17.10.1935
Neðri deild: 50. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 68 í C-deild Alþingistíðinda. (3471)

62. mál, hafnarlög Siglufjarðar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson) [óyfirl.]:

Það er orðið æðilangt síðan málið lá hér fyrir, og geri ég ráð fyrir, að mörgum okkar sé það orðið nokkuð fyrnt. En þegar við málið var skilið, hafði landbn. fjallað um það og lagt fram sínar till. Og það er skjótast frá að segja, að n. varð öll sammála um að leggja það til við d., að hún samþ. frv. með nokkrum breyt.

Breyt. sú, sem n. leggur til, að samþ. verði á 1. gr. frv., er mjög lítilfjörleg. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp gr., sem hljóðar svo: „Til hafnarbóta á Siglufjarðarhöfn veitist úr ríkissjóði allt að 50 þús. kr. árlega næstu 4 ár, gegn tvöföldu framlagi úr hafnarsjóði Siglufjarðar. Fé þetta greiðist bæjarstjórn Siglufjarðar hlutfallslega við framlag hafnarsjóðs til fyrirtækisins.“ - N. hefir lagt til, að á eftir orðunum „næstu 4 ár“ bætist inn: þegar fé verður veitt til þess í fjárl.

Þá hefir n. öll lagt til, að 2. gr. frv. félli niður og greinatalan breytist skv. því það eru margar ástæður til þess, að rétt þykir að leggja til, að þessi gr. falli niður, en hún hljóðar svo: „Fjármálaráðherra heimilast að ábyrgjast fyrir ríkissjóð allt að 400000 kr. lán, er Siglufjarðarkaupstaður kann að fá til hafnarumbóta á Siglufjarðarhöfn.“ Gera má ráð fyrir, að Siglfirðingar verði ekki sérstaklega óánægðir með það, því n. hefir borizt svo hljóðandi skeyti frá bæjarfógetanum á Siglufirði: Ef ríkisábyrgð er í hafnarlögunum og ætla má, að það verði hafnarlögunum að falli, þá sleppa ríkisábyrgð.“ M. ö. o., bæjarfógetinn á Siglufirði fellst á það, að gr. um ríkisábyrgð falli niður, ef það þykir líklegt, að sú gr. verði frv. að falli. Skv. þessu og líka af ýmsum öðrum ástæðum hefir n. lagt til, að gr. verði felld niður.

Þá hefir n. lagt til að gera lítilfjörlega breyt. við 6. gr. frv. Þar stendur svo, að hafnarnefndina skipi 3 menn, kosnir innan bæjarstj. á sama hitt og aðrar nefndir bæjarstj., og 2 menn utan bæjarstj., annar úr tölu kaupmanna, en hinn úr tölu sjómanna eða útgerðarmanna. Þetta, að hinir 2 menn, sem kosnir skulu utan bæjarstj, skuli vera úr hópi kaupmanna og sjómanna eða útgerðarmanna, leggjum við í n. til, að falli niður, því það byggist í gömlum ástæðum - sem nú eru úr sögunni -, þegar Siglufjörður var að mestu leyti skipaður mönnum úr þessum 2 stéttum.

Um 10. gr. frv. varð n. ekki sammála og kom sér saman um, að einstakir nm. skyldu hafa óbundnar hendur að gera breyt. við þá gr. Í þessari gr. er nýmæli, sem Siglfirðingar telja mjög mikils virði. Svo er sem sé háttað í Siglufirði, að gjalda til kaupstaðarins er aðallega aflað með útsvarsálagningu á framleiðendur, en eins og öllum er kunnugt, er fjöldi þeirra aðkomumenn. Nú hafa útsvarslögin gert það að verkum, að þessar tekjur hafa mjög rýrnað Eftir því, sem skýrsla endurskoðanda bæjarreikninganna hermir, þá er nær helmingur af allri framleiðslu á Siglufirði undanskilinn útsvarsskyldu, eða 13772 smál., að verðmæti 3118 þús. kr., eru útsvarsskyldar, en 13838 smál., að verðmæti 2919 þús. kr., eru ekki útsvarsskyldar. Þetta veldur því náttúrlega, að það er mjög erfitt fyrir kaupstað, sem þarf jafnmikið í kostnað að leggja sakir fjölmennis, einkanlega yfir vertíðina, að afla sér tekna, nema það yrði of þungbært fyrir þá menn, sem samkv. útsvarslögunum eru útsvarsskyldir. Þess vegna hefir bæjarstj. Siglufjarðar farið fram á, að hún mætti hækka vörugjaldið um 100%. Það er ekki hægt að hafa mikið á móti því, að þessi kaupstaður hækki vörugjald sitt, því þar hagar þannig til, að nær því allt, sem þangað kemur, er notað á staðnum. Hér er því öðru máli að gegna heldur en þegar farið er fram á að leggja hliðstæð gjöld á vörur, sem koma til bæja, sem eiginlega eru hafnarbæir fyrir stór héruð, þannig að gjaldið leggst í fjölda manna utan bæjarins. En hér er ekki slíku til að dreifa, því svo að segja allt, sem til bæjarins flyzt, er notað þar á staðnum. - En svo mundi vörugjaldið koma niður á útfluttum vörum líka, og ég verð að segja, að þegar búið er að undanskilja þessa framleiðslu - sem aðkomumenn eiga - að mestu leyti útsvari, þá sé ekki ósanngjarnt, þó kaupstaðurinn fái einhver lítil gjöld af þeim í þessu formi. Og hér er farið fram á að mega innheimta vörugjaldið tvöfalt, þangað til öðruvísi kann að verða ákveðið með almennum lögum. Um þetta segir svo í 10. gr. frv.: „þangað til öðruvísi kann að verða ákveðið með almennum lögum, skal bæjarstjórn Siglufjarðar heimilt að ákveða hækkun á núverandi vörugjaldi um allt að 100%, og jafnframt, að sú hækkun gangi til nauðsynlegra útgjalda bæjarsjóðs. 16 er bæjarstjórn heimilt að undanskilja sérstakar vörur frá hækkuninni, enda séu almennar neyzluvörur ávallt undanskildar hækkun“. Við þessa gr. eru komnar fram 2 brtt., og eru þær báðar frá mönnum í sjútvn. Frá hv. 3. landsk. og hv. þm. Ísaf. er komin fram till. um tað, að fella niður þennan kafla úr gr., m. ö. o. leyfa ekki Siglfirðingum neina hækkun á vörugjaldi. En við hv. þm. Vestm. höfum komið fram með brtt. um þetta sama efni, sem er á þskj. 296 og á þá leið, að í stað þess kafla 10. gr., sem ég hefi nú lesið upp, komi: Þangað til öðruvísi kann að verða ákveðið með almennum lögum, skal bæjarstjórn Siglufjarðar heimilt að ákveða hækkun á núverandi vörugjaldi um allt að 100% af síldarmjöli, síldarolíu og fiskmjöli, um 50% af öllum öðrum vörum. Gengur hækkun þessi til nauðsynlegra útgjalda bæjarsjóðs.“ - Ég þykist vita það, að hv. þm. muni vera sammála um, að það verði að gera bæjar- og sveitarfélögum hægt að innheimta gjöld, svo þau geti fullnægt lögskipuðum útgjöldum. Og það er vitanlegt, að ef mjög mikið af atvinnurekstri á einhverjum stað er undanskilið útsvarsskyldu, þá verður þetta nær eða alveg ómögulegt. Nú stendur svo sérstaklega á um Siglufjörð, að bærinn hefir blásizt mjög mikið út fyrir aðsókn aðkomumanna. Það er því sanngjarnt, að bænum sé gert mögulegt að standa við þær skuldbindingar, sem á honum hvíla lögum samkv., en það sé ég ekki, að geti orðið nema bæjarstj. fái heimild til þess að innheimta einhver ný gjöld.

Ég skal svo ekki hafa þessa framsögu lengri, en vil f. h. n. mæla eindregið með því, að þetta frv. verði samþ. með þeim breyt., sem n. hefir borið fram sameiginlega. Hinsvegar tel ég eigi hægt undan því að komast að heimila Siglfirðingum að innheimta vörugjald það, sem hér er farið fram á. Vona ég, að hv. þdm. sansi sig á því, að það verður að gera bænum fært að standa við þær skuldbindingar, sem á honum hvíla.