21.03.1935
Neðri deild: 34. fundur, 49. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (4000)

96. mál, Líftryggingastofnun ríkisins

Frsm. (Héðinn Valdimarsson) [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að hafa langa framsögu um þetta mál. Það kom fram á síðasta þingi. Það er samið af skipulagsnefnd atvinnumála og er borið fram af meiri hl. allshn. að tilhlutun atvmrh. Frv. fer fram á, að hér verði sett á stofn líftryggingarstofnun ríkisins, sem hafi á hendi allar nýjar tryggingar eftir þann dag, sem það gengur í gildi. En aftur á móti halda gömlu félögin áfram starfsemi sinni.

Þetta er gert í þeim tilgangi bæði að ná inn í landið þeim hagnaði, sem kann að verða af þessari tryggingarstarfsemi, og halda þeim greiðslum, sem innlendir menn leggja til líftryggingarfélaga, hér í landinu, til ráðstöfunar á þann hátt, sem frv. fer fram á.

Það eru mörg nánari atriði, sem ég ætla ekki að fara inn á. Þetta frv. hefir að miklu leyti verið sniðið eftir lögum svipaðra fyrirtækja, eins og t. d. „Statsanstalten“. Ég vil geta þess í sambandi við þetta frv., að n. hefir samið annað frv., sem væntanlega verður borið fram nú, og það er um starfsemi þeirra tryggingarfélaga, sem hér starfa, að þau geti, jafnvel þótt þetta frv. verði samþ., haldið áfram að starfa. Í frv. eru ákvæði um, hvaða kröfur eigi að gera til þeirra o. s. frv. En það verður rætt á sínum tíma. - Ég vil svo óska þess, að frv. þessu verði vísað til 2. umr.