04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 1999 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég gat búizt við, að hv. þm. N.-Ísf. hefði ekki breytt um skoðun, þó sannað sé með skýrum rökum, að nothæfi talstöðva sé ekki nærri eins og loftskeytastöðvanna. En hv. þm. hugsar ef til vill eins og gamall og merkur þjóðkunnur Íslendingur, sem nú er látinn og þótti nokkuð þver í lund og lítt gefinn fyrir að taka á móti rökum í máli, þó fram væru borin, en hann sagði eitt sinn, að hann væri ekki kominn hingað til að láta sannfærast.

Hv. þm. segir, að það sé fjárhagsatriðið, sem aðallega hafi mótað sína afstöðu. En það nær þá aðeins til flutningaskipanna. Allir togararnir og öll fólksflutningaskipin hafa loftskeytatæki, og gagnvart togurunum er það meira en hægt er að segja um nokkra aðra fiskiþjóð, því leitun mun á, að hver einasti togari hafi loftskeytastöð annarsstaðar en hér á landi. Annars eru það ekki aðeins skip, sem eru 1600 smál., er hafa loftskeytastöðvar meðal erlendra þjóða. Fjöldi skipa undir þeirri stærð eru útbúin slíkum tækjum og ganga eingöngu til flutninga. Skal ég aðeins nefna að fyrir fádæma snarræði bjargaðist skipshöfnin af norska flutningaskipinu „Sisto“ á Atlantshafinu í vetur, en þó fyrst og fremst fyrir það, að það hafði loftskeytatæki um borð. Ég vil benda mönnum á að lesa grein í norska blaðinu Berlingske tidende, sem fjallar um þessi mál. Þar er sagt, að það sé að vísu virðingarvert að taka upp notkun loftskeyta, þó ekki sé það skylda, og bjarga þannig mörgum mannslífum, en bætir því jafnframt við, að þetta sé þó ekki tryggt, fyrr en það sé orðin almenn skylda. Enda eru loftskeytin það eina, sem að gagni kemur, þar sem ávallt er haldinn „hlustvörður“ samkvæmt alþjóðareglum.

Ég gæti tilnefnt mörg dæmi þessu til stuðnings. Kall í nauðum frá þeim sem á hafinu þurfa hjálpar við, er hvergi öruggara en með loftskeytum. Talstöðvarnar geta ekki fullnægt í þessu efni. Dæmi þessu til sönnunar mætti greina allmörg. Það er skoðun margra manna, að enski togarinn, sent fórst undir Látrabjargi í vetur, hefði ef til vill bjargazt hefði verið unnt að láta því skipi hjálp í té, ef nægilega snemma hefði fengizt vitneskja um, hvernig ástatt var. Með loftskeytum var öruggt að fá slíka vitneskju. Þetta skip hafði talstöð og frá henni fékkst sú vitneskja um afdrif skipsins á síðustu stundu, þegar öll hjálp var útilokuð. Það var af tilviljun, að menn heyrðu, að skip þetta var að farast. Og hversu oft voru þeir búnir að senda neyðarskeyti, áður en þeir voru komnir í dauðann? Ef til vill hefði verið unnt að senda skip þeim til bjargar, ef til þeirra hefði heyrzt áður en þá rak að landi.

Þetta er í stuttu máli sá stóri mismunur, sent er á talskeyta- og loft skeytafyrirkomulaginu. Á loftskeyti er hlustað á öllum stórum stöðvum allan sólarhringinn, en ekki nema örlítinn tíma sólarhringsins á talskeyti. Þá er og það, hve miklu minna langdrægi talstöðvanna er, svo að einnig af þeirri ástæðu veita þau miklu minna öryggi. - Þá er þriðja atriðið en það kemur kannske ekki að baga við strendur landsins, og þess vegna er ég ekki mótfallinn því, að talstöðvar séu notaðar í smærri skip hér við land. En þá kemur ein spurningin enn: „Hvaða tryggingu höfum við fyrir því, ef íslenzkt skip, útbúið með talstöð, siglir t. d. við strendur Frakklands eða Spánar, Portúgals eða Ítalíu, að nokkur maður skilji þau talskeyti, sem skipið sendir? Vitanlega er engin trygging fyrir því.

Þá kemur hv. þm. með þennan voðalega kostnað, sem af þessu stafi. Ég hygg, að ég fari rétt með það, að heyrzt hefir, að eitt af okkar flutningaskipum, Katla, sé nú leigð til flutninga við strendur Suður-Ameríku, og sagt er, að nú eigi að setja í hana loft skeytastöð, áður en hún fer þangað. Þeir treysta ekki talstöðinni, og ef til vill er þetta krafa þeirra, sem ætla að nota skipið. Annars skilst mér, að þessi kostnaður sé ekkert aðalatriði. Byggingarkostnaður við að setja fullkomnustu loftskeytatæki í þessi skip er 4-5 þús. kr., í allra Mesta lagi 6 þús. kr. Það er því ekkert nema grýla, að þetta muni verða til að eyðileggja útgerðina, og ég tel, að það sé að misbjóða hv. þm. að ætla að hræða þá með þessari grýlu.

Þá kom hv. þm. að samkeppninni við Norðmenn. Ég játa, að norskir útgerðarmenn borga lægra kaup, ef miðað er við krónutal. En sé kaup norskra sjómanna reiknað í íslenzkum krónum, þá kemur í ljós, að þeir hafa hærra kaup. Og ég get upplýst hv. þm. um það, að í Noregi er verðvísitalan 150, en hér er hún 228. Þess vegna geta norskir sjómenn lifað eins vel af sínu kaupi og íslenzkir sjómenn af sínu. Og þó að kannske megi segja, að kaup íslenzkra sjómanna sé að krónutali til hærri en hjá sumum öðrum Norðurlandaþjóðunum, þá verð ég því miður að viðurkenna það, að því fer fjarri, að kjör þeirra séu betri.

Ég tel óþarft að pexa mikið um þetta mál nú, þar sem þetta er 1. umr., og mér skilst, að samkomulag sé um að láta málið fá athugun í n., og gefst okkur þá tækifæri til að ræða málið frekar, þegar það kemur úr n.