05.12.1935
Neðri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (2554)

131. mál, alþýðutryggingar

Jón Sigurðsson:

Ég skal ekki þreyta hv. þdm. með langri ræðu að þessu sinni. En ég vil þó ekki láta þessa umr. fara svo, að ég segi ekki örfá orð um þetta mál.

Því er ekki að neita, að þetta mál, sem hér liggur fyrir, er að mörgu leyti merkilegt, og að því er sjúkratryggingar snertir, þá er ekki annað hægt að segja, en að þar sé að ýmsu leyti mikil þörf umbóta frá því, sem verið hefir. Á síðari árum hefir orðið margvísleg röskun á okkar þjóðlífi. Sá gamli og góði siður, að fólkið dveldi lengi á sama stað hjá sama fólki, gerði það að verkum, að húsbændur þessa fólks töldu sér skylt að hjálpa þessu fólki, ef veikindi bar að höndum.

Nú er sú breyt. orðin á, að fólkið er oft á sífelldu flögri og á sér hvergi sama stað. Afleiðingin af þessu er sú, að margt af þessu fólki leggur engan eyri fyrir. Ég tel þess vegna, að mál eins og sjúkratryggingar, það sé mál, sem ástæða sé til að styðja. En þá er næst að athuga, á hvern hátt þessi löggjöf verði sniðin svo, að það sé við okkar hæfi og eftir okkar fjárhagslegu getu. Ég er nú kunnugastur í sveitunum og mun þess vegna aðallega líta fyrst og fremst á málið frá því sjónarmiði, eins og það kemur mér fyrir sjónir.

Samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir, að t. d. 5 manna fjölskylda í sveit eigi að borga í ellitryggingu um 30 kr. og sjúkratryggingu 100 kr. samtals. Eftir því, sem ég þekki til í sveitum, er þetta miklu hærri upphæð en það, sem meðalbændur þurfa almennt að greiða í sveitarsjóð, og þykir þó fullerfitt. Og ef á þar á ofan að bæta slíku gjaldi sem því, er hér um ræðir, þá verður eitthvað að skipazt í sveitum til þess að menn geti innt þessi gjöld af hendi. Hitt má vel vera, og ég býst við, að það sé rétt, sem hefir verið sagt, að almennt séð, þá sé, ef lítið er á heildina, gróði að semja við lækni í einu lagi en að margir séu að því. Ég hygg, að hversu þessi sjúkrasamlög eru dýr, liggi mikið í því, að þessi styrkur, eins og svo margir aðrir, er stórlega misnotaður í okkar landi. Hvernig er því t. d. varið með berklavarnastyrkinn? Það er ætlazt til samkv. þessu frv., að menn fái fulla greiðslu eða hjálp, þeir, sem liggja á sjúkrahúsum, bæði læknishjálp og sjúkrahúsvist. Þetta er nú gott og blessað og æskilegt. En ætli það geti ekki farið þarna á líka lund eins og með berklavarnastyrkinn, að það reynist stundum torvelt að koma sumum þessum sjúklingum burt af sjúkrahúsunum.

Hvað berklavarnastyrkinn snertir, þá hefir það farið svo, að ríkið hefir séð sig tilneytt að stofna dýrt embætti til þess að hafa eftirlit með þessu, til þess að sjá um, að styrkurinn verði ekki misnotaður. Ég býst við, að það gæti farið á sama hátt um þessar greiðslur. Það mundu ýmsir liggja í sjúkrahúsum miklu lengur en ástæða væri til, lengur en þeir mundu gera, ef þeir ættu sjálfir að borga meira eða minna af þessu.

Ég álít því hyggilegra að breyta til á þá lund, að allir ættu allmikið á hættu, þeir yrðu sjálfir að standa straum af nokkrum hluta af kostnaðinum, því að það er aðhald, sem ætti að koma í veg fyrir misnotkun á þessari hjálp, sem þarna er um að ræða.

Ég sé ekki, að slík löggjöf sem þessi, hvað sjúkrastyrkinn snertir, geti orðið sveitunum að gagni. Mér sýnist vera stefnt að því að setja l. í þann ramma, að sveitirnar sjái sér ekki fært að nota sér þessi fríðindi af þessum ástæðum, sem ég hefi nú bent á, og hvað kaupstaðina snertir, þá verður alveg sama uppi á teningnum, nema hvað þar verður allt ennþá stórkostlegra, eins og hv. þm. Snæf. hefir bent svo greinilega á. Og a. m. k. þar, sem ég þekki til, yrðu það ekki nema örfá verkamannaheimili, sem gæfu hrist 200 kr. eða þar yfir fram úr erminni til slíkra trygginga. Til þess þarf afkoman að vera betri en hún hefir hingað til verið.

Að því er snertir kaflann um elli- og örorkutryggingar, þá hefi ég þar rekizt á eitt atriði, sem hefir komið mér undarlega fyrir sjónir og ég held, að engin brtt. hafi verið gerð við. Þetta er 58. gr., þar sem svo er ákveðið, að sveitar- og bæjarstjórnir skuli annazt innheimtu til ellistyrktarsjóðanna. Mér er ekki ljóst, hvaða ástæða er til þess að fara að demba því á bæjar- og sveitarstjórnir að innheimta þetta. Það hefir lengi verið innheimt af sýslumönnum og bæjarfógetum, og áreiðanlegt er, að sveitarstjórnum er ekki svo létt að innheimta þetta, og þeirra starf er ekki svo létt, að ástæða sé til að hlaða þar á. Auk þess er það svo, að innansveitarmenn eiga að ýmsu leyti erfiðara með að ganga að sveitungum sínum og félögum en þeir, sem fjær búa. Það er að nokkru leyti af því, að þetta yrði innheimt um leið og þinggjöld, og að nokkru leyti af því, að þegar innheimtumaður segir, að sýslumaður kalli gjöldin inn, þá vita menn, að þau varða lögtaki. Ég mun þess vegna við 3. umr. flytja brtt. um, að innheimtunni verði hagað eins og áður hefir verið. Ég sé enga skynsamlega ástæðu til þess að breyta um það, og hefi ekki heyrt neina ástæðu færða fram fyrir því.

Þá kem ég að síðasta eða 5. kaflanum, um atvinnuleysistryggingar. Það er sá kaflinn, sem ég fyrir mitt leyti get alls ekki fylgt, og ég verð að segja það, að mér kemur það mjög á óvart, að framsóknarmenn skuli hafa gengið með inn á það að samþ. þann kafla, því að ýmsir þeirra voru búnir að hafa mjög sterk orð við mig um, að það kæmi þó aldrei til mála, að þeir samþ. hann, hvað sem öðru líði. Þetta er sá liðurinn í samningi framsóknarmanna við sósíalista, sem ég hélt, að bændur gætu ekki samþ. En það er undarlegt, að annað eins skuli geta komið fyrir og það, að bændur veiti slíkum hlutum fylgi. Ég hélt sannast að segja, að þeir væru búnir að vera svo varir við áhrif og afleiðingar atvinnubótastyrkjanna, eins og það hefir komið í ljós í sveitunum, að þeir vildu ekki bæta þar á. Það atvinnuleysi, sem hér er um að ræða, stafar ekki að óverulegu leyti af því, hvað útstreymið er mikið úr sveitunum til kaupstaða og sjávarþorpa, og að atvinnuvegirnir, sem þar eru reknir, geta ekki fært út kvíarnar að sama skapi; sjávarútvegurinn er þess ekki megnugur að veita fólkinu viðtöku, og af því stafar atvinnuleysið á mölinni. En hvernig stendur á því, að fólkið streymir þangað þrátt fyrir atvinnuleysið í kaupstöðunum? Að þessu spyr margur bóndinn, sem er í vandræðum með að fá fólk til nauðsynlegustu heimilisstarfa. Hvers vegna streymir fólkið á mölina, heldur en að sæta sæmilegu kaupi, auk fæðis og klæða, á góðum heimilum í sveit? Það liggur blátt áfram í því, að fólkinu er þar boðið hærra kaup, þegar kostur er á vinnu, heldur en landbúnaðurinn getur greitt. Og því miður hefir núv. ríkisstj. átt sinn mikla þátt í því að gera bændur lausari í sessi, að því leyti sem hún hækkaði vegavinnukaupið í sveitunum.

þegar bændur eru farnir að sækjast eftir daglaunavinnu, verða þeir um leið lausari við búskapinn, og reyndin verður sú, að þá liggur þeim leiðin opin til kaupstaðanna. — Þegar þangað er komið, geta þeir máske átt kost á atvinnubótavinnu, þegar að þrengir og atvinnuvegirnir hrökkva ekki til að veita þeim vinnu. Og svo á enn til viðbótar með þessu frv., sem hér liggur fyrir, að tryggja atvinnulausu fólki afkomuna í kaupstöðunum með ærnum fjárframlögum frá bæjarsjóðum og ríkissjóði. Hér er því dyggilega haldið áfram á þeirri braut, sem lagt var út á í byrjun af núv. stjórnarflokkum. — Ég hélt satt að segja, að það væri nú orðið svo erfitt í sveitunum, að það þyrfti ekki að gera sérstakar ráðstafanir til þess með fjárframlögum úr ríkissjóði að lokka fleira fólk úr sveitunum til kaupstaðanna.

Það mun hafa verið hv. þm. Barð., sem var að auglýsa það hér í þd., að fylgi Framsfl. við þetta frv. væri bundið því skilyrði, að frv. það um fátækraframfærslu sem einnig liggur fyrir þinginu, yrði samþ. jafnframt. Ég vil nú segja þeim góða manni það, að ég hygg, að hvorki hann eða Framsfl. hafi þurft að gera neinn kaupsamning um það mál; ég ætla, að það hafi svo öruggt fylgi hér í þinginu, hvað sem Alþfl. líður í því efni, að það hafi vissan framgang. Framsfl. þurfti áreiðanlega ekki að kaupslaga neitt um það mál.

Ég hefi nú þegar bent á nokkra af annmörkum þessa frv. — Og þá lít ég fyrst og fremst svo á, að það nái ekki nokkurri att að samþ. atvinnuleysistryggingarnar, það sé hreinasta fjarstæða eins og nú er ástatt.

Í öðru lagi tel ég, að farið sé of geyst á stað með sjúkratryggingarnar. Það ætti að fara hægara í byrjun og sjá, hvernig þær reynast; sníða stakkinn eftir vexti, svo að almenningi verði kleift að standa straum af þeim. Það er ætlazt til þess, að einstaklingar geti notið svo mikils styrks úr sjúkrasjóðunum að ég er sannfærður um, að þeir verða misnotaðir. — Ég sé það hér, að samkv. 43. gr. frv. er bændum ætlað að greiða iðgjöld í jöfnunarsjóð sjúkrasamlaga, ofan á það háa kaupgjald, sem þeir verða nú að greiða, en það er orðið svo gífurlegt, að framleiðslan getur alls ekki borið sig, eins og kunnugt er. Þegar vinnukaupendum er ætlað, til viðbótar kaupgjaldinu, að greiða hátt iðgjald til þessara sjóða, þá er það sannarlega að bera í bakkafullan lækinn.