04.03.1935
Efri deild: 16. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2000 í B-deild Alþingistíðinda. (2916)

32. mál, loftskeytastöðvar í skipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég get vel fallizt á það, sem hv. flm. sagði síðast, að það þýðir lítið að pexa um þetta mál, því að ég býst við, að hann hafi tekið sér til fyrirmyndar þennan forna Íslending, sem hann vitnaði í, að ekki hefði verið kominn til að láta sannfærast. Því að hann hefir ekki aðeins flutt þetta sama mál aftur eins og það var síðast, heldur hefir hann einnig flutt það alveg á sama hátt og á síðasta þingi, og það er aðeins út af því, að ég vildi segja hér örfá orð.

Mér finnst gæta mikillar ósanngirni í málflutningi hans, að hann vill láta líta svo út, að það, sem hér er rifizt um, sé það, hvort menn vilji öryggi á sjónum eða ekki. Þeir, sem flytja þetta mál, vilja auka öryggið á sjónum og vitna í öll möguleg sjóslys þessu máli sínu til stuðnings, en við viljum leysa málið á ódýrari hátt. Hitt nær vitanlega engri átt, að við séum á móti þessu frv. af bölvun okkar, af því að við viljum ekki auka öryggið á sjónum. Auðvitað vilja allir hafa öryggið á sjónum sem mest. En það, sem hér er um að ræða, er þetta: Hvað mikil útgjöld örygginu til aukningar má leggja á útgerðina? Það mætti auka öryggið með því t. d. að hans mönnum að fara út á sjóinn á smærri en t. d. 3000 tonna skipum. Ef ekki væri um neitt að ræða annað en að gera öryggið sem mest, þá væri vitanlega sjálfsagt að gera allt, sem væri hugsanlegt, að yrði til að auka það. En það, sem hér er um að ræða, er að rata þann vandrataða meðalveg hér sem annarsstaðar.

Ég treysti mér ekki til að skera fyllilega úr þeirri deilu, sem hér er risin upp um talstöðvar og loft skeytastöðvar. Ég hefi þó átt tal um þetta efni við sérfróða menn á þessu sviði, og mér hefir verið sagt, að yfirleitt sé lögð mikil áherzla á að hafa talstöðvar í sem flestum skipum, því að þá yrði farið að hlusta eftir skipum á þeirri bylgjulengd, sem þessar talstöðvar hafa. Það þarf því ekkert annað en að fjölga talstöðvum til þess að gert verði að skyldu að vera á verði um það, hvenær talstöðvarnar senda sín skeyti. Hitt er annað mál, að á meðan þetta er í byrjun, þá er ekki eins vel verið á verði með að hlusta eftir því, sem þessar talstöðvar senda út.

Ég skal ekki fara út í þá útreikninga, sem hv. þm. kom með um það, hvort norskir eða íslenzkir sjómenn gætu lifað betur af kaupi sínu. Ég býst við að hvorirtveggja eigi erfitt með að lifa, því að framleiðslan er því miður ekki komin það hátt, að hún fullnægi þörfum manna. En ég held þó, að sá grundvöllur, sem hann byggði útreikninga sína á, sé ekki réttur. Það er ekki þetta, sem þarf að bera hér saman, heldur afkoma norskrar og íslenzkrar útgerðar. Báðir fá sína borgun fyrir fragtina, venjulega í sterlingspundum. Og þegar því fé er breytt í norskar eða íslenzkar krónur, þá má gera samanburð. Það má vitanlega segja sem svo, að útgerð, sem er rekin á heilbrigðum grundvelli og hér sig vel, Muni ekki mikið um slíkt sem þetta. Það má alltaf segja svo um hvern kostnaðarauka, að hann geri aldrei mikinn mun. Það má alltaf segja sem svo, að það muni ekki mikið um að bæta 10 þús. kr. á fjárl., og ef ríkið getur staðið undir 14 milli. kr. fjárl., þá geti það staðið undir 14 milli. og 10 þús. kr., en við þessar upphæðir, þótt smáar megi virðast, aukast þó útgjöldin. Nú er mér sagt, að það liggi við borð, að þessi flutningaskip verði seld og þessi vísir hverfi þannig úr okkar þjóðlífi. Það er sjálfsagt ekki vegna loft skeytastöðvanna, heldur vegna hinna miklu útgjalda, sem gera það að verkum, að þessi útgerð okkar er ekki samkeppnisfær. Það er ekki einhlítt að hugsa um öryggið eitt saman. Ef ekki væri hugsað um neitt annað, þá væri auðvitað bezt að selja skipin, því að sjómenn eru ekki eins öruggir gagnvart neinum skipum eins og þeim, sem eru alls ekki til. En það, sem um er að ræða, er þetta: Hvort er betra að hafa skipin með því öryggi, sem þau hafa nú, eða að hafa engin skip? Hvers vegna hætta menn sér út á sjóinn? Það er af því, að menn vilja leggja sig í þessa hættu til þess að fá atvinnu. Nú eiga menn um það að velja, að missa þessa atvinnu eða að leggja sig í hættuna, eins og hún getur orðið minnst, þannig að útgerðin fái staðizt.

Á síðasta þingi var frv. eins og þessu breytt, og ég vil segja eins og hv. Jim. N.-Ísf., að ég sé enga ástæðu til að ætla, að afstaða hv. þdm. hafi breytzt í þessu. Ég veit, að allir hv. þdm. eru sammála um að hafa öryggið svo mikið sem hægt er, en sumir vilja þó ekki ganga svo langt, að fyrir það verði að selja skipin úr landinu.

Mér er sagt, þó að ég hafi að vísu ekki óyggjandi rök fyrir því, að þessi útgerð hafi heldur sýnt tap en ágóða, svo að með þeim glundroða, sem nú er m. a. af völdum hv. flm. þessa frv. kominn á fiskverzlunina, sé ómögulegt að reka útgerðina áfram, og það verður þá til þess, að skipin verða leigð eða seld úr landi. - Ég hefi því, ekki þó til að feta í fótspor okkar forfeðra, óbreytta skoðun í þessu máli.