27.03.1935
Neðri deild: 39. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í C-deild Alþingistíðinda. (3547)

55. mál, sala mjólkur og rjóma o.fl.

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég hefi í gær gert grein fyrir afstöðu minni og sé ekki ástæðu til að þreyta hv. d. með endurtekningu. En það verður varla komizt hjá að svara nokkrum atriðum, sem komu fram hjá hv. 6. þm. Reykv. Heyrði ég að vísu ekki nema seinni hluta ræðu hans, en í þeim hlutanum hygg ég þessi atriði hafi aðallega komið fram. Hann gat þess, sem áður var minnzt á, að í Hafnarfirði hafi ekki verið nein óánægja - a. m. k. ekki nein veruleg - með mjólkursöluna. Nú getur ekki hjá því farið, að þegar gerð er breyt. á sölufyrirkomulagi jafnalmennrar neyzluvöru og mjólk er, að það valdi einhverri truflun, og þá óánægju. Samt held ég þetta sé rétt, sem hv. þm. tók fram, að ekki sé sérstök óánægja með mjólkursöluna í Hafnarfirði, a. m. k. nú orðið. En hv. þm. staðhæfði, að ástæðan til óánægjunnar í Reykjavík væri sú, að Reykvíkingum hefði verið sýndur alveg sérstakur fjandskapur í mjólkursölumálinu, og yfirleitt hefði allt mjólkursölumálið snúizt um það, að sýna Rvík alveg sérstakan fjandskap. Má ég spyrja: Að hverju leyti hefir Rvík aðra aðstöðu í mjólkurmálinu en Hafnarfjörður? Báðir bæirnir hafa nákvæmlega sömu aðstöðu í mjólkursölumálinu, búa nákvæmlega undir sömu l. og við sömu kjör. Þetta ber ekki vott um það, eins og hv. 6. þm. Reykv. vill vera láta, að Reykvíkingum sé sýndur sérstakur fjandskapur, heldur er hitt, að það hefir í Rvík verð hafin sérstök „agitation“ gegn l. mér dettur ekki í hug að draga dul á það, að meðan l. voru á byrjunarstigi - og sjálfsagt ennþá að einhverju leyti - eru gallar á framkvæmd l., sem smátt og smátt er reynt að leiðrétta og verður haldið áfram að leiðrétta. En þetta, að sama sem engin óánægja er í Hafnarfirði, vegna þess að þar er enginn undirróður, sýnir það, að mikið af óánægjunni í Rvík stafar af undirróðrinum, en ekki raunverulegum mistökum, ef lögunum hefði verið mætt með velvild. Reykjavík hefir ekki á nokkurn hátt aðra aðstöðu viðvíkjandi mjólkurl. en Hafnarfjörður. Það eru fullkomin ósannindi. Og andúðin gegn l. í Rvík sýnir allt annað en hv. 6. þm. Reykv. vildi vera láta.

Þá minntist sami þm. á það, að mjólkina hefði mátt selja víðar en hún er seld; Það hefði mátt selja hana gegn ákveðnu hundraðsgjaldi í fjöldamörgum búðum í Rvík, þannig að neytendum hefði orðið miklu léttara að ná í hana. Það er alveg rétt, þetta hefði mátt gera, og hefir verið deilt á samsöluna fyrir að gera þetta ekki. En hvernig hefir tekizt þar, sem þetta hefir verið gert, t. d. í Hafnarfirði áður? Það voru borgaðir 6-8 aurar á lítrann, en nú 2, og út af því er einasta óánægjan í Hafnarfirði, svo að útsölumenn mjólkur hafa hótað verkfalli, verði ekki sölulaun hækkuð. Og úr mjólkursölunefnd var bent á hættuna af því að selja mjólkina gegn hundraðsgjaldi, af því að hægt er að stöðva söluna og eyðileggja hana með því, að seljendur gerðu verkfall. Í Hafnarfirði var hægt að mæta þessu vegna þess að staðurinn er ekki stór. En hér í Rvík var ekki hægt að mæta slíku. Þess vegna var samsalan háð seljendum. Nú er hún frjáls sinna gerða, og það er ekki hægt að trufla hennar gang, eins og það fyrirkomulag, sem er í Hafnarfirði, gæti auðveldlega gert til hættu fyrir samsöluna.

Það hefir verið deilt á samsöluna fyrir það, að hún hafi staðgreiðslu. En hverjir eru það, sem að undanförnu hafa aðallega fengið greiðslufrest í búðum, og hverjir eru það, sem aðallega hafa fengið greiðslufrest á mjólk undanfarið? Það eru þeir, sem seljendurnir vita, að er hættulítið eða hættulaust að lána. Það eru þeir, sem geta greitt, ef þeir vilja, og þeir geta staðgreitt, ef þeir vilja. En hinir, sem ekki er hættulaust að lána, þeim hefir ekki verið lánað.

Það er ekki verið að deila á önnur fyrirtæki, sem hafa tekið upp þessa reglu. Ég veit ekki betur en að þessari reglu sé fylgt í fjölda mörgum fyrirtækjum í bænum. Það þarf ekki annað en að ganga út í Austurstræti til að reka sig á fyrirtæki, sem eru rekin ýmist af ríkinu eða einstaklingum, sem líka heimta staðgreiðslu. Og það er einmitt fyrsta skilyrði til, að hægt sé að koma lagi á mjólkursöluna. Fyrsta skilyrðið til, að hún gangi sæmilega og hægt sé að lækka verðið, er það, að skilvísir menn þurfi ekki að borga fyrir óskilvísa og þurfi svo að leggja það ofan á mjólkurverðið. Engin verzlun getur verið heiðarlegri en sú, að selja gegn staðgreiðslu þannig, að skilamenn þurfi ekki að borga fyrir vanskilamenn með hærra verðlagi en nauðsynlegt væri annars.

Þá hefir verið deilt á samsöluna fyrir það, að þau skilyrði hafi verið sett um barnamjólk, að hún yrði seld hærra verði en önnur mjólk. Um þetta atriði hefi ég nokkrum sinnum leitað mér upplýsinga. Fyrst er að geta þess, að sú mjólk, sem seld hefir verið sem barnamjólk frá Korpúlfsstöðum og framleidd á sérstakan hátt, var seld á 60 aura áður en samsalan tók til starfa. Það, sem deilan stóð um milli Thors Jensens og mjólkursölun., var ekki þetta atriði, því að þegar n. fór fram á það, að Thor Jensen frumleiddi barnamjólk úr sínu fjósi á Korpúlfsstöðum, eftir þeirri reglugerð, sem sett hafði verið, mun hann hafa svarað því, að sín mjólk úr öllum þeim fjósum, sem hann hafði yfir að ráða. væri raunverulega alveg fullkomin barnamjólk og hann gæti því framleitt mjólk í sínum fjósum án þess að hlíta reglum mjólkursölun., og beiddist þess, að fá að selja mjólkina sama verði og hún var annars seld. N. benti honum á, að það fullnægði á engan hátt reglunum um barnamjólk, en bauðst til þess, að ef hann framleiddi barnamjólk eftir þeim settu reglum, þá fengi hann að selja hana 4-5 aurum dýrara en önnur mjólk var seld, eða m. ö. o. 15 aurum ódýrara en hann hafði selt barnamjólkina áður. Þessu tilboði var ekki svarað sérstaklega, en á þeim fundi, þar sem mjólkurmálið var sérstaklega rætt og þar sem þetta mál bar ennfremur á góma, þá áttu þeir tal um þetta, síra Sveinbjörn og hv. þm. G.-K, sem hér er nú viðstaddur, og þá sagði hv. þm., að framleiðslukostnaður á mjólk, þar sem kýrnar verða að fá sérstakt fóður og auk þess að hafa ýmislegt eftirlit með, mundi verða um 45- 48 aurar, og hygg ég að það sé sönnu nær. En mjólkursölun. gat vitanlega ekki verið neinn hagur í því, að barnamjólk, sem framleidd væri á Korpúlfsstöðum, væri seld dýrara en mjólk er seld almennt. N. var á móti því, að sú mjólk, sem framleidd var í öllum þeim fjósum, sem þessi bóndi hafði yfir að ráða, væri kaldhreinsuð og síðan kölluð barnamjólk, án þess að fullnægt væri þeim reglum, sem um það hafa verið settar. Um þetta hefir ágreiningurinn snúizt, eftir því sem ég hefi séð af þeim bréfaviðskiptum, sem fram hafa farið um þetta mál.

Þá er ennfremur verið að deila á mjólkursölun. fyrir það, að hún hafi ekki haft nægilega mikið af barnamjólk handa þeim, sem hennar vildu neyta, og að þessi mjólk hafi verið seld með sérstaklega afkáralegum hætti, þar sem menn hafi orðið að koma með læknisvottorð, ef þeir hafi átt að geta fengið barnamjólk. Um þetta hefi ég líka átt tal við n., og hún hefir bent á það, sem óneitanlega er fyrir hana mikil vörn eða mikil afsökun í þessu má, að læknarnir í bænum, bæði bæjarlæknir og landlæknir, álíti, að það sé rangt fyrirkomulag, heilbrigðislega séð, að kæld ógerilsneydd mjólk sé seld hverjum, sem hafa vill, því að þeir álíti það afslátt af þeim heilbrigðisreglum, sem verði að fylgja um sölu mjólkur; þess vegna eigi ekki að selja slíka mjólk öðrum en þeim, sem samkv. vottorði læknis þoli ekki þá mjólk, sem er gerilsneydd. Við höfum rætt um það talsvert mikið hér, sérstaklega í gær, og þá var það viðurkennt réttilega af hv. þm. G.-K., að gerilsneydd mjólk eða stassaniseruð væri sú langöruggasta mjólk, sem hægt væri að fá; ógerilsneydd mjólk, kaldhreinsuð, væri frá heilbrigðislegu sjónarmiði aldrei jafnörugg, þó að hún kynni að vera eitthvað betri að gæðum en stassaniseruð mjólk. Spurningin er þá sú: Er það þorandi að verða við óskum neytenda, að láta þá fá þessa mjólk, sem þeim þykir bragðbezt, þó að það sé afsláttur á þeim heilbrigðisreglum, sem læknar telja, að verði að fylgja um framleiðslu og sölu mjólkur? Eiga neytendur í þessum bæ að fá þessa mjólk, sem heilbrigðislega séð er ekki eins örugg eins og stassaniseraða mjólkin? Á að gera það þvert ofan í það, sem þessir tveir læknar halda fram?

Ég álít, eins og ég sagði í gær, að vel geti komið til mála að leysa málið á þennan hátt, en ég býst við, að það muni sannast, að þeir verði ekki margir, neytendurnir í þessum bæ, sem vilja heldur kaldhreinsuðu mjólkina heldur en þá, sem nú er stassaniseruð í stöð Mjólkurfélagsins, þar sem unnið er með þeim allra fullkomnustu og beztu tækjum, sem talið er, að völ sé á, þar sem mjólkin missir ekki nema örlítið af þeim gæðum, sem ógerilsneydd mjólk hefir, en fyrir það örlitla tap fæst fullkomið heilbrigðislegt öryggi, sem er aðalatriðið fyrir alla mjólkurneyzluna í stórum bæ. Ég hygg, að þeir verði nokkuð margir, sem taka heldur öryggið fyrir sig og sína.

Á það má og benda í þessu sambandi, að fyrir 11/2 ári síðan, þegar Mjólkurfélagið tók upp stassaniseringaraðferðina, þá var mikið um það skrifað í öllum dagblöðum þessa bæjar, að þetta væri sú sjálfsagðasta meðferð á mjólk, því að hún væri ekkert skemmd, en fullkomlega örugg frá heilbrigðislegu sjónarmiði. Sérstaklega var þessu haldið fram af þeim blöðum, sem nú reyna að breiða það út, að þessi mjólk sé ekki sérstaklega góð. Þá skrifuðu þessi blöð stórar lofgreinar um þessa aðferð, og það var staðfest af landlækni og Niels Dungal, að mjólkin missti ekkert. Og hvernig fór svo með þessa mjólk? Neyzlan á henni hefir tvöfaldazt á einu ári hér í bæ. Þannig hefir neytendum líkað þessi vara. Fólk hefir kastað hinni mjólkinni frá sér. Það liggja fyrir skýrslur, sem sýna, að þetta er tvímælalaust rétt. Þær skýrslur hefi ég séð hjá mjólkursölun., og líka hefir forstjóri Mjólkurfélagsins sent mér þær.

Ég skal ekki fara langt inn á þær umr., sem orðið hafa um verðjöfnunargjaldið og að það séu sérstaklega Reykvíkingar, sem eiga að greiða það. Hv. 2. þm. N.-M. tók það svo rækilega til athugunar. Ég vil þó bæta nokkrum orðum við, þar sem því er haldið fram, að Reykvíkingar, sem standa yfir utan samsöluna, eigi ekki að greiða verðjöfnunargjald, af því að þeir selji beint og hafi því enga vernd eða tryggingu fyrir því, að þeir selji sína vöru. Þetta er ekki rökrétt, vegna þess að samsalan veit alltaf, hve mikið er selt í Reykjavík á hverjum tíma. Þess vegna flytur hún ekki meiri mjólk til bæjarins en hún veit, að muni seljast, reiknað með því, að þeir, sem standa utan við, selji sína mjólk. Þar af leiðandi kemst á þessa sölu fullkomið „kontrol“. En auk þess er þið kunnugt, og það skulu þeir góðu herrar athuga vel, sem berjast fyrir því að fá kaldhreinsaða mjólk, að auk þess fæst ógerilsneydd mjólk beint frá framleiðendum innan Reykjavíkur, svo að þeir, sem vilja fá þessa mjólk, fá hana þar. En ef nú verður látið undan þeirri kröfu, að selja ógerilsneydda mjólk í búðum samsölunnar, þvert ofan í ráðleggingar læknanna, þá hlýtur það að ganga mest út yfir þá, sem selja utan samsölunnar, því að þá fá neytendur í samsölunni þá mjólk, sem þeir áður fengu aðeins utan hennar.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta mál. Ég hefi sérstaklega leitazt við að svara þeim árásaratriðum, sem komið hafa fram, en forðazt að draga á nokkurn hátt ný atriði inn í málið.