10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1449 í B-deild Alþingistíðinda. (2426)

150. mál, Brunabótafélag Íslands

Magnús Guðmundsson:

Eins og hv. frsm. tók fram, hefi ég skrifað undir nál. með fyrirvara, vegna þess að mér virðist það vera varhugavert, að Brunabótafélag Íslands taki á sig þá stóru áhættu, sem það hefir í för með sér að hafa heimild til að tryggja öll hús hér í Reykjavík, því að hér geta komið fyrir svo geigvænleg brunatjón, að það gæti orðið félaginu fjárhagslega ofviða að rísa undir því.

Enn eru eftir 4 ár þangað til samningur sá rennur út, sem gerður hefir verið um brunatryggingar húsa hér í bænum. Þess vegna liggur alls ekki á að setja nú lög um þetta.

því atriði, að minna fé fari út úr landinu vegna vátrygginga, ef frv. Þetta verður að l., er því að svara, að ég vona, að það komi ekki fyrir fyrst um sinn, að Brunabótafélagi Íslands detti í hug að taka á sig þá áhættu eitt, sem leiðir af vátryggingum fasteigna hér í Reykjavík, heldur endurtryggi það hjá erlendu félagi að allmiklu leyti, og verði svo gert, sem allir munu telja sjálfsagt, þá er óhjákvæmilegt að mikill hluti af iðgjöldunum fari út úr landinu vegna endurtrygginganna. En eitthvað verður náttúrlega eftir af þessum peningum í landinu, en þar á móti kemur það, að ef skaðar verða ekki meiri en iðgjöldin, þá kæmi inn fé frá útlöndum.

Það, sem sérstaklega vakir fyrir mér, er, að ekki liggi á að setja l. um þetta endilega nú strax, vegna þess, sem ég hefi sagt. Enda hefir það verið skoðun Brunabótafél., að það ætti að smáfærast í aukana, en ekki taka stór stökk.

Við hinar aðrar vátryggingar hefi ég minna að athuga, en af því að svo stutt er síðan félagið færði út kvíarnar, tel ég varlegra að láta líða t. d. 2—3 ár enn, þangað til tími áður áminnzt vátryggingarsamnings fyrir Reykjavík er um það bil útrunninn, að auka eða stækka starfssvið félagsins, því að öryggi þess er fyrir öllu.

Ég á erfitt með að gera mér grein fyrir því, hvers vegna félagið má ekki brunatryggja verzlunarvörur. Ég skil ekki í, að það sé á neinn hátt erfiðari tryggingar en aðrar lausafjárvátryggingar.

Ég mun láta frv. hlutlaust, en vildi aðeins með þessum orðum benda á, að ég tel ekki varlega farið í þessu efni, ef það verður samþ.