27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í C-deild Alþingistíðinda. (3545)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Páll Zóphóníasson:

Fyrst ætla ég að drepa á nokkur atriði, sem hv. 5. og 6. þm. Reykv. voru með, en aðeins til leiðréttingar, án þess þó að ganga inn á þann skoðanamismun, sem er milli þeirra og mín að öðru leyti.

Hv. þm. sagði, að framleiðendur hér á bæjarlandinu hefðu um það að velja nú, að ganga í mjólkursamsöluna og fá þá alveg sama verð fyrir sína mjólk og aðrir, sem utan bæjarlandsins eru eða selja utan við samsöluna og borga verðjöfnunargjald. Þetta er ekki rétt. Hann veit vel, að þeir, sem eru í bæjarlandinu og selja í samsöluna, eru lausir við verðjöfnunargjald af einni kýrnyt fyrir hvern ha. af ræktuðu landi, sem þeir hafa, og fá því hærra verð fyrir mjólkina, en þeir, sem búa utan við, þurfa að borga verðjöfnunargjald. Nemur þetta 3 aurum af lítra, ef ekki eru hafðar kýr á aðkeyptu fóðri. Hitt er annað mál, og má sjálfsagt um deila, hvort verðmismunurinn á mjólkinni af bæjarlandinu og utan við það er nægur til þess að vega upp mismun á framleiðslukostnaði mjólkurinnar á þessum stöðum. Um þetta eru ekki til skýrslur, og því ekkert hægt að fullyrða til né frá.

Í öðru lagi sagði hann, að mjólkin hafi lækkað um einn eyri pr. lítra. Það var meira, eða 1 eyrir heimsend og 2 seld í búð, eða þegar tekið er tillit til magns hvors um sig, 12/3 eyris að meðaltali.

Hv. þm. treysta bæjarstj. betur en öllum öðrum, að mér skildist, til þess að semja reglugerð viðvíkjandi framleiðslu og sölu þeirrar mjólkur, sem seld væri ógerilsneydd til bæjarbúa. Ég fyrir mitt leyti treysti bæjarlækni Reykjavíkur, sem hefir verið aðalmaður í samningu reglugerðarinnar, sem nú gildir, miklu betur en bæjarstj. Þessi hv. bæjarstj. er nú búin að sýna sig með því að láta hafa uppi reglugerð kringum 20 ár, sem er þannig úr garði gerð, að sjálf bæjarstj. hefir brotið hana árlega og oft á ári, - reglugerð, sem tiltekur t. d., að mjólkurbúðir í bænum megi vera 12 flestar, en nú voru þær orðnar 100. Reglugerð, sem skipar ótal margt, sem ómögulegt er að fullnægja og ekkert vit er að heimta, að fullnægt verði. Þessari bæjarstj., sem þetta líður í áratugi, treystir hann betur en bæjarlækninum til að semja reglur um sölu mjólkur.

En nú vík ég að fyrirvara mínum. Hann byggðist á því, að ég er ekki að öllu leyti sammála breyt. frá landbn. á þskj. 248. Er ég sérstaklega ósamþykkur 4. lið hennar. Með hinum liðunum var ég í sjálfu sér, en leit hinsvegar þannig á, að hægt mundi án þess að breyta l. að ná því sama marki, sem stefnt er að. Og það er aðallega tvennt. Annarsvegar að stj. mjólkursamsölunnar komist í hendur framleiðenda sjálfra 1. maí. Þó að l. yrði breytt nú, myndi það aldrei verða fyrr, því að það myndi taka mikinn tíma að koma l. í gegnum þingið.

Hv. 6. þm. Reykv. fullyrti, að allir þeir gallar, sem hann taldi upp og kvað vera samhliða samsölunni, myndu hverfa eins og dögg fyrir sólu, þegar önnur stj. samsölunnar, kosin af framleiðendum, tæki við. Nú hefir hæstv. landbúnaðarráðh. lýst yfir, að hann muni beita sér fyrir, að þessi stj. verði mynduð, - og þá veit hv. 6. þm. Reykv., að óánægjan hverfur eins og dögg fyrir sólu. Það er því sýnt, að það þarf ekki að breyta l. til þess að ná þessu marki.

Hin krafan, sem virðist almenn í bænum, en ég tel nú ekki byggða á réttum forsendum (en hún er almenn í bænum fyrir því, og þess vegna er sjálfsagt að verða við henni), hún er sú, að fá kaldhreinsaða mjólk á markaðinn. Landbúnaðarráðh. hefir líka lýst yfir, að hann muni beita sér fyrir, að þessari kröfu verði fullnægt. Þess vegna þarf ekki heldur að breyta l. af þessari ástæðu.

Af þessu er það, að ég sé ekki þörf á að samþ. hér þær brtt., sem fyrir liggja frá landbn; aðrar koma ekki til greina að mínu áliti. Fyrir því höfum við hv. þm. Hafnf. komið okkur saman um að bera fram rökst. dagskrá, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Þar sem landbúnaðarráðherra hefir lýst yfir því, að hann muni beita sér fyrir þeirri skipun á stjórn samsölunnar, sem lögin nr. 17. jan. 1935 gera ráð fyrir, eftir 1. maí næstk., og ennfremur, að samsalan hafi í búðum sínum kaldhreinsaða mjólk til sölu, og með því að mjólkursölulögin ber að taka til endurskoðunar eigi síðar en á reglulegu Alþingi 1936, þá sér deildin ekki næga ástæðu til að breyta lögunum að svo komnu og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá.“