25.02.1935
Neðri deild: 14. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (3815)

17. mál, ráðstafanir vegna fjárkreppunnar

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil leiðrétta það, sem fram kom í ræðu hv. þm. V.-Húnv., að viðhorfið til þessa máls, sem hér um ræðir, væri breytt frá því, sem það var í frv. í fyrra. Eins og hv. þm. er mætavel kunnugt um, ef hann hefir á annað borð lesið frv., gerir það ráð fyrir, að á meðan lánið er ekki tekið, og ef það verður ekki tekið, þá skuli ríkissjóður standa undir þeim gjöldum, sem af vaxtalækkun leiðir, um óákveðinn tíma. Af þessu, sem nú var sagt, sést, að ekki hefir orðið mikil viðhorfsbreyt. gagnvart þessu máli. Það var gert ráð fyrir því, að deilt yrði um það, hvort bera ætti fram frv. þannig, að ríkissjóður stæði undir þessum gjöldum, eða fara tekjuöflunarleiðina í frv. sjálfu, vegna þess að það yrði talin líklegri leið til framgangs, að hafa í frv. sjálfu ákvæði um það, hvernig teknanna yrði aflað. Nú viðurkennir hv. þm. að vísu, að það sé nauðsynlegt, til þess að unnt verði að framkvæma lög eins og þessi, að séð verði jafnframt fyrir tekjum til þess að framkvæma það, sem lögin gera ráð fyrir. Einnig ætti að vera hægt að fá hv. þm. til þess að viðurkenna, að ef þetta mál væri svo auðveit, að ekki þyrfti annað en að segja, að vextir af sjávarútvegslánum væru 31/2%, og vextir af landbúnaðarlánum 21/2%, og ríkissjóður stæði undir þessu, þá væri ekki eins vandasamt að framkvæma lækkun vaxta af lánum þessara atvinnugreina.

Það, sem stóð á, þegar sú breyt. strandaði, sem gera átti á landbúnaðarlánavöxtum í Danmörku, var það, að samþ. var, að bankar og sparisjóðir skyldu standa undir vaxtalækkuninni. En þeir neituðu. Þeir sögðust ekki geta gert það. Nú segir hv. þm., að það væri sjálfsagt að sjá ríkisstj. fyrir tekjum til þess að framkvæma frv. svipað þessu, ef ekki væri þannig ástatt, að ríkisstj. notaði peningana til þess að ausa í Pétur og Pál, en ekki til þess að styðja atvinnulífið í landinu. Við þessu er það að segja, að á síðasta þingi sýndi það sig, að andstæðingar stj. gátu ekki komið með lækkun útgjalda svo neinu næmi, og ekki heldur þessi hv. þm., vegna þess að það var vitanlegt, að samkv. yfirlýsingu þessu viðvíkjandi á síðasta þingi hafði verið farið eins langt í lækkun allra útgjaldaliða og unnt var, svo að ómögulegt var að gera betur. Þær till., sem fram komu til lækkunar, voru aðeins till. um lækkun útgjalda til verklegra framkvæmda, en mikið af því fé, eða um 1/2 millj. kr., sem er hærri upphæð en undanfarið hafði verið, átti að ganga til verklegra framkvæmda í sveitum. Þess vegna er vitanlega ekki til neins fyrir hv. þm. að segja, að stj. hafi ekki varið þeim tekjum, sem hún hefir náð í ríkissjóð með tekjuöflunarleiðinni, fyrst og fremst til aukningar verklegra framkvæmda til sjávar og sveita. Hina liðina, sem eru fastir og bundnir, er ekki unnt að lækka. Það sýndi sig við umr. á síðasta þingi um fjárlögin, þar sem andstæðingarnir komu ekki fram með neinar lækkunartill. Þessum hv. þm. er því óhætt að standa við það að styðja ríkisstj. í því að afla tekna í þessu augnamiði, því að stj. fylgdi þeirri stefnu dyggilega á síðasta þingi, að láta tekjurnar ganga til stuðnings atvinnulífinu í landinu, fyrst og fremst. Það er sérstaklega ástæða til þess að benda á þetta nú.

Hv. þm. minntist á það, að vel hefði verið hægt að framkvæma vaxtalækkun árin 1933-34. Ég vil benda á það í þessu sambandi, að einmitt þessi ár var þannig séð fyrir tekjuöflun, einkum þó 1934, að það var meiri munur á tekjum og gjöldum en verið hefir flest ár. Var þá gefin svipuð heimild og þessi, sem hér er farið fram á, án þess að séð væri fyrir tekjum til framkvæmdanna, m. a. til greiðslu til ýmissa hluta viðvíkjandi landbúnaðinum. En það var bara ekki séð fyrir tekjum til þess að greiða þennan kostnað. Afleiðingin varð svo, að á þessu ári hlutu óhjákvæmilega að safnast fyrir skuldir, 3 millj. kr. Þannig er ekki hægt að halda áfram, og það verður ekki gert. Aðalatriðið er, eins og bent hefir verið á, að unnt sé með viðunandi móti, án þess að mönnum sé íþyngt um of með álögum, að útvega tekjur til þess að lækka vexti landbúnaðarins, eins og stj. ætlar að gera samkv. frv., sem lagt verður fram.

Það er vitanlegt, að frv. er ekki of seint fram komið, eins og hv. þm. minntist á, því að allar vaxtagreiðslur koma næsta haust, og ríkisstj. hefir gert ráðstafanir til þess, að þeir vextir verði greiddir á því tímabili, og aðrir, sem fyrr hafa verið samþ., verði greiddir á annan hátt. Þess vegna getur það ekki komið að sök, þótt frv. verði ekki samþ. fyrr en á þessu þingi, því að þessar ráðstafanir náðu til áranna 1933-34, og sérstakar ráðstafanir verða gerðar til þess, að það, sem greitt er á þessu ári, komi ekki í bága. Annars er vitanlega ekki hægt að koma fullkomnu lagi á rekstur landbúnaðarins og annara atvinnuvega í landinu eingöngu með því að lækka vextina. Því, eins og öllum er ljóst, þá verður einhversstaðar að taka þá peninga, sem á þarf að halda til að lækka vextina. Eins og nú er ástatt, verður fyrst og fremst að útvega rýmri og betri markaði fyrir innlendar framleiðsluafurðir. Því það er vitanlega ómögulegt að halda áfram þeirri fjármálapólitík, sem tíðkazt hefir undanfarin missiri, að halda einum atvinnuvegi sérstaklega uppi í landinu á kostnað annara, allra sízt þegar komið er í óefni fyrir þeim öllum, eins og nú er orðið. Þó mun stj. gera það, sem unnt er og í hennar valdi stendur, til þess að halda landbúnaðinum á réttum kili. En þá verður fyrst og fremst að rýmka og bæta markaðinn fyrir afurðirnar; á því veltur það, hvort við komumst yfir þá erfiðleika, sem nú standa fyrir dyrum.