15.03.1935
Neðri deild: 29. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (3974)

79. mál, stofnun atvinnudeildar við Háskóla Íslands

Sigurður Einarsson:

Mér þykir það nú hátíðlega orðað hjá hæstv. forseta, að hann ætlaði að veita mér orðið til þess að bera af mér sakir. En ég vil þá nota mér þann rétt til þess að gera nokkrar aths. við ræðu hv. þm. Snæf., sem gerði mér þá sæmd og gleði að minnast skáldskapar míns frá æskuárunum, sem ég sjálfur var nú búinn að gleyma. Ef ég tæki mig til, mundi ég einnig geta rifjað eitthvað upp af skáldskap ettir hann, sem sízt væri betra. Annars er það einkennilegt, að það, sem hv. þm. nefndi skáldskap, var vísa, er ég orti í tilefni af þeirri verstu einkunn, sem ég hefi fengið í nokkurri námsgrein. En þar kenndi líka grasafræðingur stærðfræði jafnvísindalega og hv. þm. Snæf. vill láta gera í háskólanum samkv. frv. sínu.

Hv. þm. Snæf. misskildi vafalaust það, sem ég nefndi einkamál; honum hættir yfirleitt til þess að vera nokkuð hörundssár og hikar þá ekki við að rangfæra. Hann um það.

Ég ætlaði ekki að víkja persónulega að einstökum prófessorum háskólans, en ég gat ekki skilið annað en þeir væru sammála um frv. það, er meiri hl. allshn. flytur, og skil það ekki enn.

þá var það ódýr fyndni, að ég hefði tilkynnt, að ég ætlaði að verða fyndinn í minni ræðu; en ég sagði aðeins, að ég ætlaði að benda á, til gamans, nokkur atriði í ræðu hv. þm., sem ekki væru í samræmi við það, sem hann sagði í sinni fyrri ræðu. Þetta var nú öll fyndnin, sem ég boðaði. En í lok ræðu hv. þm. skaut upp atriði, sem skiptir miklu máli, þar sem hann sagði, að ekki skaðaði, þó afgreiðsla málsins drægist; það mætti eins byrja að byggja í sumar fyrir því, - það mætti ráðstafa þangað öllu happdrættisfénu, eða tryggja það á annan hátt með þál. En ég tel mjög vafasamt að hefjast handa meðan allt er svo óbundið. Sé ég ekki annað en þetta sé tilraun til þess að fá þingið til að aka málinu af sér, en það ætti þó að fá að ráða nokkru um, í hvaða sniði byggt verður.

Nú þykir mér miður, að hv. 8. landsk. er ekki við. Hann vill senda háskólanum frv. aftur til umsagnar, en ég sé ekki betur en það sé hinn mesti óþarfi og ástæðulaust að gera ráð fyrir þeim vindhanahætti frá hálfu háskólans, að umsögn hans yrði ekki á sama hátt og áður.

Einnig verð ég að segja, að ég varð hissa, þegar hv. 8. landsk. fór að tala um að senda frv. einstökum deildum háskólans til umsagnar. Mér kom það á óvart vegna þess, að það er að gera ráð fyrir og ala á óheppilegri óeiningu innan háskólans sjálfs, sem ég vil ekki geta ástæðu til. (Forseti: Þetta var aðeins aths.). Ég er líka alveg búinn, herra forseti.