01.04.1935
Neðri deild: 42. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (3904)

64. mál, skipun lögsagnarumdæma

Thor Thors:

Mér skilst, að það sé samkomulag að ræða ekki mikið þessi mál. Ég skal því ekki fara út í að ræða þetta frv. En ég vil beina því til þeirrar n., sem fær þessi mál til meðferðar, að hún leiti fyrir sér um það, hverjar séu óskir þjóðarinnar í þessu efni. Þetta á ekki sízt við um það frv., sem var á dagskrá næst á undan þessu, en það er frv. um fækkun presta, og hið sama má segja um þetta frv., um fækkun sýslumanna. Ég tel, að þjóðin eigi heimtingu á því, að fá að láta álit sitt í ljós um þetta. Ég vil því eindregið beina þeirri áskorun til þeirrar n., sem fær þessi mál til meðferðar, að hún leiti álits þjóðarinnar um þetta mál og málið, sem var á dagskrá næst á undan.