22.02.1935
Neðri deild: 12. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í C-deild Alþingistíðinda. (3753)

11. mál, sveitarstjórnarkosningar

Thor Thors:

Eins og hæstv. atvmrh. gat um, á þetta frv. um sveitarstjórnarkosningar rót sína að rekja til þáltill., sem borin var fram af allshn. þessarar deildar á aukaþinginu 1933. Í þeirri n. áttu sæti hv. 1. þm. Rang., Jón Ólafsson, hv. þáv. þm. N.-Ísf.. Vilmundur Jónsson landlæknir, hv. þm. Barð., Bergur Jónsson, hv. 1. þm. S.-M., Eysteinn Jónsson, ásamt mér. Þar sem ég átti sæli í þeirri n., sem bar fram till., vil ég geta þess, að mér þykir tilgangi hennar vera að miklu leyti fullnægt með þessu frv., sem hér liggur fyrir. Þó finnst mér í einu verulegu atriði vera sveigt frá því, sem beint kom fram í þeirri þáltill. Hæstv. atvmrh. las upp nokkurn hluta þessarar grg., en lét þó hjá líða að minnast á eitt atriði, sem þar var greinilega tekið fram. Það eru þessi orð, sem ég vil nú, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp úr grg. þáltill.:

„Nefndin telur sjálfsagt, að rýmkuð verði ákvæðin um hlutfallskosningar í málefnum sveita og kaupstaða, og séu þær ekki eingöngu fyrirskipaðar í kaupstöðum, heldur og í öllum stærri þorpum, en heimilaðar sem allra frjálslegastar annarsstaðar.“

Eins og hv. þdm. er kunnugt, var svo ákveðið í lögum nr. 39 frá 1929, að hreppsnefndarkosningar skyldu fara fram í heyranda hljóði, nema ef 1/6 hluti kjósenda óskaði, að kosningar væru leynilegar. Við vorum allir nm. allshn. sammála um það að lögbjóða yfirleitt leynilegar kosningar. En það vakti einnig fyrir okkur, að enda þótt hlutfallskosningar væru sjálfsagðar í kaupstöðum og stærri kauptúnum, gæti það a. m. k. verið varhugavert að fyrirskipa þær algerlega í sveitum. Það er vitanlegt, að hreppsnefndarkosningar til sveita hafa ekki alla tíð verið pólitískar, eins og nú er orðið fyrst og fremst í kaupstöðum og ennfremur í stærri kauptúnum, heldur hafa það verið ýms önnur mál og persónuleg tillit, sem þar hafa meiru um ráðið heldur en almenn landsmál. Ég tel það vafasamt, að það sé til bóta að knýja fram kosningar samkv. strangpólitískum línum í fámennum sveitum, en teldi eðlilegra, eins og gert er ráð fyrir í þáltill., að sem víðtækust heimild væri til þess, en kjósendum væri það í sjálfsvald sett, hvort þeir vildu nota þessa aðferð. Það má ennfremur geta þess, að ýmsar sveitir eru svo fámennar, að erfitt er að koma við slíkum hlutfallskosningum eins og þetta frv. gerir ráð fyrir. Það verður að gera ráð fyrir, að fram komi a. m. k. tveir listar, ef um hlutfallskosningu er að ræða, og gerum ráð fyrir, að 5 menn eigi að kjósa, þá eiga að vera á hverjum lista 10 menn, 5 aðalmenn og 5 til vara. Auk þess þarf 10 meðmælendur með hverjum lista. Þarna er komið 40 manns, sem þurfa að láta uppi skoðun sína á því, hvorn listann þeir ætli að kjósa. Þetta stappar nærri því að vera brot á leynilegum kosningum í hinum fámennari sveitum.

Ég mun því hreyfa því innan allshn., sem ég vænti, að fái mál þetta til meðferðar, hvort ekki sé réttara að halda sig við þann tilgang, sem vakti fyrir þeim, sem þáltill. báru fram.

Um önnur atriði frv. skal ég ekki fjölyrða að sinni. Þau koma til rækilegrar athugunar í n. En það má segja, að í öllum öðrum aðalatriðum sé tilgangi þáltill. náð, þótt vikið sé frá honum í þessu atriði, er ég hefi nú getið um.