06.12.1935
Neðri deild: 92. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1606 í B-deild Alþingistíðinda. (2569)

131. mál, alþýðutryggingar

Gísli Guðmundsson:

Ég skal fara fáeinum orðum um nokkur ummæli þeirra hv. ræðumanna, sem talað hafa síðan ég flutti hér ræðu síðast, og vikið hafa að ræðu minni og ýmsu í afstöðu Framsfl. til þess máls, er hér liggur fyrir.

Andstæðingar málsins, hv. sjálfstæðismenn, rísa nú upp hver á fætur öðrum, svo að það eru næsta fáir sjálfstæðismenn eftir í d., sem ekki hafa talað. það er eins og þeir, sem sitja, séu svo óánægðir með ræður hinna, sem talað hafa, að þeir þykjast alltaf þurfa um að bæta og þykist hver og einn ætla betur að gera heldur en sá, er áður talaði. Síðast kom fram hv. 5. þm. Reykv., sem mun hafa ætlað að gera betur en flokksbræður hans aðrir, og flutti hér hjartnæma ræðu.

Annars þykir mér það einkenna ræður þessara andstæðinga málsins, og þá sérstaklega með tilliti til þess, að þetta er 2. umr., hversu lítið þeir ræða einstök atriði frv. Jafnvel allshn., hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk:, hafa vonum minna farið inn á einstök atriði frv., en talað almennt um það. Hinir aðrir flokksbræður þeirra hafa einnig talað almennt um málið og kveðið upp hina og aðra dóma um það, sem að meira og minna leyti hafa verið sleggjudómar. Þetta hlýtur að koma af því, að þeir hafa ekki kynnt sér efni frv., svo að þeir treysti sér til að ræða það í einstökum atriðum. Enda verð ég að segja, að það, sem þeir láta frá sér fara, líkist meir „agitations“-ræðum á kosningafundum heldur en rökræðum á Alþingi. En vitanlega gefur þessi málsmeðferð hv. þm. tilefni til þess, að aðrir, sem þurfa að svara, fari líka nokkuð almennt út í málið.

Þessir hv. þm., sem hafa andmælt frv., hafa ekki treyst sér til að mæla á móti meginatriðum þess, þeim er ég lagði áherzlu á í minni fyrri ræðu. Þeir hafa ekki treyst sér til að mæla í móti því, að hliðstæð löggjöf og þessi er ekkert nýmæli, heldur er samskonar löggjöf og komin á í flestum nágrannalöndum vorum, meira að segja er sú löggjöf, sem hér liggur fyrir, ekkert sérstaklega róttæk, þó að ég telji hana nægilega róttæka eftir okkar ástæðum. Það má vera, að ýmsum finnist, að við getum látið vera að lögleiða slíkt, en þetta er það, sem aðrar þjóðir hafa talið rétt að koma á hjá sér. Þeir hafa heldur ekki þessir hv. þm., getað hrakið það, að frv., eins og það nú liggur fyrir með brtt. frá hv. allshn. og brtt. frá hv. þm. Barð., sem væntanlega verða samþ., sé varlega byggt upp og að framlögum til þessara mála frá hinu opinbera svo í hóf stillt, að þau fari ekki fram úr því, sem viðunandi má teljast.

Ég vil í tilefni af því, sem hv. þm. Snæf. sagði áðan - annars ætla ég ekki að svara honum verulega, því að hann er dauður við þessa umr. -, að ég hefði látið svo um mælt, að Framsfl. hefði haft atvinnuleysistryggingar á stefnuskrá sinni frá upphafi, taka það fram, að þetta er ekki með öllu rétt hermt. Ég sagði, að Framsfl. hefði haft almennar tryggingar á stefnuskrá sinni frá upphafi. Þetta hefir hv. þm. Snæf. sjálfsagt heyrt, og er réttara fyrir hann að hafa það eftir eins og ég sagði það. Þetta er alveg rétt, Framsfl. hefir haft á stefnuskrá sinni að vinna að því að koma á almennum tryggingum, sem gætu að meira eða minna leyti komið fyrir fátækraframfærsluna. Í samræmi við þetta stefnuskráratriði studdi Framsfl. slysatryggingarlöggjöfina, og í samræmi við þetta styður hann einnig nú þetta frv. með þeim breyt., sem á því eru gerðar, sem hann telur sig geta sætt sig við og borið ábyrgð á.

Ég skal þá minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið hjá hv. þm. Ég vil þá fyrst minnast á það, sem hv. 7. landsk. sagði áðan. Hann virtist vilja gefa það í skyn, að það væri í því fjárlagafrv., sem nú liggur fyrir, gerðar ráðstafanir til þess að skera niður útgjöld, sem áður hefðu farið til landbúnaðarins, til þess að koma á atvinnuleysistryggingunum. Ef hv. þm. athugar þetta nánar, mun hann sjá, að þessu er ekki þannig varið, þó að þær brtt., sem nú liggja fyrir við fjárlagafrv. og Framsfl. stendur að, fari að vísu fram á nokkra lækkun í „prósentvís“ á sumum upphæðum, sem segja má, að fari til landbúnaðarins, þá fara þær fram á samskonar lækkun í „prósentvís“ á öllum útgjöldum, þannig, að það má fyllilega segja, að það haldist í hendur. Það er þess vegna misskilningur, ef hv. 7. landsk. er þeirrar skoðunar, eða vill láta líta svo út, að það sé búið í fjárlagafrv. að skera niður framlög til landbúnaðarins til þess að mæta þessum gjöldum. Annað, sem þessi hv. þm. sagði og fleiri hafa höggið í, sem ég sagði um jarðræktarstyrkinn, er hreinn og beinn útúrsnúningur á því, sem ég sagði. Það var þannig til komið, að hv. þm. Snæf. sagði, að úr því að við framsóknarmenn gætum gengið inn á að leggja fram sem hámarksupphæð 75 þús. kr. til atvinnuleysistrygginga, sem sjálfsagt verður ekki svo há upphæð, þá hlytum við að telja framgang þess máls nauðsynlegri en flest annað. Út úr þessu var ekki hægt að draga annað en það, að þetta væri sú hæsta upphæð til almenningsþarfa, sem Framsfl. hefir verið með. Hv. þm. Snæf. tók þessi ummæli sín aftur í ræðu í dag og sagðist hafa átt við þau framlög, sem gert er ráð fyrir í fjárlögum næsta árs.

Ég nefndi jarðræktarstyrkinn sem dæmi upp á háar upphæðir sem Framsfl. hefði verið með að greiða til almenningsþarfa og komið fram, en ekki á hann hátt, að ég vildi bera saman þessar tvær greiðslur, því að það get ég vel sagt, að ef um þetta tvennt er að ræða, þá tel ég jarðræktarstyrkinn, a. m. k. ef honum er varið á þann hátt, sem rétt er og ætlazt er til, miða til meiri þjóðþrifa heldur en sú fjárhæð, sem fer til atvinnuleysistrygginga.

Hv. þm. A.-Húnv. talaði hér í gær, og hefi ég í raun og veru lítið við hans ræðu að athuga, en vildi þó vekja á henni athygli. Það var að vísu eitt, sem var rangt hjá þessum hv. þm., þar sem hann talaði um, að framlagið til sjúkratrygginga væri óútreiknanlegur hlutur eins og nú er, borið saman við framlag til berklavarna. Ég vildi benda á, að þetta er misskilningur hjá hv. þm., því að samkv. brtt., sem allshn. hefir komið fram með, er þetta framlag fastákveðið, sem ýmist er bundið við vissa upphæð eða vissa upphæð á mann, sem fyrirfram má reikna út næsta nákvæmlega eftir mannfjölda í landinu.

En þetta er aðalatriðið, sem við framsóknarmenn lögðum megináherzluna á í sambandi við afgreiðslu þessa máls, að öll opinber framlög yrðu miðuð við hámarksupphæðir, til þess að það yrði ekki óútreiknanlegt, hversu mikið fé færi til þessara framkvæmda. Það var skilyrði fyrir því, að við gætum stutt þessa löggjöf.

En það var fyrir annað, sem ég vildi vekja athygli á ræðu hv. þm. A.-Húnv. Hann var að rifja ýmislegt upp úr sögu síðustu ára í byrjun ræðu sinnar. Hann sagði, að á 8 síðustu árum, sem Framsfl. hefði farið með völd, - sem ekki er rétt, hann hefir ekki verið við völd nema nokkurn hluta þess tíma -, hefði verið eytt svo og svo miklu af peningum úr ríkissjóði. En svo segir hv. þm. - ég skrifaði það orðrétt upp, af því að mér þótti það merkilegt -. „Flest þessi útgjöld hafa farið til umbóta í einni og annari mynd“, og enn bætti hann við: „þau hafa farið til menningar- og hagsbóta á ýmsum sviðum“. Þetta er vitanlega rétt, en ég vildi vekja athygli á því, að það kemur úr þessum flokki, Sjálfstfl., sem er vanur að halda fram við öll tækifæri, og nú seinast fyrir tveimur dögum í útvarpsumr., að yfirleitt mjög miklum hluta af þessum peningum, sem hefði verið eytt á þessum árum, er núv. stjórnarfl. hafa farið með völd, hefði verið varið í sukk og vitleysu. En hv. þm. A.-Húnv. er á öðru máli. Hann segir sannleikann, enda hefi ég orðið var við það við fleiri tækifæri, að þessi hv. þm. á erfiðara með að skrökva en nokkur annar maður í Sjálfstfl., sem ég hefi fyrir hitt. Ég hefi verið með honum á fundum og vil gefa honum þann vitnisburð eftir þá kynningu. Það er ólíkt með hann og aðra flokksbræður hans, að hann vill bera sannleikanum vitni.

Ég sé, að hv. þm. Snæf. og hv. þm. V.- Húnv. er farið að líða illa, vegna þess að ég er að hrósa hv. þm. A.-Húnv., en hann á þetta hrós fyllilega skilið. (HannJ: Ég skil ekki, hvernig hægt er að sjá það á útliti manna, hvernig þeim líkar slíkt).

Hv. þm. Vestm. talaði í þessu máli í dag. Hann er því miður ekki viðstaddur hér svo að hann megi mál mitt heyra. Það var mjög einkennileg ræða, því að því leyti sem það voru ekki almennar hugleiðingar um ástand bæjarfélaganna og hitt og annað, þá var hv. þm. að deila á frv., sem hæstv. núv. atvmrh. flutti á þingi 1932. Hv. þm. Vestm. var að deila á ákvæði í því frv., t. d. að atvinnuleysistryggingarnar væru bornar uppi að 3/5 hlutum af hálfu bæjarfélaganna. En þetta er alls ekki svo í því frv., sem hér liggur fyrir, og get ég ekki skilið, hvað það kemur þessu máli við. Sérstaklega varð mér þetta óskiljanlegt, þegar hv. þm. Vestm. virtist hafa þetta sem árás á okkur framsóknarmenn, að við hefðum viljað samþ. þau ákvæði, sem voru í frv. 1932.

Hv. þm. Snæf. ræddi nokkuð um þær brtt., sem gerðar hafa verið við kaflann um atvinnuleysistryggingar, og vildi ekki telja þær til verulegra bóta. Hv. þm. Barð. hefir svarað því atriði rækilega í dag, og mun ég því ekki um það ræða.

Þá er það hv. 5. þm. Reykv., sem hér talaði síðast. Hann viðhafði í ræðu sinni ýms einkennileg orð og stór orð, þótti mér. Hann talaði jafnvel um, að með þessu frv., ef að l. yrði, væri verið að fremja glæpsamlegt athæfi. Ég veit ekki, við hvað hv. þm. á með þessu, eða hvort það getur talizt viðeigandi orðbragð hér. Hann var líka að tala um þetta „voðalega frv.“ og að hvaða leyti það væri voðalegt. Sagði hann m. a., að í frv. væri fólki talin trú um, að verið væri að tryggja það gegn öllum viðfangsefnum og erfiðleikum lífsins. Hvaða heilvita maður getur lesið slíkt og annað eins út úr frv.? hér er verið að tryggja menn gegn slysum og sjúkdómum. Einnig er mönnum ætlað að tryggja sér nokkurn ellistyrk, og að nokkru leyti eiga menn að geta tryggt sig gegn atvinnuleysi. En því miður eru nú ýmsir fleiri erfiðleikar í lífinu og ýms önnur viðfangsefni að glíma við, svo ég skil ekki, hvernig hv. 5. þm. Reykv. getur látið sér detta í hug að segja slíka hluti.

Ég læt hv. þm. sjálfan um þá skoðun, sem hann let sér um munn fara, að þau framlög, sem hér er gert ráð fyrir til atvinnuleysistrygginga, væru ekki annað en framlög í flokkssjóð sósíalista. Það er eiginlega leiðinlegt að eltast við slíka hluti, þegar ekki eru færð fyrir þeim nein rök. Hv. 5. þm. Reykv. flutti hér nýlega frv. á þingi um að veita 300 þús. kr. til þess að byggja kirkjur fyrir hér í Reykjavík. Hann álítur ákaflega mikla þörf á því á þessum erfiðleikatímum að byggja hér kirkjur og vill setja hér upp sex þjónandi presta. Mér dettur ekki í hug að segja, þó prestarnir hér í Reykjavík hafi löngum fylgt íhaldinu að málum, að hv. þm. ætlist til, að þetta fé renni í flokkssjóð sjálfstæðismanna. En vitanlega gæti ég eins sagt það, þegar hann lætur sér aðra eins vitleysu um munn fara og þá, að framlög til atvinnuleysistrygginga eigi að renna í flokkssjóð sósíalista.

Þá skal ég aðeins minnast á það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér í gær. Hann var m. a. að tala um, að þingmenn Sjálfstfl. réðu mjög yfir sannfæringu sinni sjálfir og þyrftu yfirleitt ekki að spyrja flokkinn að því, hvað þeir ættu að gera í þessu og þessu máli, því þar væri ekki handjárnum beitt. Þess vegna væri ekkert merkilegt við það, þó sumir sjálfstæðismenn væru með, en sumir á móti máli eins og þessu. Ég býst nú við, að þessi yfirlýsing komi ýmsum einkennilega fyrir sjónir, um þetta dæmalausa frjálsræði innan Sjálfstfl., ekki sízt eftir þá viðburði, sem orðið hafa á þessu þingi í sambandi við það, að þingmenn Sjálfstfl. voru kúgaðir til þess, með handjárnum eða einhverju þvílíku, að gera hluti, sem vitanlega margir þeirra vildu alls ekki gera. Hv. 3. þm. Reykv. virtist einnig alveg búinn að gleyma, hvaða kröfur það voru, sem form. Sjálfstfl. gerði í fyrra til Bændafl. hér á þingi og einstakra manna í bænum, þegar hann talaði um, að það mætti ósvinna teljast, ef ákveðinn þm. úr Bændafl. hlýddi ekki flokkssamþykkt, sem sjálfstæðismenn upplýstu - hvernig sem þeir hafa nú vitað það -, að gerð hefði verið í Bændafl. Þeir töldu þá hina mestu ósvinnu, ef þessi Bændaflokksþingmaður hlýddi ekki flokkssamþykktinni og færi eftir sinni eigin sannfæringu. Og svo kemur hv. 3. þm. Reykv. hér og talar um hið dæmalausa skoðanafrelsi innan Sjálfstfl., þessi hv. þm., sem líka er form. sjálfstæðismanna í bæjarstj. Reykjavíkur, þar sem handjárnunum er beitt í hverju máli, hvað lélegt sem það er. Hann getur náttúrlega sagt þetta hér til þess að gera að gamni sínu, en alvarlega verður það aldrei tekið hjá honum.

Annars geta flokkar skipt sér í máli á tvennan hátt. Þannig, að sumir séu með, sumir á móti, en einnig á þann hátt, að hver einstakur maður tali bæði með og móti málinu. Það er sú aðferð, sem við framsóknarmenn höfum lengi átt að venjast af hendi sjálfstæðismanna. Hver einstakur þm. er látinn skipta sér í sama málinu; og venjulega gerist það á þann hátt, að viðkomandi sjálfstæðismaður talar á annan hátt um það mál, sem fyrir liggur, þegar hann talar við kaupstaðarkjósendur, heldur en þegar hann talar við sveitakjósendur, og hann talar öðruvísi þegar hann er staddur á Suðurlandi heldur en þegar hann er staddur á Norðurlandi. Mér er þetta minnisstæðast úr umr. sjálfstæðismanna t. d. um kjötsölulögin og verðjöfnunina á fundum víðsvegar um land í sumar.

Þetta er önnur aðferð sjálfstæðismanna við að skipta sér í máli. Það er óneitanlega mjög svo frumleg aðferð og einkennandi fyrir þeirra flokk, og hana munu þeir m. a. ætla að nota í því máli, sem hér liggur fyrir nú. Þeir tala öðruvísi um það í kaupstöðunum heldur en þeir ætla að tala í sveitunum. Í sveitunum tala þeir um framlögin til ríkissjóðs, sem lögð séu á bak bænda, en í kaupstöðunum um það, hvað fólki þar hafi lítið gagn af framlögunum. Vitanlega getur ekki hvorttveggja verið rétt, - annaðhvort hlýtur að vera rangt.

Þá tók hv. 3. þm. Reykv. sér fyrir hendur að verja ranglætið, sem upphaflega var í frv.; það stóra ranglæti, að það átti að gera reginmun á ellilaunum gamalmenna, eftir því hvort þau voru búsett í kaupstöðum eða úti í sveitum landsins. Móti 100 kr. til örorku gamalmennis í Rvík átti samskonar gamalmenni í hinum kaupstöðunum að fá 60 kr., en gamalmenni úti í sveitunum aðeins 40 kr. Slíkur reginmunur átti að vera á ellilaununum, eftir því hvar menn væru búsettir. Þm. jafnaðarmanna hafa nú fallizt á að ákveða ekkert um þetta í frv. Hefir að vísu hv. 1. landsk. lýst því yfir, að hann væri þessari mismunun fylgjandi, og tel ég honum það sízt til sóma; hitt er honum frekar til sóma, að hann gerði lítið til þess að verja þá afstöðu sína. Hinsvegar gerði hv. 3. þm. Reykv. ýtarlega tilraun til að verja þetta rangláta og óforsvaranlega ákvæði hins upphaflega frv., m. a. á þeim grundvelli, að hann sagði, að tryggingarnar væru yfirleitt þannig byggðar upp, að þeir, sem tryggðir væru, keyptu sjálfir trygginguna. Þetta er nú bara ekki rétt. Frv. er ekki byggt upp á því principi eingöngu. Það er einnig gert ráð fyrir allmiklum framlögum frá öðrum en þeim, sem tryggðir eru. Það er gert ráð fyrir ýmsum framlögum frá hinu opinbera, og sumir greiða tryggingagjöld, sem aldrei njóta þeirra beinlínis sjálfir og ekki geta komið til með að njóta þeirra eftir ákvæðum frv., heldur koma þau til góða öðrum, sem trygginganna njóta. Þannig er frv. byggt upp; það á að hjálpa mönnum til þess að tryggja sig betur heldur en menn sjálfir geta, bæði af því opinbera og þeim einstaklingum, sem betur eru stæðir. Ellitryggingarnar eru því ekki eingöngu reistar á persónulegum iðgjöldum, heldur er einnig lagður á sérstakur tekjuskattur til þess að standa straum af þeim, og þess gjalds eiga gamalmennin að njóta án tillits til þess, hvar á landinu þau eru búsett. Annað væri ranglátt. Hv. 3. þm. Reykv. vill hinsvegar, að ef gamalmenni af tilviljun eða af tryggð við átthagana hafa verið búsett í þeim landshluta, þar sem tekjur eru lágar og tekjuskattshlutinn þar af leiðandi rýr, sem þaðan kemur inn í tryggingarsjóðinn, þá skuli þau gjalda þess; að þeim gamalmennum skuli líða verr í ellinni heldur en hinum, sem hafa verið svo heppin að eiga heima í höfuðstaðnum eða annarsstaðar, þar sem meiri eru efni. Þetta er líka hreinræktaður íhaldshugsunarháttur, þó það sé komið frá jafnaðarmönnum, þá er það íhaldshugsunarháttur fyrir því. (JakM: Hv. þm. botnar bara ekkert í málinu).

Það er nú orðið svo áliðið fundartímann, að ég verð líklega að láta hér við sitja; enda hefi ég svarað því, sem ég tel ástæðu til að svara af því, sem andstæðingar málsins hafa sagt síðan ég talaði í gær.