30.11.1935
Neðri deild: 87. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1465 í B-deild Alþingistíðinda. (2452)

186. mál, bæjarstjórn í Neskaupstað

Hannes Jónsson [óyfirl.]:

Ég get tekið undir till. hv. 2. þm. N.-M. og tel, að hún eigi fullan rétt á sér, enda er hv. þm. í þeirri n., sem fjallar um launamálafrv., og þetta mál á að fara til þeirrar n. Það er vitanlega alveg laukrétt, sem hv. þm. Ak. benti á um samanburðinn við Siglufjarðarkaupstað. Hinsvegar er það allt mjög hæpið, sem hv. flm. hefir sagt um málið. Að vísu viðurkenndi hann, að þessi fyrirhugaða skipting á bæjarfógeta- og bæjarstjóraembættinu á Norðfirði mundi valda útgjaldahækkun fyrir ríkissjóð, og let það jafnvel í ljós, að hér væri aðeins um bráðabirgðaákvörðun að ræða og að laun bæjarfógetans yrðu að hækka meira síðar, af því að þetta væri svo lágt launað starf.

Hv. þm. taldi, að bæjarfélagið mundi hafa hag af þessu fjárhagslega. Það fæ ég ekki skilið. Getur bærinn fengið bæjarstjóra fyrir lægri laun en 3000 krónur? En þau laun hefir sá maður, sem nú gegnir skrifstofustörfum hjá bæjarfógetanum. Hv. þm. sagði, að bærinn þyrfti að leggja til lögregluþjón. Það verður hann að gera eftir sem áður.

En það er ekki útgjaldaukning ríkissjóðs af þessari ráðstöfun, sem gerir það aðallega að verkum, að ég er mótfallinn þessu frv., heldur sú stefna, sem hér er tekin upp, að skipta þessu starfi á milli tveggja manna. Verði farið eftir þessu fordæmi á öðrum stöðum, t. d. á Siglufirði, þar sem sami maður gegnir bæjarfógeta- og bæjarstjórastörfum, þá getur það numið talsverðri óþarfa fjáreyðslu samtals.

Ég verð því að telja það mjög óviðeigandi í alla staði að taka þetta eina atriði út úr launaflokkunum, þar sem frumvörp um skipun á launum embættis- og starfsmanna ríkissjós liggja nú fyrir þingn., sem kosin var sérstaklega til þess að fjalla um þau. Ég vil því vænta þess, að hv. flm. og hv. allshn. keyri þetta frv. ekki svo hastarlega í gegnum þingið, án þess að það fái þá meðferð, sem sjálfsögð er og nú er hafin í launamálunum yfirleitt. Því að vitanlega á launamálan. að taka afstöðu til þessa embættis, bæjarfógetans í Neskaupstað, eins og annara.