09.11.1935
Efri deild: 65. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (3674)

14. mál, jarðræktarlög

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það er búið að ræða þetta mál töluvert hér í hv. d., og hefir það verið tekið á töluvert breiðari grundvelli en þurft hefði, að mér finnst. Hafa kjötlögin verið dregin inn í umr., og um þau hefir komið fram skoðun hjá hv. 2. þm. Rang., sem ég get alls ekki sætt mig við, þó ég búist við, að tækifæri gefist til þess að ræða það mál á öðrum vettvangi hér í hv. d. En ég tek það þegar fram, að ég teldi það ekki viðunandi fyrirkomulag, að vissar sveitir taki að sér að selja allt kjöt til Reykjavíkur, gegn því að veita þeim sveitum, sem við hinn lélega erlenda markað eiga að búa, nokkurra aura uppbót á hvert kjötkg.

Um frv. það, sem fyrir liggur, vil ég svo segja nokkur orð. Þeim till., sem í því felast, vil ég skipta aðallega í tvo flokka. Sumar þeirra tel ég þegar svo aðkallandi, að mér þykir það ekki forsvaranleg afgreiðsla á frv. að vísa þeim til stj., enda geri ég ekki ráð fyrir, að stj. verði svo handtakagreið við að koma þeim í framkvæmd sem vera þyrfti. Og þessi atriði frv., sem ég tel nauðsynlegt að hraða svo mjög og ekki þurfa að verða ríkissjóði til neinna verulegra þyngsla, eru ákvæði 4. og 5. greinar um aukinn styrk til votheystófta og til að byggja þurrheyshlöður. Þó ég sé ekki sammála hv. 1. þm. Eyf. um, að ekki sé lengur nauðsyn til að styrkja ræktun vegna aukinnar kvikfjárræktar, þá tel ég, að samt sem áður þurfi að leggja miklu meiri áherzlu á það en gert er að vernda það fóður, sem bændur afla af hinni auknu ræktun, svo að það ónýtist ekki eða stórskemmist. Þessar gr. frv. beinast að því að veita meiri styrk en áður hefir verið veittur til þess að byggja votheystóftir og þurrheyshlöður úr öðru efni en steinsteypu. Við vitum, að í illviðrasumrum eins og nú ganga er það hey, sem sett er í garða, illa sett. Og sumstaðar hagar svo til, að ekki er hægt að ná í steypuefni til þessara bygginga nema með ærnum kostnaði. Um notkun votheysins er það að segja, að henni hefir fleygt svo fram, að sumir bændur gera nú vothey úr 1/4 til 1/3 af sinni töðu, og hefir það reynzt prýðilega gott fóður handa nautpeningi, hrossum og jafnvel sauðfé. Hinsvegar eru margir enn dálitið hikandi við að leggja í að byggja steyptar tóftir, en ef styrkur til þeirra væri aukinn eins og lagt er til í frv., þá tel ég víst, að koma mundi miklu meiri skriður á byggingu þeirra, og það tel ég í votviðrasumrum það albezta bjargráð, sem hægt er að finna fyrir bændur á Suður- og Vesturlandi. Ég legg þess vegna sérstaka áherzlu á það, að þessar gr. frv. verði ekki lamaðar svo nú, að þessar framkvæmdir komist ekki á fyrr en eftir svo eða svo langan tíma. Ég vildi því fyrir mitt leyti óska þess, að frv. verði vísað til 3. umr., svo hægt væri að taka það til athugunar, hvort ekki næðist samkomulag um það í hv. d. að gera nokkurn hluta frv. að lögum, en ef það fæst ekki, þá óska ég, að umr. verði frestað, svo hægt sé að reyna að bjarga þessum gr. frv.