07.11.1935
Efri deild: 63. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (3665)

14. mál, jarðræktarlög

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Ég var kallaður í landssímann, svo ég heyrði ekki fyrri hluta ræðu hv. frsm. meiri hl. En mér skildist af síðari hlutanum, að einu rökin, sem lægju að því, að vísa bæri máli þessu til ríkisstj., væru þau, að frv. þetta hefði nokkurn kostnað í för með sér, og að ekki væri séð fyrir tekjum.

Ég fæ ekki annað séð en að till. hv. meiri hl. um að vísa máli þessu til ríkisstj. sé aðeins sérstakt form til að svæfa málið, m. ö. o. tilraun til að fella það. Þessi aðferð er ekki venjuleg, nema þegar mál eru illa undirbúin, en því er ekki hér til að dreifa. Þetta mál er vel undirbúið, liggur ljóst fyrir og er því algerlega vandalaust fyrir hv. þm. að gera sér grein fyrir því. Það er ekkert við það unnið að vísa máli þessu til ríkisstj. Hér liggur fyrir till. um hækkun styrks til vissra jarðabóta, sem gerðar eru á sveitabýlum, og hv. þm. er vorkunnarlaust að gera það upp við sig, hvort hækka beri þennan styrk eða ekki. Það, sem á milli ber, er því, að meiri hl. vill eyða frv., en ég legg hinsvegar til, að það verði samþ., þó ég hinsvegar sé fús til að fallast á brtt. Sé ég ekki ástæðu til að gera nánari grein fyrir því nú, eða ekki fyrr en séð verður, hvort málið nær að ganga til 3. umr. Er ástæðulaust að eyða dýrmætum tíma í að ræða brtt., sem fyrirfram má vita, að verða drepnar. Ég þarf að öðru leyti ekki að bæta miklu við það, sem fram er tekið í nál.

Um það er ekki mikill ágreiningur í landinu, að jarðræktarlögin hafa orðið til ómetanlegs gagns. Hafa þau tvímælalaust orðið lyftistöng þeirra framfara, er orðið hafa í sveitum landsins síðastl. 12 ár, - framfara, sem í mörgum tilfellum hafa gert bændum kleift að standa undir þeim útgjöldum, er á þá hafa hlaðizt undanfarin ár. Þó erfiðlega hafi gengið hin síðustu árin, mundi ástandið samt ennþá alvarlegra hjá landbúnaðinum, ef jarðræktin hefði ekki verið svo hraðstíg á síðustu árum sem raun er á orðin. Það er einnig játað af flestum, sem skyn bera á mál landbúnaðarins, að skilyrðin til þess, að hann geti borið sig, er, að menn lifi af ræktuðu, véltæku landi, og að því hafa jarðræktarlögin stuðlað.

Nú gerðust þau tíðindi á síðastl. ári fyrir atbeina ríkisstj., að kaupið hækkaði í sveitunum, þó það breyttist ekki í kauptúnum og kaupstöðum. Þetta gerði það að verkum, að aðstaða bænda varð erfiðari, og þeir geta nú síður ráðizt í ræktunarframkvæmdir eða byggingar en áður. Heimilisfólk er yfirleitt orðið fátt, og venjulega verður að kaupa að vinnuafl, ef eitthvað verulegt á að gera. Kauphækkunin var fóðruð með því, að afurðaverð til bændanna ætti að hækka, en efndirnar hafa orðið þær, að það hefir fremur lækkað en hækkað, nema e. t. v. má segja, að í fyrrahaust hafi kjötverðið hækkað lítilsháttar sumstaðar, þó jafnvel sé um það deilt líka.

Þegar nú svo er, að afurðaverðið stendur í stað eða lækkar, en kaupgjaldið hækkar, er skiljanlegt, að gagnsemi jarðræktarstyrksins verði minni en áður var, af þeirri einföldu ástæðu, að nú fæst minna framkvæmt fyrir hverja krónu en áður var. Nú er svo um sumt af þeim framkvæmdum, sem frv. á þskj. 16 fjallar um, að það er alls ekki umþráttað, að lífsnauðsyn sé á að auka þær. Skal ég þar fyrst og fremst nefna súrheystóttir, eins og ég líka bendi á í nál. Á þetta ekki aðeins við hér um Suðurland, heldur einnig í þurrviðrasamari sveitunum á Norðurlandi. Þar hafa hey stórskemmzt vegna vöntunar á votheystóttum. Er alkunnugt, hvernig fór á Norður- og Austurlandi sumarið 1934, þegar vart náðist óskemmd heytugga. Afleiðingar þess hafa svo komið fram í slæmum fénaðarhöldum, féð verið veilla fyrir og vanhöldin meiri, og féð væntanlega lélegt til frálags í haust.

Af þessu öllu saman verður ljóst, að tjónið verður ekki tölum talið. Er það þá nokkur hagsýni frá sjónarmiði heildarinnar að láta ganga þannig til ár eftir ár? Borgar sig ekki betur að verja nokkrum þúsundum króna af almannafé til að reyna að koma í veg fyrir, að þetta endurtaki sig ár eftir ár?

Mér kemur ekki til hugar að neita því, að ef frv. þetta nær fram að ganga, er það nokkur gjaldaauki fyrir ríkissjóð. En stórfé getur ekki talizt, að um sé að ræða, þó að hugsazt geti, að næði 50 þús. kr. á ári, ef frv. yrði samþ. óbreytt. En fús mundi ég til lækkunar á sumum liðum, og lækkuðu útgjöld þá að sama skapi. Og ef nauðsyn þætti til bera að spara eitthvað annað í staðinn, þá mundi auðvelt að finna eitthvað, sem mætti skera niður. Má t. d. benda á kostnað við eina n., sem er allmikill, eða nemur rúmlega þessari upphæð. Á ég þar við fiskimálanefnd. Störf hennar munu nú tæpast svo mikil, að ekki mætti fela þau öðrum án tilfinnanlegs kostnaðar. Þó að vísu sé ekki greitt til hennar beint úr ríkissjóði, þá er það samt tekið af framleiðslunni, og kemur þá nokkuð í sama stað niður.

Ég vildi benda hæstv. ríkisstj. eða meiri hl. þings á þennan kostnað, sem mætti spara alveg, algerlega létta af skattgreiðendum. Þetta fé rennur í vasa örfárra manna eins og bitlingur, manna, sem mundu vel komast af án þess að fá það, en í hinu tilfellinu mundi það renna í vasa fjölda manna, sem er nauðsynlegt að fá þetta fé vegna lífsafkomu sinnar.

Ég vildi aðeins benda á þetta, en ef meiri hl. vildi, mundi hægt að finna marga liði óþarfa, sem hægt er að spara á meira fé en þessa litlu fúlgu. Og ég vil benda á að lokum, að það er venjulegt, þegar sagt er a, að þá verður líka að segja b. Þegar stjórnarflokkarnir ákváðu að hækka kaupið 1934, þá átti ríkisstj. að vera það ljóst, að það mundi draga dilk á eftir sér, einnig fyrir ríkissjóðinn. því er ekki hægt að hlaupa frá.

Ég endurtek svo aðeins ósk mína í nál., að frv. verði vísað til 3. umr. óbreyttu, og tek það fram, að ég er fús til samkomulags við meðnm. mína.