virða baráttu okkar svo lítils.“ Já, guð hjálpi mér! Að hugsa sér Sjálfstfl. berjast fyrir hagsmunum bænda! Hann ætlaði einu sinni að raflýsa landið. Sú fyrirætlun var öll svo fáránleg, að flokkurinn varð sér til athlægis. Hann ætlaði núna að leggja eina millj. kr. á bændur og skattþegna í verðjöfnunarsjóð, í stað þess að láta verzlunarvöru sína, fiskinn, bera þann kostnað. Hann hefir látið ofsækja verzlunarfélög bænda. Er þá barátta fyrir hagsmunum bænda, er stórburgeisarnir sölsa undir sig óhemju jarðagóss og hrekja bændur út í samkeppni við slíkt einstaklingsframtak. Og svo hefir þessum manni þóknazt að líta á alla pólitíska andstöðu gegn flokki sínum, íhaldsflokknum, sem öfund gegn sér persónulega. En það er engin öfund; það er krafa fólksins um réttlæti í staðinn fyrir fyrirhyggjulaus fantatök uppblásinna sérgæðinga.

Ólafur Thors reynir að verja 21 þús. kr. laun fiskisöluforstjóranna í grein, sem hann hefir skrifað í Morgunblaðið nýlega. Þar er sagt, að alþýða þessa lands öfundi ekki dugnaðarmennina, þótt þeir beri sæmileg laun úr býtum fyrir strit sitt, áhyggjur og erfiði. Þetta er vandlega undirstrikað í Morgunblaðinu. En þegar þessi hv. þm. mætir andstöðu á þingi frá flokki, sem lítur á málin frá öðru sjónarmiði, sem er sjónarmið vinnandi fólks til sjávar og sveita, þá á sú andstaða að vera öfund í garð hans og hans skoðanabræðra. Nei; það, sem hér um ræðir, er blátt áfram það, að þjóðin vill borga hóflega fyrir sæmilega unnin störf og fá að lifa á árangri vinnu sinnar, en ekki sjá hann hverfa í vasa þeirra eyðsluseggja, sem þykjast þurfa 21 þús. kr. fyrir sitt strit. Nú vil ég biðja kjósendur þessa lands um að athuga, hvort Ólafur Thors er alveg öfundarlaus í garð verkamannanna og bændanna, sem lítið bera úr býtum. Nei; það er síður en svo. Hann segir í ræðu sinni, að kaupgjaldið og skattarnir hafi lagt þjóðina í rústir. Að kaupgjaldið í opinberri vinnu hafi eyðilagt sveitirnar og kaupið við sjóinn hafi eyðilagt útgerðina.

Ekkert af þessu er satt. Alþfl. getur játað það, að hann hefir átt stærstan þáttinn í því, að menn, sem yfirleitt vinna fyrir kaupi við erfiðisvinnu í landinu fengju nokkurn veginn viðunandi kaup.

Alþfl. vill reyna að standa á verði til þess að sporna við því, að litið sé á verkamenn þessa lands eins og úrhrak eða þræla. En erfiðismannastétt, sem til langframa er vanborgað, verður úrkynjuð, dáðlaus og menningarlaus. Það er þetta, sem Ólafur Thors vill.

Hvað er hæft í því, að kaupið í opinberri vinnu hafi eyðilagt sveitirnar?

Í opinberri vinnu vinna tveir hópar manna.

Annarsvegar eru menn, sem hafa opinbera vinnu fyrir aðalatvinnu. Þeirra afkoma er ekki glæsilegri en það, að þeir geta með naumindum dregið fram lífið á því starfi, þó með því skilyrði, að þeir beiti ýtrustu sparsemi. Í hinum flokknum eru menn, sem milli starfa í sveitinni grípa í opinbera vinnu, þegar tími er til, til þess að afla sér peninga fyrir lífsnauðsynjum og opinberum gjöldum. Stórkostlegur hluti af vegavinnufénu hefir runnið til sveitamanna, sem hafa orðið að slá slöku við heimilisstörfin á meðan á vinnunni stóð eða leggja þau á aðra.

Það er líka algerlega rangt, að kaupgjaldið við sjóinn hafi valdið því, að útgerðin sé komin í rústir. Kaupgjaldið við sjóinn er árangur þeirrar kaupbaráttu og þeirrar stéttarbaráttu, sem alþfl. hefir skapað, og þessi stéttasamtök hafa valdið því, að unnt hefir verið að stemma stigu við því, að verkafólkið við sjávarsíðuna yrði að úrkynjuðum ræflum og úttauguðum vesalingum.

Það er því að snúa snörunni um sinn eigin háls, að halda því fram, að það sé kaupgjaldið við sjóinn, sem hafi komið útveginum á vonarvöl. Það er dugnaður og samvizkusemi sjómanna og verkamanna, en ekki framsýni forstjóranna, sem hefir haldið honum við. En það er hinsvegar vitað, að kaupgjaldið hefir einmitt átt drýgstan þátt í því, að verkalýður kaupstaðanna á þó ekki við verri kjör að búa en raun ber vitni um.

Svo langt gekk Ólafur Thors í rangmælum sínum, að hann talaði um atvinnuleysistryggingarnar sem árás á verkalýðinn.

Þannig getur enginn annar talað en sá, sem horfir á málin frá sjónarhól yfirstéttarinnar. Það er bezt, að verkalýðurinn dæmi sjálfur um þetta.

Alþýðutryggingarnar hafa verið reyndar annarsstaðar, og það dettur engum í hug að afnema þær. Verkalýðurinn vill ekki afnema árásina. Hann vill heldur svona árás en umhyggju íhaldsins og Kveldúlfs.

Þá talaði Ólafur Thors mikið um einkaframtakið sem grundvöll atvinnulífsins. Þetta einkaframtak, sem er átrúnaðargoð og æðsta lífsspeki Sjálfstæðisflokksins, hefir átt sitt blómaskeið á Íslandi. Hver er árangurinn? Hvar eru sigrar þess?

Á þeim árum, sem pólitísk samtök verkalýðsins voru ekki eins þroskuð og þau eru nú, þá vildi svo til, að einstaklingsframtakið gleymdi að útvega þjóðinni sem víðtækasta markaði. Þetta var á tímabili viðskiptalegrar útþenslu, og þá safnaði þetta einkaframtak 30 millj. króna skuld, sem olli því, að Íslandsbanki fór á höfuðið. Nú hefir nýlega verið sendur maður til Suður-Ameríku til þess að afla nýrra fiskmarkaða, og það er talið, að það hafi borið nokkurn árangur. En einu sinni seldi Kveldúlfur fisk á markaði í Suður-Ameríku. En það var hætt við það. Stundargróðinn ginnti. Hann gleymdi því, að þar sem hann var með opinbert fé undir höndum, þá bar honum að vinna fyrir fólkið í landinu og framtíðina, tryggja markaðina, þó gróðinn yrði minni. Það var bara ekki gert.

Annars verð ég að segja — og ég bjóst við, að fleirum hafi fundizt það en mér —, að það var nokkuð erfitt að fá nokkurt heildarvit úr ræðu Ólafs Thors. Hún var mest orðagjálfur og mótsagnir.

Ólafur Thors vill láta spara, hann vill skera mikið niður, og hann vill láta gera sem minnst í landinu. En hann vill samt ekki atvinnuleysistryggingar. Þegar Ól. Th. talar um, að hann vilji láta gera sem minnst og skera sem mest niður, þá er hann búinn að gleyma, hvernig kjör þeirrar þjóðar eru, sem hann þykist vilja berjast fyrir. Hann segir í sömu ræðunni, sem hann segist vilja láta spara, að atvinnuleysi, sultur og eymd steðji að. En samt er hann á móti atvinnuleysistryggingum. Í dag var útbýtt á Alþingi nefndaráliti frá sjálfstæðismönnum, minni hluta allsherjarnefndar, um alþýðutryggingar, þar sem þeir segja, að þeir séu á móti þessum atvinnuleysistryggingum, og að þeir leggi til, að þær verði felldar niður: Í fyrsta lagi af því, að atvinnuleysistryggingar séu jafnan mjög erfiðar og dýrar í þjóðfélagi, þar sem atvinnan er bundin við árstíðir. Í öðru lagi segja þeir, að fjárhagsafkoma ríkis og bæjarfélaga sé eigi slík, að þeim sé kleift að leggja af mörkum háar fjárupphæðir o. s. frv. Og svo klykkja þessir háu herrar út með því að segja:

„Væntum við, að þessi rök nægi til að leiða athygli háttv. deildar að því, að fella beri þessar atvinnuleysistryggingar“, og þetta segja þeir á sama tíma, sem formaður Sjálfstfl. spáir atvinnuleysi, sulti og eymd. Það er ekki verið að hugsa um það, á hverju fólkið á að lifa, sem niðurskurðarmaðurinn Ól. Th. vill svipta öllum lífsmöguleikum. Fólkið má lifa eða deyja vegna þessa manns. Það kemur honum ekki við. Hann vill spara, en samt vill hann bæta millj. króna útgjöldum á ríkissjóð. En það má bara ekki taka þessar millj. kr. af hans verzlunarvöru. En það má hinsvegar leggja þessa milljón á munnbitann og sopann, sem almenningur neytir, en bara ekki á þá verzlunarvöru, sem gerir honum kleift að lifa óhófssamara lífi en flestum öðrum. Hann vill hallalausan ríkisbúskap; það heitir á máli þessa manns gætin fjármálastjórn. En ef þessum mönnum er boðið upp á fjárlög, sem tryggja það, að ekki verður greiðsluhalli, þá heitir það á máli þessa manns, að pína fé út úr almenningi. Það er ómögulegt að gera þessum manni til hæfis, m. a. vegna þess, að hann hefir ekkert vit á því, sem hann er að tala um. Hann vill ekki skuldasöfnun við útlönd, en samt styðst hann við flokk, sem heimtar afnám innflutningshaftanna, meira glingur, meira skraut, meiri gróða; hann hamast á sömu stundu út af því, hversu mikið hafi verið veitt af gjaldeyrisleyfum, sem hann emjar undan höftunum. Hann kveinar undan atvinnuleysi og sulti samtímis því, sem hann vill láta skera niður verklegar framkvæmdir. Hann derrir sig og þusar um gætilega fjármálastjórn samtímis því sem hann hamast á móti nauðsynlegum tekjuöflunum og fer um það hinum háðulegustu orðum. Hvar er nú eiginlega vitið og brúin í þessu? Og hugsið ykkur, að geta borið fram aðra eins yfirlýsingu og þessa: Að mínum dómi stafa erfiðleikar okkar ekki af því, að við séum að glíma við neina sérstaka kreppu, heldur er kaupgjaldið helzta orsök erfiðleikanna. Þetta var a. m. k. andinn í því, sem hann sagði.

Ól. Th. er sennilega eini maðurinn í Evrópu, sem kemur nálægt stjórnmálum, sem veit ekki um neina sérstaka kreppu. Og þetta verður ekki öðruvísi skilið en þannig, að þessum manni er þannig í skinn komið, að þessi kreppa, sem hver einasti maður í alþýðustétt á Íslandi kannast við, hefir gengið framhjá hans dyrum.

Það er til biblíuleg þjóðsaga um, að menn hafi roðið blóði á dyr sínar til að bægja burtu óvelkomnum sendingum. Ég veit ekki, hverju hv. þm. hefir roðið á sínar dyr til að varna kreppunni inngöngu. Ég ætla að vona, að það hafi ekki verið sviti og erfiðleikar undan blóðugum nöglum verkalýðsins. Það er ekkert annað en sú glæra fáfræði, ásamt drambi, sem alið er upp við undirlægjuhátt lítilsigldra knapa, flokksmanna hans hér á þingi, sem getur komið manninum til að tala svona. Svo segir hv. þm. — og það var eiginlega þungamiðja ræðu hans — að nú þurfi að reka valdhafana af höndum sér, því að annars verði þjóðin þræll erlendra lánardrottna. Það er nógu gaman að heyra þetta. Ólafur Thors virðist vera búinn að gleyma því, að 1. þm. Skagf. hefir komizt lengst í því að koma þjóðinni undir ok erlendra lánardrottna með því að taka eitthvert hið aumasta ríkislán, sem tekið hefir verið af Íslendingum. Og það er í rauninni eðlilegt, að þessa menn langi til þess að reka núv. valdhafa frá stjórn. Þá langar í íhaldsréttarfar, Krossanessíldarfyrirkomulag, þá langar í Hesteyrarmál, þá langar í Eyjólfs-mjólk, Laugalanda-erindrekstur, Gismondisamninga og Kúlu-Andersens-lán og Íslandsbankaeftirgjafir. Það eru alls ekki hagsmunir almennings í landinu, sem Sjálfstfl. vill berjast fyrir, heldur þetta; þess vegna vilja þessir menn láta reka núv. stj. frá völdum; þeir vita nefnilega, að hún berst fyrir hagsmunum vinnandi fólks í landinu. Þeir vilja endilega losna við þessa stjórn, af því að meðan hún er við völd, verða engir Gismondisamningar gerðir. Laugi landi verður að sitja heima, og engin Kúlu-Andersens-lán verða tekin. Eyjólfur fær ekki að svíkja mjólkina, málin verða að vera rétt.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að frv. til l. um útgerð ríkis og bæja, sem er, hvort sem Sjálfstfl. líkar betur eða verr, eitt af allra vinsælustu málum, sem legið hafa fyrir þinginu á seinni árum. Í því frv. er farið fram á, að gerðar verði ráðstafanir til þess að koma þessu volduga einstaklingsframtaki til hjálpar og sjá um, að landinu verði fenginn nýr skipastóll í stað hinna fækkandi óhirtu ryðkláfa Ólafs Thors og samherja hans.

Einnig mætti nokkuð minnast á alþýðutryggingarnar í þessu sambandi og sýna fram á þá reynslu, sem fengizt hefir fyrir ágæti þeirra þar, sem þær hafa verið lögleiddar. Það mætti minna á mörg mál, sem Alþfl. hefir barizt fyrir, bæði á undanförnum þingum og þessu, ef tími leyfði. En þess er nú ekki kostur.

Gísli Sveinsson talaði háðulegum orðum um eyðslusemi og „tilraunir“ jafnaðarmanna. Hann minntist hinsvegar ekki á „tilraun“ íhaldsins með ríkislögregluna, sem kostaði ríkið um 400 þús. kr. Nei, þær „tilraunir“ jafnaðarmanna, sem hann var af veikum mætti að áfellast og reyna að gera hlægilegar, var sú vakandi viðleitni, að hagnýta sér gæði landsins og afla markaða fyrir afurðir þess. Það voru hinar nýju markaðsleitir stjórnarinnar. Það var sú viðleitni, að vinna sement úr íslenzkri jörð og framleiða áburð með íslenzkri orku. Fyrir þessu og fjölda mörgu öðru beitir Alþfl. sér, og raunar báðir stjórnarflokkarnir. Það er gegn þessari eyðslusemi og „tilraunum“, sem hv. þm. V.-Sk. hefir fundið köllun hjá sér til að rísa með sinni venjulegu geðprýði. Verði honum að góðu.

Það er kunnugt um þennan hv. þm., að hann mun vera einna geðverstur allra þm. Sjálfstfl. gagnvart Alþfl. Þetta hefir sínar eðlilegu orsakir, eins og allt annað. Hann er hræddur við flokkinn og veit, að hann er alstaðar að eflast ekki sízt í hans kjördæmi.

Það er líka önnur ástæða til hinna örðugu skapsmuna hv. þm. Hann hefir ætlað sér að verða foringi í sínum flokki, en þar hefir enginn viljað við honum líta, jafnvel þótt Ólafur Thors væri annarsvegar. G. Sv. hefir því orðið að hlíta því óveglega hlutskipti, að vera aðeins einn af knöpum Ólafs Thors, eins og hinir flokksmennirnir, smáður, lítilsvirtur og undirokaður af Kveldúlfi, foringi í sjálfs sín ímyndun, en beygður vesalingur í reynd.