10.12.1935
Efri deild: 91. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 348 í C-deild Alþingistíðinda. (3748)

165. mál, vörugjald Sauðárkrókshrepps

Magnús Guðmundsson:

Ég er sammála því, að frekari umr. hafi ekki mikla þýðingu. En ég til ekki láta undir höfuð leggjast að svara andmælendum frv. og þess vegna segi ég fáein orð.

Það er ekki furða, þó að maður skipti skapi yfir afstöðu hv. 1. þm. Eyf., því að hún er sú aumasta, sem ég hefi fyrir hitt hér á þingi, að hann skuli flytja samskonar mál eins og þetta, og berjast svo móti þessu máli, að því er séð verður fyrir það eitt, að hans frv. var fallið. (BSt: Hvernig var með -tóbakstollinn?). Ég man ekki til, að hv. þm. hvikaði til í því máli. (BSt: Þetta átti við þann hv. þm., sem er að tala). Ég skil ekki, hvað hv. þm. á við.

Það stoðar ekkert í þessu máli að vísa til endurskoðunar á skattalöggjöf bæjar- og sveitarfélaga. Sú endurskoðun getur ekki farið fram fyrr en á næsta þingi. Og þótt það þing samþykki löggjöf þar að lútandi, sem alveg er óvíst, þá kemur hún ekki til framkvæmda fyrr en 1937, - og hvernig eiga hin bágstöddu sveitarfélög að bjargast til þess tíma?

Sú lausn, sem hér er ráðgerð, er ekki nema til bráðabirgða, og ef það kemur á daginn, að framlengja þurfi þessi lög, eins og hv. frsm. meiri hl. virtist óttast, þá er það fyrir það eitt, að þingið setur ekki á næstunni heildarlöggjöf um þessi mál, eins og við er búizt. En fari svo, er vissulega þörf á þessu frv.

Hv. þm. var að spyrja mig, hvernig atkvgr. um þetta mál hefði farið í Nd. Ég er því alveg ókunnugur. Hv. þm. getur ekki krafið mig reikningsskapar um það, hvernig atkvgr. hefir farið í þeirri deild. Ég verð að biðja hann að fara þangað til að spyrjast fyrir um, hvers vegna það var fellt að láta samskonar ákvæði ná til allra sveitar- og bæjarfélaga.

Hv. þm. sagði, að Sauðárkrókur missti ekki í við þetta og það gegndi öðru máli með Vestmannaeyjar. Það er að vísu rétt, að Vestmannaeyjar hafa svipað gjald áður, en einu sinni var málið líka nýtt fyrir þeim, og var samþ. samt. Og það verður alltaf einu sinni fyrst, sem þarf að samþ. hvert mál, hvort sem það er endurnýjað síðar eða ekki.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri ekki meinsemi að vera á móti þessu máli. Ég held, að það geti ekki verið annað en meinsemi að neita Skagafjarðarhéraði um heimild til að hlaupa undir bagga með einu sveitarfélagi héraðsins á þann hátt, sem frv. ráðgerir.