10.12.1935
Neðri deild: 95. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 2042 í B-deild Alþingistíðinda. (2973)

133. mál, framfærslulög

Frsm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég skal ekki meira fara út í að rökræða þetta mál nú. Af því að hv. þm. V.-Sk. hefir fallizt á að verða við þeim tilmælum að taka aftur brtt. sínar á þskj. 740, og við, sem erum flm.brtt. þskj. 748, höfum einnig tekið hana aftur til 3. umr., þá sé ég ekki ástæðu til að ræða um þær nú á þessum fundi.

Það hefir verið svo annríkt undanfarið, að ekki hefir verið mögulegt fyrir allshn. að koma saman og athuga framkomnar brtt., en ég vona, að það takist fyrir 3. umr„ svo ég geti þá um þetta sagt fyrir n. hönd, en ef það ekki tekst, mun ég þá taka afstöðu sjálfur til þeirra brtt., sem fram koma.

Hv. þm. V.-Húnv. gerði nokkrar aths. við jöfnuðinn á framfærslukostnaðinum, eins og hann er ætlaður samkv. 72. gr. Ég get lofað honum því, að þetta verður athugað, ef allshn. getur komið því við, og ef möguleikar kynnu að verða á að reikna upp skýrsluna, þá mun það einnig verða tekið til athugunar. Hann benti á, að þessi skýrsla mundi í sumum verulegum atriðum vera röng, en ég get varla vænzt þess á svo stuttum tíma, sem n. hefir til umráða, að hægt verði að fara út í þau atriði. Það hlýtur að lagast í meðferðinni við framkvæmd laganna, þegar þar að kemur.

Hæstv. fjmrh. hefir óskað þess, að n. taki til greina tilmæli hans um að setja hámark á þá upphæð, sem ríkissjóði beri að greiða af framfærslukostnaðinum. Ég mun fara fram á þetta við n., en hvernig hún tekur í það, veit ég ekki. Ég veit ekki heldur, hver rök verða færð fram fyrir því. Mér finnst, að nokkuð verði rennt blint í sjóinn um, hvort hámarkið verði réttlátt, og mér finnst nokkuð benda í þá átt, að hættulegt sé að setja hámark, og það geti raskað því hlutfalli, sem á að vera á milli þess kostnaðar, sem sveitarstjórnir bera, og þess, sem ríkissjóður verður að greiða, og sveitarfélögin verði öryggisminni um tekjuþörf sína. Annars kemur þetta betur í ljós við nánari athugun.

Ég vona, að hv. d. samþ. frv. óbreytt til 3. umr. og n. fái tækifæri til að athuga þær brtt., sem fram eru komnar, og ákveða sig um þær, svo hún geti fyllilega lýst afstöðu sinni til einstakra atriða við 3. umr.