23.03.1935
Efri deild: 33. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1754 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

73. mál, fangelsi

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég held, að frv. það, sem hér liggur fyrir, sé að ýmsu leyti til bóta frá því, sem nú er. Það er að vísu alveg rétt, sem hv. 2. þm. Rang. sagði, að hér er um 3 tegundir fangelsa eða fangagæzlu að ræða í einu og sama húsi, en það hefir nú verið svo um okkar fangelsismál frá byrjun, að við höfum ekki getað greint eins mikið á milli og aðrar þjóðir, af því erfitt er að koma því svo fyrir í okkar fámenni.

Ég viðurkenni, að það er alveg rétt, að meiri þörf er fyrir fé ríkissjóðs annarsstaðar en í fangelsi, en því er ekki hægt að neita, að með frv. er leitazt við að bæta úr brýnni þörf í kaupstöðunum, sem umkvartanir hafa komið um, t. d. á Akureyri, þar sem er gamall hriplekur timburhjallur. Á Eskifirði hefir verið notaður gamall geymsluskúr, þar sem geymt hefir verið allskonar skran. Á Ísafirði eru sömu vandræðin. Kvartanir hafa líka komið frá Sauðárkróki, að þar vantaði hús til slíkra nota, er að til baga við málsrannsóknir.

Eftir frv. þessu er ekki gert ráð fyrir, að byggja eigi fleiri fangahús á hverjum tíma en samþ. er fjárveiting til í fjárl. og má því fyllilega gera ráð fyrir, að ekki verði hart af stað farið, a. m. k. til að byrja með. Viðvíkjandi 8. gr., um að kostnaður skiptist jafnt milli ríkis og bæjar- eða sveitarfélaga, held ég, að það sé sanngjarnt að því sé hagað á þann hátt, sérstaklega þegar gert er ráð fyrir, að hús þessi skuli og megi nota sem „detentions - eða arrestlokale“ - ef ég má nota svo leiðinlegt orð. Það er alstaðar svo, að því er mér er bezt kunnugt, að bæirnir kosta rekstur slíkra stofnana, og það er rétt, þó að afplánaðar séu þar smærri sektir, sem eru dæmdar vegna brota á lögreglusamþykktum og renna í bæjarsjóð eða sveitar, og held ég því, að þau hlutföll séu rétt, sem gert er ráð fyrir í 8. gr. Viðvíkjandi fangahúsi Rvíkur er það að vísu rétt, að bærinn er hættur að greiða helming kostnaðar, en telur sér þó til eignar hálft fangahúsið, vegna þess að bærinn hefir til þess lagt stofnkostnað og rekstrarkostnað, sem ég veit ekki, hvenær hefir verið. En þetta er gömul regla, og eðlilegt, að bærinn kosti gæzlu og varðhald fyrir minni háttar sektir. Það er rétt, að á síðari árum hefir bærinn ekki greitt þennan kostnað, og við það munu styðjast þau ummæli, sem voru viðhöfð áðan hér í hv. deild, að fangahúsið hér hefir verið notað til að afplána sektir og dóma fyrir menn af öllu landinu. Nú mundi þetta breytast, þegar önnur fangahús rísa upp, er sinntu sama hlutverki, en öll stærri brot yrðu afplánuð á Litla-Hrauni, svo það kemur ekki til greina, að menn víðsvegar af landinu verði sendir hingað til að afplána brot sín. Er nú gersamlega horfið frá því að láta menn afplána stærri brot í fangahúsinu hér. Mér finnst frv. eins og það liggur fyrir vera mjög sanngjarnt og legg með því, að það verði samþ.